SKÁKLÖG SKÁKSAMBANDS ÍSLANDS
Samþykkt á aðlafundi SÍ, 29. maí 2021
I. kafli Gildissvið
1. grein. Gildissvið
Skáklög þessi gilda um skákmót á vegum Skáksambands Íslands (SÍ) og aðildarfélaga þess og önnur verkefni SÍ eftir því sem nánar greinir í skáklögunum.
II. kafli Skákreglur og skákstjórn
2. grein. Skákreglur
Skákreglur Alþjóða skáksambandsins (FIDE) gilda í sérhverri skákkeppni á vegum SÍ og aðildarfélaga innan þess ef reikna á mótið til alþjóðlegra skákstiga.
3. grein. Skákstjórn og úrlausn ágreiningsmála
Fyrir hverja skákkeppni sem SÍ eða aðildarfélög þess sjá um framkvæmd á skal skipaður skákstjóri sem annast stjórn keppninnar og úrskurðar um deiluatriði. Úrskurður skákstjóra er endanlegur, nema um sé að ræða ágreiningsefni sem skjóta má til dómstóls SÍ samkvæmt lögum og reglum SÍ. Enn fremur getur mótshaldari ákveðið að hafa áfrýjunarnefnd sem hafi það hlutverk að endurskoða ákvarðanir skákstjóra en þá skal getið um það í mótsreglum.
Dómstóll SÍ hefur úrskurðarvald vegna ágreinings um framkvæmd skáklaga þessara.
III. kafli Skákmót á vegum SÍ
4. grein. Almenn ákvæði um skákmót á vegum SÍ
a) Skákmót sem SÍ heldur
SÍ skal árlega standa fyrir eftirtöldum mótum:
- Skákþing Íslands. Keppni á Skákþingi Íslands skiptist í landsliðsflokk, áskorendaflokk, Íslandsmót kvenna (landsliðsflokk kvenna), barna- og ungmennaflokka og Íslandsmót öldunga.
- Hraðskákmót Íslands.
- Atskáksmót Íslands.
- Íslandsmót skákfélaga
b) Tímamörk
Stjórn SÍ ákveður tímamörk (umhugsunartíma) á skákmótum á vegum sambandsins í samræmi við reglur FIDE. Tímamörk skulu auglýst um leið og dagsetningar móta og fyrirkomulag þeirra að öðru leyti.
c) Úrlausn um röð keppenda
Stjórn SÍ ákveður hvernig skorið skuli úr um sigurvegara á mótum á vegum sambandsins ef tveir eða fleiri keppendur verða efstir og jafnir og kynnir reglur þar að lútandi með góðum fyrirvara fyrir mót, sbr. þó sérstakar reglur um Íslandsmót skákfélaga í 12. gr. Hið sama gildir um úrlausn um önnur sæti sem veita mikilvæg réttindi, svo sem sæti í landsliðsflokki.
d) Tímasetning móta og skörun milli flokka
Þegar keppni í einstökum flokkum á Skákþingi Íslands er tímasett skal þess gætt að flokkar sem sami keppandi á þátttökurétt í rekist ekki á. Keppni í kvennaflokki skal því ekki fara fram á sama tíma og keppni í áskorendaflokki og ekki heldur á sama tíma og keppni í landsliðsflokki ef konur eiga keppnisrétt þar. Þá skal Ungmennameistaramót Íslands að jafnaði fara fram síðar en keppni í yngri aldursflokkum ár hvert, enda ávinna sigurvegarar þeirra sér keppnisrétt á ungmennameistaramótinu skv. 8. gr. Heimilt er að víkja frá þessu ef mismunandi aldursflokkar tefla í sama móti, sbr. 5. mgr. 8. gr.
e) Þátttökuréttur og Íslandsmeistaratign
Þátttökuréttur á mótum á vegum SÍ er almennt ekki skilyrtur við íslenskan ríkisborgararétt. Þó getur sá einn hlotið Íslandsmeistaratign sem hefur heimild til að vera fulltrúi Íslands á alþjóðlegum mótum. Um þátttökurétt erlendra ríkisborgara í Íslandsmóti skákfélaga fer eftir ákvæðum 12. gr.
Leiki vafi á um rétt keppenda til þátttöku í einstökum mótum eða flokkum sker stjórn SÍ úr, sbr. þó 12. gr. um úrlausn um keppnisrétt á Íslandsmóti skákfélaga. Skjóta má ákvörðunum stjórnarinnar þar að lútandi til dómstóls SÍ. Eftir því sem mögulegt er skulu stjórn SÍ og dómstóll SÍ leitast við að tryggja að niðurstöður um álitaefni af þessu tagi liggi fyrir áður en mót hefjast.
f) Þátttökugjöld og verðlaun
Stjórn SÍ ákveður hverju sinni þátttökugjöld og verðlaun á mótum á vegum sambandsins.
5. grein. Landsliðsflokkur Skákþings Íslands
Eftirtaldir keppendur hafa þátttökurétt í landsliðsflokki:
- Þrír efstu menn í landsliðsflokki á síðasta Skákþingi Íslands og til vara sá sem þar hafnaði í fjórða sæti.
- Tveir efstu menn í áskorendaflokki á síðasta Skákþingi Íslands.
- Þrír stigahæstu menn landsins, miðað við virk skákstig, aðrir en þeir sem falla undir lið 1 eða 2, og til vara þeir tveir sem næstir þeim eru að stigum.
- Ungmennameistari Íslands.
- Íslandsmeistari kvenna frá árinu áður.
- Eftir atvikum aðrir keppendur valdir af stjórn SÍ.
Stjórn SÍ skal a.m.k. tveimur mánuðum áður en keppni í landsliðsflokki hefst tilkynna hversu margir keppendur verða og hvar keppnin verður haldin. Jafnframt skal tilkynna hverjir hafi rétt til þátttöku samkvæmt töluliðum 1‒3 og gefa þeim tveggja vikna frest til að ákveða hvort þeir tefli. Mánuði áður en keppnin hefst skal stjórnin hafa valið þá sem hún býður til þátttöku. Ef mjög sérstakar aðstæður krefjast er stjórn SÍ heimilt að víkja frá umræddum tímafrestum.
Við val á keppendum samkvæmt 6. tölulið hér að framan, skal stjórn SÍ hafa til hliðsjónar alþjóðleg skákstig og árangur skákmanna á nýafstöðnum mótum, enda hafi þeir teflt eigi færri en 30 kappskákir á undanförnum 24 mánuðum. Stjórn SÍ hefur heimild til að falla frá þessum mörkum við mjög sérstakar aðstæður.
Þrátt fyrir framangreint er stjórn SÍ heimilt að sameina keppni í landsliðsflokki og áskorendaflokki í eitt mót.
Sigurvegari í landsliðsflokki Skákþings Íslands hlýtur nafnbótina skákmeistari Íslands.
6. grein. Áskorendaflokkur Skákþings Íslands
Áskorendaflokkur skal opinn öllum sem ekki hafa unnið sér rétt til þátttöku í landsliðsflokki.
Að jafnaði skulu tefldar níu umferðir eftir svissnesku kerfi en ef þátttakendur eru færri en 20 má fækka umferðum. Stjórn SÍ skal með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara tilkynna hvar og hvenær flokkurinn fari fram. Ef mjög sérstakar aðstæður krefjast er stjórn SÍ heimilt að víkja frá umræddum tímafresti.
Tveir efstu keppendur áskorendaflokks vinna sér rétt til þátttöku í landsliðsflokki árið eftir, sbr. einnig 5. gr.
7. grein. Íslandsmót kvenna (landsliðsflokkur kvenna)
Stjórn SÍ skal árlega ákveða fjölda keppenda og keppnisfyrirkomulag á Íslandsmóti kvenna. Síðasti Íslandsmeistari skal ávallt eiga rétt á þátttöku.
Sigurvegari í kvennaflokki hlýtur nafnbótina Íslandsmeistari kvenna.
8. grein. Ungmenna- og barnaflokkar
Aldursflokkaskipting barna- og ungmennaflokka er eftirfarandi:
- 8 ára og yngri.
- 9‒10 ára.
- 11‒12 ára.
- 13‒14 ára.
- 15‒16 ára.
- 17‒22 ára (Ungmennameistaramót Íslands).
Aldur keppenda miðast við almanaksárið.
Sigurvegari hvers aldursflokks er krýndur Íslandsmeistari í flokknum. Auk þess er efsta stúlkan í hverjum aldursflokki krýnd Íslandsmeistari stúlkna og efsti drengurinn Íslandsmeistari drengja í aldursflokknum. Sigurvegari í flokki 17‒22 ára er krýndur ungmennameistari Íslands.
Ungmennameistari Íslands á rétt til þátttöku í landsliðsflokki árið eftir, sbr. einnig 5. gr. Íslandsmeistarar í flokkum 11‒12 ára, 13‒14 ára og 15‒16 ára fá þátttökurétt í elsta flokknum, þ.e. Ungmennameistaramóti Íslands. Að öðru leyti hafa keppendur einungis þátttökurétt í þeim flokkum sem þeir falla í vegna aldurs þeirra.
Stjórn SÍ getur við sérstakar aðstæður látið mismunandi aldursflokka tefla í sama móti. Íslandsmeistarar skulu þó alltaf krýndir fyrir hvern flokk.
9. grein. Íslandsmót öldunga
Stjórn SÍ ákveður tímasetningu og fyrirkomulag hverju sinni og sér um framkvæmd mótsins.
Sigurvegari hlýtur nafnbótina Íslandsmeistari öldunga.
10. grein. Hraðskákmót Íslands
Stjórn SÍ ákveður tímasetningu og fyrirkomulag hverju sinni og sér um framkvæmd mótsins.
Sigurvegari hlýtur nafnbótina hraðskákmeistari Íslands.
11. grein. Atskákmót Íslands
Stjórn SÍ ákveður tímasetningu og fyrirkomulag hverju sinni og sér um framkvæmd mótsins.
Sigurvegari hlýtur nafnbótina atskákmeistari Íslands.
12. grein. Íslandsmót skákfélaga
a. Almennt um Íslandsmót skákfélaga og þátttöku liða á mótinu
Stjórn SÍ gengst árlega fyrir Íslandsmóti skákfélaga. Keppnin er sveitakeppni og eiga öll skuldlaus taflfélög eða svæðasambönd innan SÍ þátttökurétt. Þá er félögum heimilt að sameinast um eina eða fleiri sveitir. Tilkynning um þátttöku sveita á mótinu skal berast stjórn SÍ í síðasta lagi 20 dögum fyrir upphaf mótsins. Stjórn SÍ skal ákveða keppnisdaga og þátttökugjöld fyrir 1. september ár hvert.
b. Skipting í deildir og fjöldi borða
Keppninni skal skipt í fimm deildir, þ.e. úrvalsdeild og 1.‒4. deild. Sex sveitir skulu vera í úrvalsdeild en átta sveitir í 1.‒3. deild. Stjórn SÍ hefur þó rétt til að fjölga sveitum í 3. deild þyki henni ástæða til. Fjöldi sveita í 4. deild er ótakmarkaður nema stjórn SÍ telji af sérstökum ástæðum þörf á að takmarka fjölda þeirra. Teflt skal á átta borðum í úrvalsdeild en á sex borðum í öðrum deildum. Tefld er tvöföld umferð í úrvaldsdeild en einföld umferð í öðrum deildum. Stjórn SÍ getur ákveðið annað keppnisfyrirkomulag í 3. og 4. deild ef það þykir henta betur miðað við fjölda þátttökusveita.
c. Liðsstig og röðun sveita. Íslandsmeistari skákfélaga
Tvö liðsstig fást fyrir sigur í viðureign sveita og eitt fyrir jafntefli. Samanlagður fjöldi liðsstiga skal ráða úrslitum um endanlega röð sveita í öllum deildum. Verði liðsstig jöfn skal samanlagður fjöldi vinninga ráða.
Efsta sveit í úrvalsdeild er sigurvegari keppninnar. Félagið sem stendur að þeirri sveit hlýtur sæmdarheitið Íslandsmeistari skákfélaga.
d. Færsla sveita milli deilda
Efsta sveit 1. deildar og tvær efstu sveitir 2.‒4. deildar færast upp um deild í lok keppnistímabils en neðsta sveit úrvalsdeildar og tvær neðstu sveitir 1.‒3. deildar færast niður. Sveit sem hefur áunnið sér rétt til að fara upp í efri deild getur þó afþakkað það. Jafnframt getur sveit óskað eftir því að vera færð niður um deild þó að hún hafi unnið sér inn rétt til áframhaldandi veru í þeirri deild sem hún á sæti. Í reglugerð um Íslandsmót skákfélaga skal kveðið á um hvaða sveitum skuli boðið sæti þeirra sem kjósa að flytjast niður um deild eða að fara ekki upp um deild.
Einungis ein sveit frá hverju félagi eða svæðasambandi getur átt þátttökurétt í úrvalsdeild hverju sinni. Ef sveit félags eða svæðasambands sem þegar á sæti í úrvalsdeild sigrar í 1. deild skal sú sveit sem hafnaði í öðru sæti í 1. deild hljóta úrvalsdeildarsætið. Að öðru leyti skulu sömu reglur gilda og ef sveit afþakkar sæti í úrvalsdeild.
e. Keppendaskrá SÍ, keppnisréttur og ágreiningur um lögmæti keppenda
SÍ heldur keppendaskrá vegna Íslandsmóts skákfélaga. Sérstök reglugerð lýsir keppendaskránni og reglum um skráningu í hana.
Keppendur skulu vera skráðir í keppendaskrá SÍ sem félagsmenn þeirra taflfélaga sem þeir tefla fyrir. Aðeins þeir sem eru í keppendaskrá SÍ teljast löglegir með viðkomandi félagi í Íslandsmóti skákfélaga. Þó eru þeir skákmenn sem eru án alþjóðlegra kappskákstiga og ekki skráðir í taflfélag undanþegnir því að þurfa að vera í keppendaskránni.
Vilji skákmaður skipta um félag og tefla fyrir hönd hins nýja félags í Íslandsmóti skákfélaga skal hann senda tilkynningu um það til stjórnar SÍ að lágmarki 20 dögum fyrir upphaf mótsins. Ella getur hann ekki teflt fyrir sitt nýja félag þar.
Athugasemdir vegna keppendaskrárinnar skulu hafa borist stjórn SÍ viku fyrir mót og stjórnin úrskurða um þær í síðasta lagi fimm dögum fyrir upphaf Íslandsmóts skákfélaga.
Ef mótinu er skipt í fleiri en einn hluta er skákmönnum með lögheimili á Íslandi og Íslenskum ríkisborgurum sem eru búsettir erlendis heimilt að ganga í taflfélag þar á milli og tefla fyrir hönd þess á síðari stigum mótsins, að því gefnu að þeir hafi ekki teflt fyrir annað taflfélag á fyrri stigum þess. Til að skákmenn teljist löglegir með hinu nýja félagi skulu slíkar breytingar vera tilkynntar 20 dögum fyrir síðari hlutann.
Í hverri viðureign má að hámarki helmingur liðsmanna hverrar sveitar vera erlendir ríkisborgarar. Erlendir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili á Íslandi síðustu tólf mánuði fyrir keppni skulu þó njóta sama réttar og íslenskir ríkisborgarar að þessu leyti.
f. Styrkleikaröðun
Raða skal keppendum í sveitir og borð eftir styrkleika. Fyrir upphaf 1. umferðar Íslandsmóts skákfélaga skulu félögin skila inn styrkleikaröðuðum lista allra þeirra keppenda sem þau hyggjast senda til keppni. Ekki er leyfilegt að breyta þeirri röð eftir að keppni hefst. Keppandi getur flust upp eða niður um sveit hvenær sem er keppninnar en heildarröð keppenda skal haldast óbreytt.
g. Úrlausn ágreiningsmála um lögmæti keppenda o.fl.
Stjórn SÍ skal árlega skipa sérstaka mótsstjórn sem sker úr um lögmæti keppenda ef beiðni um athugun á því berst henni eða kæra þar að lútandi. Slík beiðni eða kæra skal berast mótsstjórn, eða skákstjórum fyrir hennar hönd, innan 48 klukkustunda eftir lok þeirrar umferðar sem viðkomandi keppandi tefldi í. Mótsstjórn skal kynna framkomna kæru eða beiðni því félagi sem tefldi fram keppandanum og gefa félaginu stuttan frest til að koma fram andmælum. Úrskurður skal liggja fyrir innan 48 tíma frá því beiðni eða kæra barst.
Úrskurðir mótsstjórnar skulu rökstuddir og afrit þeirra afhent báðum málsaðilum innan klukkustundar eftir að þeir eru kveðnir upp. Ef keppandi er úrskurðaður ólöglegur skal viðkomandi viðureign tapast 2-6 hið minnsta þegar um er að ræða 8 manna lið en 1,5-4,5 þegar um er að ræða 6 manna lið. Tapist viðureignin enn stærra standa þau úrslit og skal skák ólöglegs keppenda ávallt teljast töpuð. Úrskurði mótsstjórnar má skjóta til dómstóls SÍ og skulu slík erindi hafa verið send dómstólnum innan þriggja sólarhringa frá því að úrskurður mótsstjórnar féll. Dómur dómstóls SÍ skal liggja fyrir eigi síðar en fimm sólarhringum eftir að erindið berst honum.
Skákstjóri úrskurðar um önnur vafaatriði en þau sem hér voru tilgreind.
h. Afleiðingar forfalla liða
Komi lið ekki til keppni án ásættanlegra orsaka að mati skákstjóra tapar það skákum á öllum borðum. Komi slíkt fyrir tvisvar skal liðið dæmt úr keppninni.
i. Reglugerð um Íslandsmót skákfélaga
Stjórn SÍ setur reglugerð um nánari framkvæmd Íslandsmóts skákfélaga.
IV. kafli Skákstig, málefni landsliða o.fl.
13 grein. Skákstig
Stjórn SÍ sér til þess að upplýsingum um árangur keppenda á mótum á vegum sambandsins og aðildarfélaga þess sem reikna skal til alþjóðlegra skákstiga sé komið mánaðarlega til FIDE til útreiknings. Þetta gildir um kappskákmót sem reikna skal til alþjóðlegra kappskákstiga, atskákmót sem reikna skal til alþjóðlegra atskákstiga og hraðskákmót sem reikna skal til alþjóðlegra hraðskákstiga. Stjórn SÍ getur sett reglur um hvaða skilyrði skákmót þurfa að uppfylla til að vera tekin til útreiknings, enda samræmist þær reglum FIDE.
14. grein. Málefni landsliða og afreksfólks
Stjórn SÍ skal skipa landsliðseinvald bæði í opnum flokki og í kvennaflokki. Landsliðseinvaldarnir skulu annast val á landsliði Íslands í skák hverju sinni.
Skákmeistari Íslands skal ávallt eiga sæti í landsliði Íslands í opnum flokki og Íslandsmeistari kvenna í kvennalandsliði Íslands. Skákmeistari Íslands skal hafa rétt til að tefla fyrir Íslands hönd í undankeppni heimsmeistaramóta (nú EM einstaklinga). Að öðru leyti hafa landsliðseinvaldar frjálsar hendur um val á keppendum og taka á því fulla ábyrgð í samræmi við gildandi keppnis- og agareglur SÍ. Stjórn SÍ skal veita landsliðseinvöldum viðeigandi stuðning í þeirra störfum.
Stjórn SÍ skal tryggja að skákmenn sem tefla fyrir Íslands hönd í einstaklings- eða liðakeppni og eru sendir á slík mót á vegum sambandsins fái viðeigandi þjálfun hjá færum þjálfara eða þjálfurum. Yfirumsjón og skipulagning þessarar þjálfunar er í höndum landsliðseinvalda.
15. grein. Gildistaka
Lög þessi öðlast þegar gildi. Með gildistöku þeirra eru eldri skáklög sambandsins úr gildi fallin.
Einungis ein sveit frá hverju félagi eða svæðasambandi getur átt þátttökurétt í úrvalsdeild hverju sinni. Ef sveit félags eða svæðasambands sem þegar á sæti í úrvalsdeild sigrar í 1. deild skal sú sveit sem hafnaði í öðru sæti í 1. deild hljóta úrvalsdeildarsætið. Að öðru leyti skulu sömu reglur gilda og ef sveit afþakkar sæti í úrvalsdeild.