Guðrún Fanney Briem vann lokamótið í mótaröð stúlkna föstudaginn 3. febrúar eftir geysilega harða keppni sem einkenndist af óvæntum úirslitum og góðum árangri fjölmargra stúlkna. Lokamótið í mótaröðinni fór fram á sama stað og mótaröðin byrjaði í mars í fyrra, þ.e. í hinum glæsilega sal Siglingaklúbbsins Ýmis við Naustavör í Kópavogi. Veður voru válynd þennan dag og gular viðvarnir á kreiki en það kom þó ekki í veg fyrir góða þátttöku en 23 stúlkur skráðu sig til leiks. Fyrir mótið lá fyrir að Iðunn Helgadóttir myndi hreppa sigurlaunin fyrir besta frammistöðu samanlagt í mótinum fimm en hún varð efst í þremur mótum.

Eftir að Lenka Ptacnikova, hinn virti skákkennari yngri barna, lék fyrsta leikinn fyrir Halldóru Jónsdóttur í skák hennar við Guðrúnu Fanneyju Briem, tók baráttan fljótt óvænta stefnu. Í 4. umferð vann Guðrún Fanney Iðunni en sigurleikurinn í þeirri skák, sem kom upp úr Lundúna-afbrigðinu fræga, leit dagsins ljós þegar Guðrún Fanney lék snemma Bf1-a6!, vann peð og skákin nokkuð örugglega eftir það. Í sömu umferð vann Tara Líf sigur á Katrínu Maríu Jónsdóttur. Í 5. umferð dró aftur til tíðinda er Katrín María vann Guðrúnu Fanney og eftir þá umferð voru fimm stúlkur í efsta sæti með 4 vinninga.

Í 7. umferð réðust sennilega úrslit mótsins en þá vann Sigrún Tara Sigurðardóttur skák sína við Iðunni Helgadóttur. Guðrún Fanney var greinilega staðráðin í að gefa ekkert eftir á sprettinum og vann allar skákir sínar í lokin. Það dugði henni til sigurs í mótinu. Þegar upp var staðið og harðri keppni lokið eftir u.þ.b. þriggja klukkustunda baráttu var ljós að gull, silfur og bronsverðlaun kæmu í hlut: 1. Guðrúnar Fanneyjar Briem sem hlaut 8 vinninga af 9. 2. Iðunnar Helgadóttur með 7 v. og að 3. Verðlaun hlyti Katrín María Jónsdóttir 6 v.

Aðrir verðlaunahafar voru Silja Rún Jónsdóttir og Nikola Klimaszewska sem báðar hlutu 6 vinninga. Ekki var hægt að vinna til verðlauna í tveim aldursflokkum og voru betri verðlaunin valin í tilviki Emilíu Emblu sem hlaut ferðavinninga fyrir frammistöðu sína meðal stúlkna sem fæddar voru 2012 og síðar.

Hlutskarpastar í flokki stúlkna sem fæddar voru 2012 og síðar urðu:

  1. Emilía Embla Berglindardóttir 6 v.
  2. Sigrún Tara Sigurðadóttir 6 v.
  3. Magnea Mist Guðjónsdóttir 5 v.
  4. Tara Líf Ingadóttir 5 v.

https://chess-results.com/tnr725371.aspx?lan=1

Mótaröðin

Alls fengu 15 þátttakendur stig fyrir frammistöðu sína í mótunum fimm.

  1. Iðunn Helgadóttir 90 stig
  2. Guðrún Fanney Briem 62 stig

3.– 4. Katrín María Jónsdóttir og Emilía Embla Berglindardóttir 36 stig.

  1. Freyja Birkisdóttir 35 stig
  2. Sigrún Tara Sigurðardóttir 26 stig
  3. – 8. Tara Líf Ingadóttir og Þórhildur Helgadóttir 24 stig
  4. Hrafndís Karen Óskarsdóttir 22 stig
  5. Silja Rún Jónsdóttir 12 stig.
  6. Sóley Kría Helgadóttir 6 stig
  7. Nikola Klimazewska 4 stig.
  8. – 15. Margrét Kristín Einarsdóttir, Halldóra Jónsdóttir og Magnea Mist Guðmundsdóttir 2 stig.

Framkvæmdin

Framkvæmd mótaraðarinnar tókst með ágætum og Skákskólinn stefnir óhikað að annarri mótaröð með svipuðu sniði en sennilega með lengri tímamörkum. Verður það tilkynnt síðar.

Fyrsta mótið í syrpunni fór fram í sal Ýmis við Naustavörn eins og áður hefur komið fram, annað mótið fór fram í Hörpunni í apríl í fyrra samhliða Reykjavíkurskákmótinu, hið þriðja í húsakynnum TV í Vestmanneyjum í maí í fyrra, fjórða mótið á Hotel Berjaya þ.e. gamla Loftleiðahótelinu í október sl. og svo lá leiðin aftur til Ýmis.

Skákstjórar voru Helgi Ólafsson skólastjóri Skákskóla Íslands og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir varaforseti Skáksambands Íslands. Aðaldómari var Þórir Benediktsson. Þá veitti Helgi Árnason fyrrverandi skólastjóri Rimaskóla margvíslega aðstoð. Keppt var um glæsilega ferðavinninga auk aðgangs að chess.com vefsíðunni og Chessable kennsluefni.