Skákþing Íslendinga var fyrst haldið í janúar 1913 að ég held á Hótel Íslandi. Taflfélag Reykjavíkur hélt mótið fram til ársins 1926 en hið nýstofnaða Skáksamband Íslands tók við mótinu 1927 og hefur haldið það síðan. Síðar breyttist heiti mótsins í Skákþing Íslands en er reyndar kallað í daglegu tali  Íslandsmótið í skák. Mótið hefur reyndar fallið niður tvisvar sinnum og mótið í ár var því hið 99. sem haldið er.

Í tilefni 100 ára afmælis mótsins var ákveðið að halda mótið með gerbreyttu fyrirkomulagi. Mótið var opið og öllum gefinn kostur á tefla í efsta flokki – eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður. Hugmyndin kom frá Hrafni Jökulssyni eins og margar góðar hugmyndir. Nærri 70 keppendur tóku þátt og þar af fjórir sem komu erlendis frá.

Segja má að sú hugmynd hafi gengið vonum framar og í ljós kom að þær gagnrýnisraddir á fyrirkomulagið áttu sér fáar stoðir. Fyrsti stórmeistaraáfanginn í sögu þessa 100 ára móts náðist, eitthvað sem aldrei kom í hús á meðan teflt var í lokuðum 10-14 manna flokkum. Varað var við að efstu menn myndu ekki mætast.  Þegar lokastaðan er skoðuð sést að það voru einungis Hjörvar og Héðinn sem mættust ekki  og að Hannes og Björn tefldu báðir við alla sínu helstu andstæðinga.

Teflt var við einstakar aðstæður, það er á 20. hæðinni í Turninum í Borgartúni. Sú hugmynd kom upp úr samtali Stefáns Bergssonar og Hrafns Jökulssonar og reyndar dóttur hans Jóhönnu Engilráð en feðginin höfðu skoðað hæðina. Hæðin var hrá – nánast fokheld. Þegar Albert húsvörður í Höfðatorgi, sem á húsnæðið og lánaði okkur fyrir málamyndaleigu, sýndi mér húsnæðið féll ég strax fyrir því. Auðvitað var ljóst að alls konar erfiðleikar voru til staðar enda takmarkað rafmagn til staðar, ekkert net, engir stólar og borð, takmörkuð lýsing, engin gluggatjöld, takmörkuð og hávær loftræsting, ekkert rennandi vatn nema þá á salernum, takmörkuð salernisaðstaða og fleira í þeim dúr. En þetta voru allt leysanleg verkefni og ekki stór vandamál.

Þegar ég sýndi svo stjórn SÍ og Ásdísi framkvæmdastjóra og Birnu, sem ætlaði að sjá um veitingarnar  og þrif, húsnæðið féllust þeim Ásdísi og Birnu og andlit þeirra sagði: „Jæja, nú er Gunnar minn, endanlega farinn“.

Allt gekk þetta upp. Vodafone lagði fram net, Arion banki lánaði lampa og skjávarpa, Selecta lagði fram vatn, Menntaskólinn við Hamrahlíð lánaði stóla, Ráðhús Reykjavíkur lánaði okkur borð, við fengum aðgang að salernum á 17. hæðinni og starfsmenn Eyktar hjálpuðu til með með ýmislegt á skákstað eins og t.d. loftræstingu.

Eftir margar vinnustundir í aðdraganda mótsins var allt orðið tilbúið á skákstað. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, mætti á staðinn og setti mótið. Illuga var tíðrætt um mikilvægi skákar í skólum – eitthvað sem rímar frábærlega við verkefnið – Skák eflir skóla – sem ráðuneytið hefur ýtt úr vör.

Mótið var hafið. Strax bar til tíðinda í fyrstu umferð þegar Loftur Baldvinsson átti sennilega skák líf síns og lagði Braga Þorfinnsson að velli með hverri fórninni á fætur annarri. Og þetta gaf tóninn fyrir óvænt úrslit í umferð eftir umferð. Fleiri misstigu sig í byrjun móts. Héðinn Steingrímsson tapaði fyrir Skotanum Michael Grove í 2. umferð og skyndilega voru tveir af þeim sigurstranglegri komnir með einn niður.0

Fljótlega tók Hannes Hlífar Stefánsson forystuna og það var ljóst að hann væri í banastuði. Hannes sem átti skelfilegt mót í fyrra, þegar hann fékk aðeins 50% vinningshlutfall, lagði bræðurna Björn og Braga Þorfinnssyni að velli, en í fyrra tapaði hann fyrir þeim báðum.

Hannes hafði eins vinnings forskot á bræðurna fyrir lokaumferðina og mætti þá Héðni. Héðinn vann þá skák eftir að Hannes lék af sér manni.

Þá reyndi á nýlegar breytingar á lögum SÍ. Áður hafði það verið bundið í lög að tefldar væru a.m.k. fjórar kappskákir í einvígi ef tveir yrðu efstir. Á aðalfundi SÍ í vor var það afnumið og þar kemur fram að SÍ ákveði fyrirkomulag úrslitakeppni hverju sinni. Stjórn SÍ hafði ákveðið að ef tveir eða fleiri yrðu efstir og jafnir myndu tveir efstu eftir stigaútreikning tefla einvígi sama dag og mótinu lyki. Þetta er í samræmi við þróunina út í heimi. Langar úrslitakeppnir heyra einfaldlega sögunni til og það meira segja í heimsmeistarakeppninni sjálfri. Menn vilja endapunkt.

Í fyrra, í einvígi Þrastar og Braga voru örfáir áhorfendur þegar þeir tefldu kappskákirnar en mikið fjölmenni þegar lokaátökin fóru fram. Sama gerðist nú; um 80 manns fylgdust með úrslitaeinvígi Hannesar og Björns á staðnum og u.þ.b. jafnmargir með vefútsendingunni frá einvíginu. Þetta er fyrir utan þá sem horfðu svo á skákirnar sjálfar í gegnum netið. Ég skynjaði á samtölum við fólk að langflestir sterkustu skákmenn landsins væru mjög sáttir við þá breytingu að stytta úrslitakeppnina og það kom einnig fram í máli Björns í ræðu sem hann hélt að móti loknu.

Að loknu einvígi fór fram lokahóf og verðlaunaafhending. Til að byrja var klappað fyrir minningu skákvinarins Hermanns Gunnarssonar sem reynst hefur skákhreyfingunni dyggur þjónn í gegnum tíðina. Hannes fékk Íslandsmeistaratitilinn í tólfta sinn. Hann hefur nú unnið titilinn í 12 af 13 síðustu skiptum sem hann hefur tekið þátt! Hannes verður einnig sendur á vegum SÍ á EM einstaklinga sem fram fer í Yerevan í Armeníu á næsta ári. Silfurhafinn, Björn Þorfinnsson, verður hins vegar fulltrúi SÍ á NM í skák sem fram fer í Köge Kyst í Danmörku í október. Björn náði sínum fyrsta áfanga að stórmeistaratitli með þessum frábæra árangri. Þeir félagar Hannes og Björn tefldu frísklegast og best í mótinu.

Þeir bræður Björn og Bragi hafa skipst á því að vera í öðru sæti á Íslandsmótinu skák síðan 2009. Bragi varð annar í fyrra í Kópavogi og í hitteðfyrra á Eigðum og 2009 í Bolungarvík. Björn varð svo annar nú og árið 2010 í Mosfellsbæ. Það hlýtur að styttast í gullið hjá þeim bræðrum!

Hjörvar Steinn og Héðinn urðu jafnir í þriðja og fjórða sætið. Hjörvar fékk bronsið eftir stigaútreikning. Henrik Danielsen, Guðmundur Gíslason og Bragi urðu jafnir í 5.-7. sæti. Fimm efstu menn eiga tryggt sæti í landsliðsflokki að ári fyrir árangur nú, þ.e. Hannes, Björn, Hjörvar, Héðinn og Henrik.

Lenka Ptácníková varð Íslandsmeistari kvenna annað árið í röð og í fimmta skipti alls. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Elsa María Kristínardóttir urðu næstar. Jóhanna tók silfrið eftir stigaútreikning og Elsa fékk bronsið.

Veitt voru sérstök verðlaun fyrir bestan árangur í samanburði við skákstig bæði fyrir þá sem höfðu meira en 2000 skákstig og þá sem höfðu 1000-2000 skákstig. Björn tók þau verðlaun fyrir hina stigahærri og hinn ungi og efnilegi skákmaður, Vignir Vatnar Stefánsson, tók þau fyrir hina stigalægri. Þess má geta Vignir er barnabarnabarn fyrsta Íslandsmeistarans í skák, Péturs Zóphaníassonar.

Alltaf er gaman að skoða hverjir hækka mest á stigum. Símon Þórhallsson hækkar mest allra á alþjóðlegum skákstigum fyrir frammistöðuna eða um 72 skákstig. Vignir Vatnar (47), Felix Steinþórsson (35) og Björn Þorfinnsson (26) komu næstir.

Vignir hækkar mest á íslenskum stigum eða um 103. Næstir eru Baldur Teódór Petersson (96), Hilmir Freyr Heimisson (79) og Símon Þórhallsson (78) og Felix (75).

Það komu margir að þessu móti. Má nefna skákstjórana Ríkharð Sveinsson, sem þurfti á köflum að taka á erfiðum málum, Omar Salama, Ólaf S. Ásgrímsson og Róbert Lagerman. Omar og Rikki sáu auk þess um beinar útsendingar ásamt Steinþóri Baldurssyni sem var heilinn á bakvið vefútsendinguna. Þórir Benediktsson sá um innslátt skáka og Ingvar var formaður dómnefndar um val á skák hverrar umferðar og sá um heimasíðu mótsins. Stefán Bergsson var lykilmaður í undirbúningi mótsins og átti heiðurinn af úrklippunum. Hrafn Jökulsson kom að myndatökum auk þess að eiga þessu skemmtilega hugmynd um mótshaldið. Ásdís Bragadóttir var sem fyrr algjörlega ómissandi og gerir margt að því sem menn ekki sjá. Birna Halldórsdóttir hélt uppi Birnukaffi og sá auk þess um mörg önnur verkin. Algjör perla hún Birna. Og fjöldi annarra stjórnarmanna hjálpuðu við mótið.

Ýmsir styrktaraðilar komu að mótinu. Má þar nefna IcelandicN1OlísÍslandsbankaLS-RetailMarkó PartnersBorgun og Ölgerð Egils SkallagrímssonarHamborgarfabrikkan gaf svo verðlaun fyrir skák umferðirnar, alls 20 máltíðir.

Allir þessir aðilar sem og aðrir sem studdu við mótið fá miklar þakkir fyrir.

Nú er spurning hvernig fyrirkomulagið verður að ári!

Gunnar Björnsson