Íslandsmótið 2020 ætlar að verða eitt mest spennandi Íslandsmót í manna minnum! Handritið að þessu móti er eiginlega fáranlegra en handritið af árinu 2020 sem enginn hefði getað skrifað! Því er eðlieg spurning að spyrja hver sé að skrifa þetta handrit?
Fjórir skákmenn eiga góða möguleika á að hreppa Íslandsmeistaratitilinn. Fyrstan á blað skal nefna tvöfaldan Íslandsmeistara, Guðmund Kjartansson. Guðmundur var einn efstur fyrir umferðina en varð að sætta sig við tap gegn Birni Þorfinnssyni sem ákvað í síðustu tveimur umferðum að breytast úr lirfu í fullvaxinn Anatoly Karpov!
Jafnir Guðmundi að vinningum eru þeir Helgi Áss Grétarsson og Hjörvar Steinn Grétarsson. Báðir höfðu þeir svart í dag en aðeins Hjörvar náði að vinna, vann góðan og frekar auðveldan sigur á Degi Ragnarssyni á meðan að Helgi tefldi maraþon skák við Margeir Pétursson. Helgi átti einhverja vinningsmöguleika en Margeir hélt velli og jafntefli niðurstaðan.
Loks er Bragi Þorfinnsson mættur af fítonskrafi í baráttuna. Hann lagði gjörsamlega allt undir í skák sinni í dag, neitaði til að mynda gangandi þráskák eftir að hafa verið tveimur skiptamunum undir og náði að véla sigur af Þresti Þórhallssyni. Bragi er hálfum vinningi á eftir þremenningunum.
Til að gera þetta allt ennþá sturlaðra þá eiga meira og minna allir topparnir eftir að mætast í lokaumferðunum!
Kíkjum á gang mála í umferð dagsins. Staða og pælingar fyrir lokaumferðir eru svo í lok fréttar en það hefur vafist fyrir hinum menntuðustu mönnum að skoða alla fréttina til að sjá stöðuna í mótinu!
Margeir Pétursson – Helgi Áss Grétarsson
Mjög frumleg byrjanataflmennska hjá Helg Áss í þessari skák. Hann hélt tryggð við sín …g6 modern kerfi og blandaði því við e6/Re7, mjög frumleg uppstilling. Staðan varð svo að einhversskonar kóngsindverja. Hvítur hafði eitthvað betra úr byrjuninni en svartur batt vonir við ákveðin endataflstromp. Mikil stöðubarátta varð úr og loks virtist Helgi vera að snúa á Margeir þegar tímamörkum var náð. Helgi vann mann í endtaflinu. Það dugði hinsvegar ekki til þar sem Margeir át þau peð sem voru í boði og varðist (kannski full lengi) í endtaflinu hrókur og riddari gegn hrók. Jafntefli!
Þröstur Þórhallsson – Bragi Þorfinnsson
Bragi lét strax vita að hann var mættur til að tefla til vinnings þegar hann bauð upp á hið tvíeggjaða „Black Lion“ kerfi. Þetta er byrjanakerfi sem GingerGM sjálfur, Simon Williams hefur mælt með. Svartur fært alltaf einhver færi en tekur auðvitað sína sénsa.
Óhætt er að segja að úr hafi orðið algjörlega mögnuð skák! Ekki í fyrsta skipti sem Bragi býður upp á algjöra rússibanareið í skákum sínum á þessu móti.
Bragi lagði allt í sölurnar, skildi kónginn eftir á miðborðinu og fórnaði skiptamun….já og svo öðrum! Tölvurnar voru auðvitað ekki hrifnar af þessu og hvítur stóð til vinnings. Bragi hélt áfram og baráttan virtist vera að skila jafntefli þegar Þröstur bauð Braga upp á gangandi þráskák. Bragi lagði þá ennþá meira undir og hafnaði því boði og setti pressu á Þröst að finna réttan leik fyrir lok tímamarka. Bragi náði að vinna mann…..en nú virtist vera að það væri komið að Þresti að ná þráskákinni. Þá lagði kóngur svarts í leiðangur sem endaði í herbúðum hvíts….og í skjóli!
Bragi kláraði svo dæmið með skemmtilegri drottningartilfærslu Dh4-h1-a1 og sigurinn í hús! Algjörlega geggjað dæmi!!
Vignir Vatnar Stefánsson – Gauti Páll Jónsson
Skákin hjá Vigni og Gauta skipti kannski ekki öllu máli þegar kemur að toppbaráttunni engu að síður skemmtileg. Gauti gaf peð sem Vignir hirti og fyrst um sinn virtist það gefa Vigni góð fær en svo virtist fljótlega eins og Gauti næði að einfalda stöðuna í jafntefli þegar hann vann peðið aftur með mislita biskupa.
Eina von Vignis fólst í óþægindum á f7 reitnum þar sem hann var að vinna peð. Líklegast var staðan jafntefli en lærdómsrík mistök 34…h6? kostuðu líklega fullan punkt á meðan að 34…g6 hefði að öllum líkindum nægt til að verja stöðuna, allavega miðað við rannsóknir Ingvar og Björns í útsendingu mótsins.
Guðmundur Kjartansson – Björn Þorfinnsson
Hvar hefur þessi Björn verið? Síðustu tvær skákir hefur Björn teflt eins og algjör herforingi og lagt tvo landsliðsmenn að velli með taflmennsku sem aðeins er hægt að líkja við Anatoly Karpov eða Ulf Anderson. Nánast engin mistök og staðan bætt hægt og þétt og þrýst heim i endataflinu!
Guðmundur glímdi við grjótgarð Björns í byrjuninni og fékk líklegast eitthvað aðeins betra en fljótlega var taflið í jafnvægi. Eftir að svartur fékk tök á b4 reitnum var líklegast orðið mjög erfitt fyrir hvítan að tefla upp á eitthvað meira en jafntefli í þessari skák og líklegast hefði Guðmundur átt að sætta sig við það og reyna að stýra jafnteflinu í hús sem hefðu verið góð úrslit miðað við stöðuna í mótinu. Þess í stað fékk hinn endurholgaði Karpov að njóta sín og endataflinu var stýrt glæsilega í hús af Birni.
Dagur Ragnarsson – Hjörvar Steinn Grétarsson
Segja má að þessi skák hafi farið úrskeiðis í byrjuinni hjá Degi. Ellefti leikur a4 virkaði andstöðulegur og var eins og slakir leikir fylgdu í kjölfarið. Hjörvar tók algjörlega yfir frumkvæðið og hvítur var með það slæma stöðu að hann var þvingaður til að hörfa með mennina og leika kóngsleikjum. Hjörvar hafði drottningu úr krafsinu og eftirleikurinn varð auðveldur.
Útsending 7. umferðar
Björn Ívar Karlsson aðstoðaði við stórskemmtilega útsendingu dagsins! Útsending mun hefjast fyrr í umferðinni í 8. umferð og von á góðum gestum!
Úrslit 7. umferðar
Fjórar sigurskákir enn og aftur og aðeins 10 jafntefli í 35 skákum eins og Aðalsteinn Thorarensen tók svo skemmtilega saman fyrir okkur inni á Íslenskir Skákmenn á FB
Staðan eftir sjö umferðir
Staðan er algjörlega mögnuð! Það eru þrír skákmenn efstir og jafnir með 5 vinninga. Í humátt á eftir þeim kemur eitt stykki æstur Þorfinnsson bróðir með blóð á tönnunum!
Til að toppa spennuna eiga skákmenn á toppnum eftir að mætast!
Guðmundur á eftir að mæta Hjörvar í lokaumferðinni, hann fær Dag í 8. umferð.
Hjörvar auk þess að eiga Guðmund eftir mætir Helga Áss í 8. umferðinni!
Helgi á svo eftir að mæta Braga Þorfinnssyni í lokaumferðinni, já komið þér sælir!
Bragi mætir Helga í lokaumferðinni en fyrst á hann mikilvæga skák gegn Margeiri í 8. umferðinni.
Ég augýsi ennþá eftir handritshöfundi, passaðu þig Arnaldur!
Pörun í 8. umferð
Spennan er í hámarki, það er þannig! Hjörvar og Helgi mætast í algjörum toppslag. Þetta er Liverpool gegn Everton, Celtic gegn Rangers, Real Madrid gegn Barcelona. Það verður engin dögun fyrir Grétarsson, en hvorn?
Bragi mætir Margeiri og Guðmundur fær svart á særðan Dag Ragnarsson sem er ennþá að tefla upp á áfanga að alþjóðlegum meistaratitli sem myndi færa honum titilinn beint þar sem það væri síðasti áfanginn!
Svipmyndir úr 7. umferð
Skákir í pgn umferði 1-7
Aðrir tenglar:
- Heimasíða mótsins
- Mótið á Chess-Results
- Beinar útsendingar
- Beinar útsendingar (Chess24)
- Bein lýsing í umsjón Ingvars Þór (hefst um kl. 15:30 í næstsíðustu umferð!)