Óhætt er að segja að Íslandsmótið í skák hafi farið skemmtilega af stað í húsnæði Siglingafélagsins Ýmis í Kópavogi. Allar skákirnar enduðu með hreinum úrslitum þ.e. engin jafntefli voru í boði!

Ármann Kr. Ólafsson setti mótið fyrir hönd Kópavogsbæjar, en bærinn styður við bakið á mótshaldinu. Ármann lofaði góðri einbeitingu niðri við voginn enda býr hann sjálfur í nágrenninu. Hann lék svo fyrsta leik mótsins fyrir Hannes Hlífar gegn Hjörvari Steini.

Hannes Hlífar Stefánsson – Hjörvar Steinn Grétarsson

Fyrirfram voru augu flestra á þessari viðureign enda tveir stigahæstu menn mótsins að leiða saman hesta sína. Hjörvar Steinn lagði Hannes á dögunum 2-0 í Íslandsbikarnum og ætti því að mæta til leiks með gott sjálfstraust.

Hannes bætti drottningarpeðinu og upp kom drottningarindversk vörn. Taflið var líklega í jafnvægi þegar Hjörvar bauð Hannesi í dans, að taka peð á drottningarvæng en þurfa þá að verjast kóngssókn Hjörvars. Hannes tók peðið eftir að það hafði verið í boði í þrjá leiki. Hjörvar nýtti sér þá tímaforskot sitt og setti mikla pressu á kóngsvæng Hannesar sem bugaðist í tímahrakinu.

Alexander Oliver Mai – Bragi Þorfinnsson

Frumraun Alexanders í landsliðsflokki. Bragi er margreyndur í bransanum og nýtti reynsluna í þessari skák. Stöðulegar tilfærslur voru í boði í stöðu sem var lokuð og Bragi kom mönnum sínum betur fyrir og var vel búinn undir átökin í miðtaflinu og hafði betur.

Sigurbjörn Björnsson – Björn Þorfinnsson

Viðureign sem búið var að „peppa“ vel upp í grein Björns á Vísi. Þessir tveir tefla alltaf skemmtilegar skákir og hart barist. Á því varð engin breying. Sigurbjörn beytti skoska leiknum og nokkuð snemma tafls fórnaði Björn skiptamun. Úr varð skemmtileg barátta en Björn hafði betur þegar Sigurbjörn sá ekkert betra en að gefa skiptamuninn til baka en það leiddi líklega til tapaðs tafls.

 

Helgi Áss Grétarsson – Guðmundur Kjartansson

Mikil baráttuskák sem fer ekki í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi. Skákin virtist vera að sigla í jafntefli þegar Guðmundur gerði slæm mistök og lenti leppun sem kostaði skákina. Ekki góð byrjun á titilvörninni en nóg er eftir!

Vignir Vatnar Stefánsson – Jóhann Hjartarson

Vignir bauð upp á spánýa Scooter greiðslu í tilefni mótsins. Hvort það hafði áhrif á taflmennskuna skal ósagt látið en það var boðið upp í ákveðinn dans í miðtaflinu og báðir tefldu djarft. Eftir flækjur náði Jóhann að snúa peð af Vigni og eina spurningin var hvort það nægði til vinnings.

Líklega hefði umframpeðið ekki átt að nægja til vinnings og 53.Kf3! í stað 53.gxf4? í endataflinu hefði mögulega dugað til jafnteflis. Reynslusigur hjá Jóhanni!

Staðan

Taflið heldur áfram á morgun klukkan 15:00 eins og alla daga og beinar lýsingar verða í boði á Skákvarpinu og hægt að horfa á skákirnar í beinni á ýmsan hátt (sjá tengla að neðan)

Kópavogur, Arion banki, Brim og Teva styðja á myndarlegan hátt við mótshaldið.

Helstu tenglar