Það fer greinilega vel um keppendur í Siglingafélaginu Ými í Kópavogi og greinilegt að nálægðin við sjóinn virðist hvetja menn til að sulla! Í þessum skilningi er sullið allt í byrjunum en í dag var ýmislegt á boðstólnum, allt frá kóngsindverskri árás yfir í 1.b3 í fyrsta leik og sjálfan Fílagambítinn sem sjaldan sést á stórmótum! Gárungarnir kalla byrjanir sem slíkar oft „Sullufótarfræði“ og það var nóg um þau í umferð dagsins!
Jóhann Hjartarson hélt uppteknum hætti og vann sína skák gegn Alexander Oliver Mai. Jóhann er áfram efstur en Bragi kemur í humátt á eftir honum.
Lítum yfir skákir dagsins:
Alexander Oliver Mai – Jóhann Hjartarson
Jóhann beitti sínum venjulega „modern“ fræðum þar sem biskupinn er skásettur á gunnar sjö. Alexander beitti kerfi sem Tiger Hillar Person kallar „Mad Dog“ í bók sinni um Modern byrjunina. Óði hundurinn skilaði Alexander alveg þokkalegri stöðu en 10.Bb3 hlýtur að vera eitthvað betri en 10.Bd3. Jóhann elti síðan þennan biskup þar til hann loks uppskar biskupaparið.
Fékk Jóhann þá upp stöðu sem minnti mig mikið á klassíska skák.
Staðan eftir 18.Rxe4 í skák Jóhanns og svo hér að neðan staða úr skák Rosenthal og Steinitz
Í báðum tilvikum er það biskupaparið og sú staðreynd að riddarar hvíts eiga enga góða og örugga reiti sem gefur svörtu mjög góða möguleika. Skák Steinitz fylgir fyrir neðan skák Jóhanns… (hægt er að ýta á punktana til að velja skák)
Hjörvar Steinn Grétarsson – Björn Þorfinnsson
Hjörvar beitti einnig sullufótarfræðum og lék 1.b3 í fyrsta leik. Sá leikur verður seint talinn sá krítískasti en að sama skapi getur verið góð strategía að fá stundum bara upp miðtaflsstöður og tefla skákina. Herbragðið heppnaðist líklegast betur en Hjörvar átti von á og fékk hann mikið tímaforskot….hann hefði raunar lítið við það tímaforskot að gera ef hann hefði leikið besta leiknum í 12. leik!
Björn hafði ætlað sér að verða sniðugur með millileiknum 11…Da5+
Hér hefði stórmeistarinn getað þvingað svartan í uppgjöf með 12.b4! og svartur getur gefið! Ef peðið er drepið kemur 13.c3 og vinnur lið og ef drottningin hörfar hefur svartur ekki tíma til að vinna manninn sinn til baka.
Í útsendingu mótsins urðu menn forvitnir í spjallinu þegar þetta uppgötvaðist og fóru menn að velta því fyrir sér hvort þetta hefði getað orðið stysta sigurskák í sögu Landsliðsflokks. Stutt gagnagrunnsleit fann þó 11. leikja sigurskák Björns heitins Þorsteinssonar.
Andstæðingur Björns, Hjálmar Theodorsson gafst upp eftir 11…De8 með tvöfaldri hótun! Hægt er að sjá skákina í viðauka við skák Hjörvars og Björns með því að smella á punktana.
Í stað þess að enda skákina lét Hjörvar Björn þjást í endatafli með litla möguleika…kannski var það planið allan tímann. Við bíðum spennt eftir pistli Björns! Hér er svo góð mynd af Birni, hann hefur ítrekað kvartað yfir því að ég myndi hann illa!

Ef þið voruð ekki búin að lesa um g-strengja ævintýri Björns þá eru þau hér.
Hannes Hlífar Stefánsson – Guðmundur Kjartansson
Hannes beitti kóngspeðinu og Guðmundur valdi frönsku vörnina. Snemma í miðtaflinu urðu uppskipti og var satt að segja lítið að frétta eftir það og hvorugur átti raunhæfa möguleika á að reyna nokkurn skapaðan hlut. Jafntefli var loks samið eftir 50 leiki en hefði í raun getað verið mun fyrr.
Helgi Áss Grétarsson – Vignir Vatnar Stefánsson
Ein af mest spennandi skákum dagins. Helgi beitti Reti byrjun sem síðar varð að klassískri kóngsindverskri árás. Vignir virtist hafa allt sitt á hreinu og óð fram á drottningarvæng gegn kóngssókn Helga. Á tímabili virtist framrás Vignis vera að renna út í hafsauga en staðan reyndist strategískt flókin. Mikil barátta með biðleikjum og tímahraki var framundan og óljóst upp á hvað báðir voru að tefla. Loks fórnaði Vignir skiptamun í endataflinu og fann flotta leiki í tímahraki Helga og sigldi peðunum á drottningarvæng heim en þau peð höfðu beðið átekta all lengi!
Flottur sigur hjá Vigni sem opnar góða möguleika hjá honum á áfangasénsum þó enn sé mikið eftir.
Sigurbjörn Björnsson – Bragi Þorfinnsson
Bragi kom gríðarlega á óvænt í byrjuninni og beitti byrjun sem margir telja að eigi heima á ruslahaugunum. Sjálfur Fílagambíturinn. Fullkominn sullufótarfræði og sullið heppnaðist hjá Braga að þessu sinni. Bragi fékk góða liðsskipan og hættulega sóknarstöðu og strax í 12. leik lék Sigubjörn nýjum leik í stöðunni sem leiðir líklega til taps. Snaggaraleg skák hjá Braga.
Þetta er skák dagsins

Staðan
Taflið heldur áfram á morgun klukkan 15:00 eins og alla daga og beinar lýsingar verða í boði á Skákvarpinu og hægt að horfa á skákirnar í beinni á ýmsan hátt (sjá tengla að neðan)
Kópavogur, Arion banki, Brim og Teva styðja á myndarlegan hátt við mótshaldið.
Helstu tenglar
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Skákvarpið
- Beinar útsendingar (heimasíða)
- Beinar útsendingar (Chess24)
- Beinar útsendingar (Chess.com)
- Beinar útsendingar (Followchess) – tengill væntanlegur
- Beinar útsendingar (Chessbomb)