Það er áfram líf og fjör á Íslandsmótinu í skák, undirritaður man varla eftir öðrum eins sviptingum og fjöri undanfarin ár! Menn eru að leggja allt undir í skákunum og það veitir ekki af góðu kaffi á fjórða tímanum því annars er kóngurinn í hættu, sannkallað kóngsbragð á hverju borði!
Kíkjum á gang mála áður en við skoðum stöðuna.
Alexander Oliver Mai – Helgi Áss Grétarsson
Hvergi var kóngurinn í meiri hættu en í skák Alexanders og Helga! Alexander óð í Helga en notaði ekki „Óða Hundinn“ eins og í skákinni í gær heldur austurrísku árásina.
Settu þeir félagar líklega Íslandsmet í kjölfarið. Helgi hugsaði í 53 mínútur og 9 sekúndur og Alexander gerði næstum betur með 53 mínútum og 1 sekúndu í næsta leik!
Niðurstaðan varð endatafl sem hefur sést áður og er eitthvað þekkt, allavega þekki meistari Rúnar Berg stöðuna fram í 21. leik þegar staðan var rædd í útsendingu mótsins!
Skákin var mjög vel tefld skv. tölvureiknum og báðir yfir 99% í accuracy skori. Líklegast er Helgi ekki ánægður með að leyfa svona ungum skákmanni að ná 20 leikja teoríu en stundum er það óumflýjanlegt.
Vignir Vatnar Stefánsson – Sigurbjörn Björnsson
Landsliðsflokkur í skák er enginn mömmuleikur og með jafn harðan keppendalista er mönnum fljótt refsað ef þeir eru ekki upp á sitt besta. Sigurbjörn fékk örugglega fína stöðu í dag en Vignir virðist vera í feiknaformi og bætti stöðu sína jafnt og þétta og þvingaði fram veikingar í svörtu stöðunni sem hrundi í kjölfarið. Erfið byrjun hjá Sigurbirni en hann fær tækifæri til að hrista af sér slenið gegn Alexander með hvítu á morgun!
Vignir blandar sér í toppbaráttuna og hefur nú unnið þrjár skákir í röð!
Guðmundur Kjartansson – Hjörvar Steinn Grétarsson
Sannkallaður þungavigtarbardagi hér á ferð! Guðmundur núverandi Íslandsmeistari og Hjörvar stigahæsti skákmaður landsins. Hjörvar að súpa seiðið af vægast sagt óheppilegri pörun en í fjórum fyrstu umferðunum fékk hann svart gegn þremur af fjórum stigahæstu keppendum sínum…..og á þann fjórða eftir….með svörtu!
Skákin í dag var barátta frumkvæðis og liðsskipan gegn biskupapari. Hjörvar lagði fyrst peð í sölurnar og svo annað peð en Guðmundur gleypti það sem í boði var og náði að verjast sóknartilburðum svarts sem svo fjöruðu út í sandinn.
Sterkur sigur hjá Guðmundi sem einnig blandar sér í baráttuna um titilinn.
Bragi Þorfinnsson – Hannes Hlífar Stefánsson
Braga virðist ekki líða vel nema hann sé búinn að henda allavega einu peði í andstæðinginn strax í byrjun. Í fyrsta virtust bæturnar á góðri leið með að fjara út en Bragi fann sterkar leiðir til að halda frumkvæðinu gangandi og er oft í essinu sínu í slíkum stöðum. Hann náði loks að brjóta sér leið í gegn og virtist vera að landa mjög flottum sigri þegar sigurinn rann úr greipum hans á lokaandartökum skákarinnar.
53.Bf2! með hugmyndinni Bb6+ og svo Bc7 hefði landað biskupnum á c8 og í kjölfarið skákinni. Skemmtileg skák hjá Braga og taflmennskan í skákinni verðskuldaði alveg fullan punkt í töfluna!
Jóhann Hjartarson – Björn Þorfinnsson
Skák dagsins var sannarlega full af sviptinum og „kóngsbragði“ á báða bóga. Eftir gríðarlegar sviptingar náði Björn fyrstur manna að leggja Jóhann á mótinu og galopna titilbaráttuna.
Björn tefldi mjög öruggt í byrjuninni og ætlaði ekki að enda beint á grillteininum eins og á móti Hjörvari (sjá síðasta pistil Björns). Í miðtaflinu lagði Jóhann af stað með flest ef ekki öll peð sín og lagði mikið undir. Annað hvort yrði bjarndýrið grillað eða bjarndýrið fengi í svanginn, líklegast ekkert þar á milli!
Gríðarlegar sviptingar urðu og kannski best að skoða bara skákina að neðan og/eða myndbandið!
Staðan
Þrir eru efstir og jafnir eftir fjör dagsins. Í raun eiga 8 keppendur enn raunhæfan möguleika á að hreppa titilinn. Jafnara getur það varla verið!
Í fimmtu umferð mætast:
Taflið heldur áfram á morgun klukkan 15:00 eins og alla daga og beinar lýsingar verða í boði á Skákvarpinu og hægt að horfa á skákirnar í beinni á ýmsan hátt (sjá tengla að neðan)
Kópavogur, Arion banki, Brim og Teva styðja á myndarlegan hátt við mótshaldið.
Helstu tenglar
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Skákvarpið
- Beinar útsendingar (heimasíða)
- Beinar útsendingar (Chess24)
- Beinar útsendingar (Chess.com)
- Beinar útsendingar (Followchess) – tengill væntanlegur
- Beinar útsendingar (Chessbomb)