Jóhann Hjartarson fékk dauðafæri til að komast aftur einn í forystu á Íslandsmótinu í skák. Helgi Áss Grétarsson hinsvegar náði að halda jafntefli á þrjóskunni og það þýðir að þrír eru í einni þyrpingu í efsta sæti Íslandsmótsins.

Fyrir umferðina voru þeir Jóhann Hjartarson, Bragi Þorfinnsson og Vignir Vatnar Stefánsson jafnir í efsta sæti.

Sigurbjörn Björnsson – Alexander Oliver Mai

Alexander tók mikla áhættu með svörtu og tefldi peðsfórnar afbrigði í Petroff sem Baadur Jobava hefur teflt í nokkrum skákum. Þetta afbrigði getur eiginlega ekki verið gott og Sigurbjörn hélt á peðinu fram í endatafl og vann mikilvægan sigur til að „stoppa blæðinguna“ og koma sér inn í mótið eftir erfiða byrjun.

 

Hannes Hlífar Stefánsson – Vignir Vatnar Stefánsson

Vignir tefldi öruggt með svart og ætlaði greinilega ekki að gefa tommu eftir án þess að láta andstæðing sinn hafa mikið fyrir hlutunum.

Vignir gaf peð og kannski hefði hvítur getað siglt punktinum heim með bestu taflmennsku en erfitt var að tefla hvítu stöðuna til vinnings yfir borðinu. Vignir sótti mótspil og gaf ekkert eftir. Á tímabili var Vignir nálægt því að snúa taflinu sér í hag en Hannes náði þráskák í tæka tíð. Vignir enn í toppbaráttunni!

 

Hjörvar Steinn Grétarsson – Bragi Þorfinnsson

Eins og í síðustu skákum gaf Bragi peð í byrjuninni og tefldi af fítonskrafti. Hann hélt frumkvæðinu lengi vel og lét Hjörvar hafa virkilega fyrir hlutunum með „krafta-taflmennsku“. Hjörvar sýndi stórmeistaravörn og náði að stýra taflinu í endtafl peði yfir þar sem hann loks sýndi sínar bestu hliðar og vann góðan sigur.

Þetta er skák dagsins

 

Björn Þorfinnsson – Guðmundur Kjartansson

Björn fór á kostum í pistli sínum eins og endranær. Hann náði frábærum úrslitum gegn Jóhanni í síðustu umferð og miðað við hvað mótið er jafnt hefði sigur í skák dagsins fleytt honum langt.

Skákin var grííííðarlega flókin og í miðtaflinu gat hreinlega allt gerst. Björn fórnaði peði snemma og líkt og gegn Hjörvar þá ætlaði Guðmundur bara að hanga á liðinu og fara alla leið. Björn fann mjög skemmtilega leið með því að ginna riddara svarts inn í sínar herbúðir og reyndi svo að loka hann inni. Úr flækjunum náði Guðmundur að hanga á umframpeðinu og loks lék Björn af sér manni í tímahraki í flókinni stöðu.

 

Helgi Áss Grétarsson – Jóhann Hjartarson

Þessi skák bauð upp á rosalega baráttu! Jóhann virtist koma sér vel fyrir í Benoni uppstillingu þrátt fyrir að skákin hafi byrjað sem drottningarindverji. Á krítískum punkti vélaði Jóhann skiptamun af Helga en einhvern veginn var staða Helga grjóthörð og eiginlega engin leið í gegn.

Jóhann tók þá ákvörðun að gefa skiptamuninn til baka fyrir vænlegt hróksendatafl. Vinningurinn var í augsýn en rann úr greipum með 54…b3? þar sem 54…c4! hefði dugað til vinnings. Æsispennandi skák og mikil seigla í Helga að hanga á jafnteflinu!

Staðan

Enn er hnífjafnt á toppnum. Aðeins vinningur skilur að sjö efstu og bókstaflega allt getur enn gerst!

Pörun 6. umferðar

Toppslagur hjá Jóhanni og Guðmundi og eins grjóthörð skák hjá Vigni gegn Hjörvari. Galopið Íslandsmót, allt eins og það á að vera!

Helgi seigur í dag!

Taflið heldur áfram á morgun klukkan 15:00 eins og alla daga og beinar lýsingar verða í boði á Skákvarpinu og hægt að horfa á skákirnar í beinni á ýmsan hátt (sjá tengla að neðan)

KópavogurArion bankiBrim og Teva styðja á myndarlegan hátt við mótshaldið.

Helstu tenglar