Lokaumferðin á Íslandsmótinu olli sannarlega engum vonbrigðum. Þetta mót hefur verið þrælskemmtilegt og lokaumferðin var ekki undantekning á þeirri reglu. Jóhann Hjartarson setti gríðarlega pressu á Hjörvar með því að vinna Hannes Hlífar með svörtu í sannkallaðri rússíbanaskák. Hjörvar hélt hinsvegar ró sinni og lagði Sigurbjörn Björnsson í vel útfærðri skák.

Spennan í lokaumferðinni var mögnuð. Mynd: Ingibjörg Edda

Vignir Vatnar Stefánsson hélt jöfnu gegn Braga og náði sínum öðrum áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Ef vel gengur á Íslandsmóti skákfélaga gæti sá þriðji og síðasti bæst í púkkið!

Kíkjum á skákir lokaumferðarinnar:

Guðmundur Kjartansson – Alexander Oliver Mai

Alexander Oliver valdi að verja sama afbrigði og hann tefldi gegn Hjörvar fyrr í mótinu. Þetta afbrigði er hálfgert harðlífi og má líkja því við að saga af sér stóru tánna með eyrnapinna í stað þess að fá bara góða deyfingu og gera þetta með góðu!

Niðurstaðan varð sú að Guðmundur fékk þá týpu af skák sem hann er hvað bestur í á köflum, langir svíðingar. Guðmundur braust í gegn og náði að komast inn fyrir varnir Alexanders.

Bragi Þorfinnsson – Vignir Vatnar Stefánsson

Ekki veit ég hvort hér var á ferð undirbúningur hjá Vigni en hann náði að einfalda taflið allverulega nokkuð snemma í skákinni. Í miðtaflinu náði svartur svo að þvinga fram mislita biskupa og Vignir náði í kjölfarið að skipta upp á hrókum og þó hann tapaði peði voru mislitu biskuparnir nóg. Jafnteflið í hús og jafnframt mikilvægur áfangi að alþjóðlegum meistaratitli.

Vel gert hjá Vigni sem er á mikilli uppleið og Bragi má líka vel við una en hann átti gott mót og tefldi á köflum verulega skemmitlega og af krafti!

Björn Þorfinnsson – Helgi Áss Grétarsson

Helgi Áss beitti afbrigði á svart sem líklegast er vafasamt en bíður upp á skemmtilegar og óvenjulegar stöður. Svo virtist vera sem einhverskonar pissukeppni í að vera frumlegastur kæmi i kjölfarið en á endanum virtist Björn míga alfarið á móti vindi og fékk allt yfir sig aftur. Björn varð að gefast upp eftir rólegan varnarleik Helga í 25. leik.

Hannes Hlífar Stefánsson – Jóhann Hjartarson

Jóhann kom verulega á óvart í byrjuninni með því að beita Caro-Kann vörn í aðeins sjötta skiptið á ferlinum, allavega samkvæmt gagnagrunnum. Í miðtaflinu var ljóst að Jóhann var tilbúinn að halda eins mikilli dýnamík í stöðunni og hægt var til að eiga vinningsmöguleika.

Hann fann skemmtilega leið til að gefa skiptamun en fá mjög hættuleg miðborðspeð. Peðin komust á mikið flug og sigurinn blasti við….en þá valdi Jóhann ranga vinningsleið. Hannes átti björgunarleið sem var líkt og í skákþraut en fann hana ekki og lék skákinni beint í tap.

Hjörvar Steinn Grétarsson – Sigurbjörn Björnsson

Hjörvar tefldi þessa skák af öryggi og virtist ekki ætla að brenna neinar brýr að baki. Upp kom traust Maroczy Bind staða hjá hvítum en að sama skapi er svartur oft með mjög trausta stöðu. Sigurbjörn hefði líklegast getað still upp virki (e. fortress) með vel tímasettum …h5 leik eftir að Hjörvar hótaði að ýta h-peðinu alla leið upp á h6.

Hjörvar fékk þess í stað holu í endataflinu sem hann gat nýtt sér. Skemmtilegt að mótið hófst í raun og endaði með góðum framrásum h-peðsins hjá Hjörvar og hafa gárungar velt því fyrir sér hvort kalla skyldi h-peðið Hjörvars peðið í stað þess að nota Hannes um leiki á h-línunni! Simon Williams kallar þetta peð reyndar Harry þannig að fordæmi eru fyrir því að endurskýra menn með slíkum hætti!

Á endanum var þetta vel útfærð skák hjá Hjörvari og hann hafði sigur og tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil.

Lokastaðan

Flottur og verðskuldaður sigur hjá Hjörvari. Hann lét ekki á sig fá að fá líklegast erfiðasta töfludrátt mótsins. Hann fékk nánast svart á alla stigahæstu keppinauta sína og eftir 4 umferðir hafði hann tapað tveimur skákum. Í síðustu fimm umferðunum var hinsvegar ryksugan sett í gang og Hjörvar sýndi allar sínar bestu hliðar og tefldi eins og sá sem valdið hefur.

Jóhann tefldi skemmtilega á mótinu, tók oft áhættur og skákir hans mikið fyrir augað. Aðeins vantaði herslumuninn að þessu sinni og ekki þurft mikið til að titillinn hefði fallið í skaut aldursforsetans.

Hinir í topp 5 mega vel við una. Guðmundur átti fína spretti og hefði gert harðari atlögu ef hann hefði ekki tapað klaufalega í fyrstu umferðinni gegn Helga Áss í jafnteflisstöðu. Bragi átti gríðarlega flotta spretti tefldi af mikilli hörku og notaði frumkvæðið óspart  Vignir átti svo að sjálfsögðu fína spretti enda landaði hann áfanga að alþjóðlegum meistaratitli.

KópavogurArion bankiBrim og Teva styðja á myndarlegan hátt við mótshaldið.

Helstu tenglar á úrslit og skákir