Íslandsmót Skákfélaga hófst eins og venjulega með fimmtudagsumferð í Úrvalsdeild – Kvikudeildinni. Í Úrvalsdeild er teflt einni umferð meira báðar keppnishelgar miðað við aðrar deildir og því hefst keppnin iðullega með því að keppendur í efstu deild etja kappi á fimmtudeginum. Skemmtilegar viðureignir fóru fram og margar spennandi og skemmtilegar skákir.

Skákdeild Breiðabliks – Taflfélag Reykjavíkur

Fyrirfram mátti búast við mestu spennunni í þessari viðureign. Samkvæmt spá ritstjórnar eru fjórar sveitir sem skera sig úr og tvær sem eru líklegar að berjast um fallið. Breiðablik og TR eru líkleg í baráttu um málm og mættust stálin stinn. Að mestu reynsluboltar í liði TR en mikið af ungum og efnilegum skákmönnum hjá Breiðablik.

Landsliðsmennirnir Vignir Vatnar Stefánsson og Guðmundur Kjartansson skildu jafnir í skák þar sem jafntefli virtist alltaf óumflýjanlegt. Breiðablik náði í fyrsta höfuðleðrið þegar Moldóvinn ólseigi Ivan Schitco náði að knésetja Helga Áss Grétarsson.

Helgi var lengst af taflinu með Ivan algjörlega í köðlunum. Í 29. leik gerði Helgi sig sekan um skelfilegan fingurbrjót.

29.Hxf5?? og Moldóvinn ákvað nú að slá frá sér líkt og nafni hans Drago forðum með 29…Hxe1+ og Helgi varð að gefast upp vegna gaffalsins á g3.

Góð skák hjá Helga lengst af eins og renna má yfir að neðan.

Formanninum rann þá blóðið til skyldunnar og jafnaði metin fyrir TR-inga. Ingvar hafði náð frumkvæðinu með svörtu og náði að nýta sér reitaleysi hvíta hróksins.

24…Re1! 25.Hc3 b5 26.cxb5 cxb5 27.Rc5 Bg7 og hvítur tapar peði og fær tapað endatafl.

TR tók svo undirtökin í viðureigninni þegar Margeir Pétursson lagði Bárð Örn Birkisson að velli. Margeir kom með endurbót á skák Carlsen-Giri í sama afbrigði og virtist tefla glimrandi skák þar sem hann er tímabundið peði undir en fær mjög virka menn. Mikilvægur sigur og svörtu mennirnir að gefa hjá Taflfélagsmönnum.

Fjórar skákir voru nú eftir og hafði Breiðablik undirtökin í flestum þeirra. Nema í skák Jóns Viktors og Björns Hólm. Jón virtist hafa að mestu náð að kæfa mótspil Björn sem hann hafði fyrir peð en Björn náði peðinu til baka og jafntefli varð niðurstaðan.

Jafntefli varð líka niðurstaðan í skák Alexanders og Benedikts. TR ennþá einni vinningsskák yfir en Breiðablik með betra í báðum skákunum sem eftir voru. Hér kom einhver úkraínsk seigla og greip í taumana. Aleksandr Domalchuk-Jonasson náði að halda endatafli peði undir eftir að hafa staðið mjög höllum fæti í miðtaflinu líka. Hilmir mjög nálægt sigri en varnirnar héldu.

Öllu ótrúlegra var að varnirnar skildu halda hjá Oleksandr Sulypa á fjórða borði! Framan af skák virtist Úkraínumaðurinn ætla að slátra fyrrum TR-ingnum hinum danska Mikkel Manosri Jacobsen. Sá danski var hinsvegar háll sem áll, varðist vel og sneri taflinu sér í hag. Snúningurinn var raunar svo mikill að tölvuapparötin sögðu -7.8 svörtum í vil í 54. leik!

Sulypa slapp fyrir horn og sigur með minnsta mun hjá Taflfélagi Reykjavíkur!

Taflfélag Garðabæjar – Skákdeild Fjölnis

Íslandsmeistarar Fjölnis hófu titilbaráttuna gegn TG sem spáð er fallbaráttu enda munar töluverðu í elóstigafjölda liðanna. TG náði að berjast á efstu tveimur borðum og gott jafntefli hjá Baldri gegn grjóthörðum litháískum landsliðsmanni. Segja má að stigin hafi teflt á öðrum borðum og 7-1 sigur staðreynd hjá Íslandsmeisturunum sem byrja vel.

Bragi tefldi hressilega gegn Sæberg, fórnaði skiptamun og kláraði með stæl.

31…Rf3+ og hvítur lagði niður vopnin enda fellur hrókurinn á e1 með góðu eða illu og jafnvel með skák!

Taflfélag Vestmannaeyja – Skákdeild KR

KR-ingar mættu til leiks með nokkuð sterkt lið og virðist ætla að gera tilraun til að blanda sér í titilbaráttuna. Þeir mættu liði Vestmannaeyja í fyrstu umferðinni en TV ætti að öllu óbreyttu að berjast við TG um fall.

Segja má að enn og aftur hafi elóstigin teflt og KR náðu miklum skriðþunga á miðjuborðunum þar sem þeir röðuðu inn vinningum. 6-2 sigur hjá KR-ingum.

Skemmtilegasta skákin var þó á öðru borði þar sem Björn Þorfinnsson tefldi skemmtilega að vanda, fórnaði manni en virtist vera að verða uppiskroppa með mótspil en fann leiðir til að halda taflinu gangandi og gott betur. Í langri maraþonskák náði Björn endatafli þar sem hvítur var undir gríðarlegri pressu bæði á borði og klukku. Bandaríkjamaðurinn ungi með „NBA-nafnið“ Brewington Hardaway náði að standast pressuna og halda ótrúlegu jafntefli undir gríðarlegri pressu.

Aðrar deildir hefja tafl á morgun og verður staðið í ströngu í fjórum deildum um helgina. Allir byrja með jafnan liðsafla og fylgja sama manngangi!