Síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga 2019-20 fer fram í Fjölnishöllinni í Egilshöll, 9.-11. október 2020.

Síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga fer fram í Fjölnishöllinni í Egilshöll í Grafarvogi 9.-11. október nk. Eftirfarandi póstur var sendur til forráðamanna félaganna fyrr í dag:

Stjórn SÍ stefnir á að halda síðari hluta Íslandsmót skákfélaga keppnistímabilsins 2019-2020, 9.-11. október nk. Mótið verður haldið við frábærar aðstæður í Fjölnishöllinni í Egilshöll í Grafarvogi.

Það er mat stjórnar SÍ að miðað við núverandi reglur, þ.e. fyrirhugaðar reglur um að allt að 1.000 manna samkomur séu leyfðar og 2ja metra reglan valkvæð þá ekkert því til fyrirstöðu að halda mótið.

Að sjálfsögðu verður fyllsta öryggis gætt. Mögulega verður skáksalnum skipt í tvennt, tryggt rúmt pláss á milli skákmanna og boðið verður upp á aðstæður fyrir þá sem vilja ekki vera í margmenni. Þrif verða í fyrirrúmi og spritt og hanskar í boði fyrir þá sem það vilja.

Hugmyndin er að sleppa að þessu sinni fimmtudagsumferðinni. Taflmennska í fyrstu deild hæfist á föstudagskvöldið og taflmennska í öðrum deildum hæfist á laugardagsmorgni. Tefldar verða tvær umferðir í öllum deildum á laugardeginum og ein á sunnudeginum. Lokahóf mótsins að lokinni lokaumferðinni á sunnudeginum.

Félagaskiptaglugginn fyrir þá sem ekki tefldu í fyrri hlutanum er til 19. september. Skákmenn utan félaga og án alþjóðlegra skákstiga eru undanþegnir þeim fresti og hægt að skrá þá í félög fram að upphafi móts.

Minnt er á sérákvæði í skáklögum SÍ um keppnina nú sem samþykkt var á aðalfundinum síðasta sem segir svo:

Keppandaskrá skáksambands Íslands skal uppfærð fyrir seinni hluta Íslandsmót skákfélaga og allar umsóknir sem berast 20 dögum fyrir seinni hluta Íslandsmót skákfélaga afgreiddar óháð búsetu og ríkisfangi viðkomandi skákmanna.

Hægt er því einnig að skrá inn nýja erlenda skákmenn í félögin allt til 19. september nk.

Reynslan í Covid- faraldinum hefur verið sú að hlutirnir geta breyst hratt og ágætt fyrir forráðamenn félaga að hafa það í huga.

Zoom-fundur með forráðamönnum félaganna verður boðaður í ágúst.

Heimasíða Íslandsmóts skákfélaga