Íslandsmót skákfélaga 2023-24 fór formlega af stað í kvöld þegar úrvalsdeildin sjálf, Kvikudeildin fór af stað. Nokkur eftirvænting var að sjá uppstillingu liðanna og mjög líklegt að jöfn og skemmtileg keppni sé framundan á toppi og botni!

Skákdeild KRSkákdeild Fjölnis

Fjölnismenn unnu stóran og góðan sigur á Skákdeild KR. Margir biðu spenntir eftir uppstillingu KR-inga, orðið á götunni var að jafnvel væri von á „Rússa-rútu“ en svo reyndist ekki raunin. Fjölnismenn voru stigahærri á flestum borðum og enduðu á að vinna fjórar skákir á meðan að fjórar enduðu með jafntefli. Vignir hefði ekki átt að tapa á öðru borði.

Vignir þurfti að hafa fyrir því að berjast í miðtaflinu með verra og náði að vinna sig í jafnt endtafl eftir mikla baráttu. Vignir var svo kominn langleiðina með að snúa taflinu sér í vil. Lykilstaðan líklega hér.

Vignir hafði aðeins misst þráðinn og nú er staðan jafntefli samkvæmt tölvum og svartur getur þvingað það með 51…Rxe4. Hvítur er þá þvingaður í að leika 52.a6 en svartur á þá gangangi þráskák með Rc3-b1-c3+ o.s.frv. Hvítur tapar ef kóngurinn fer ekki á d1 eða d2. Vignir var hinsvegar líklegast farinn að gera sér vonir um að vinna skákina og lék 51…h6? en þá virðist taflið mjög vænlegt á hvítt eftir 52.Rd6 Kc3 53.a6! Kazakouski hafði betur nokkrum leikjum síðar.

Litháinn Laurusas lagði Sören Bech Hansen á þriðja borði. Skemmtieg skák var á fjórða borði og þar voru KR-ingar hvað næst því að ná í vinning. Thybo hinn danski hefur nú teflt í nokkur skipti með Fjölni og í þessari skák þurfti hann að hafa sig allan við gegn Fajarowicz gambítnum sem hollenskur andstæðingur hans tefldi.

Thybo virtist ekki þekkja teóríuna nógu vel og lenti í mjög erfiðri vörn. Sá hollenski missti af mörgum góðum færum.

Besta færið var líklega hér. 28…Hce8? var leikið en fátt er um varnir hjá hvítum eftir 28…Hxc1 29.Hxc1 Db2!

Mistök á báða bóga, en mjög skemmtileg skák.

Hinir vinningarnir hjá Fjölni komu hjá Sigurbirni og Jóni Árna sem báðir náðu í peðsvinninga snemma tafls og fylgdu því vel eftir.

VíkingaklúbburinnTaflfélag Garðabæjar

Viðureign ríkjandi Íslandsmeistara TG og Víkingaklúbbsins varð stórskemmtileg. Íslandsmeistararnir töluvert þunnskipaðir miðað við í fyrra en Víkingarnir ógnarsterkir sem fyrr. Skipst var á sleggjum og engin jafntefli í viðureigninni!

Hannes var á góðu skriði með svart fyrir TG en missti þráðinn eftir að hafa yfirspilað Dziuba framan af skákinni.

29…Rg8? var slakur leikur og eftir 30.f5! snerist taflið og hvítur fékk myljandi sókn sem hann sigldi heim.

Hjörvar kvittaði þetta tap út á öðru borði. Jakubiec átti mjög slakan leik á svipuðum tíma og Hannes lék af sér.

29…Bh6?? var arfaslakur þar sem það eina sem þessi leikur gerir er að gefa hvítum nægan tíma til að nýta sér h-línuna. 30.Kg2! Kg7 31.Hh1 Dh8 32.Dg3

Hvítur hótar nú 33.Heh4 sem svartur reyndi að stoppa með 32…g5 en eftir 33.Heh4! samt gafst sá pólski upp.

Jóhann að tafli í Struga Mynd: Livshitz / Heimasíða mótsins

Jóhann Hjartarson kláraði góða pósaskák með máti í lokin.

Staða svarts búin að vera erfið en hér klárar Jóhann 37.Dg6+ Kh8 38.Dxh6+! gxh6 39.Hxh6 og mát!

Bragi Þorfinnsson og Tapani náðu í vinninga fyrir Víkingana á fjórða og fimmta borði í baráttuskákum.

Lenka kom á óvart gegn Birni Þorfinnssyni á sjötta borði og lagaði stöðuna þar fyrir TG. Björn hafði að mestu haft betur í miðtaflinu en mikill vendipunktur varð við tímamörkin.

40…Rc4?? reyndust afdrífarík mistök. Tímamörkum náð og Lenka hafði tíma til að finna 41.f6+ gxf6 42.gxf6+

Skyndilega stóð Björn frammi fyrir því að verða mát í borði eða vonast eftir mótspili eftir 42…Kxf6 43.Rxd5+ hvítur fær hrók og svartur getur verið manni undir með „réttri“ taflmennsku en þarf þá að þjást eða fara í mátsökn hróki undir, Björn valdi seinni kostinn en fann ekki mátið.

Loks var skipst á sigrum á sjöunda og áttunda borði, Jón Viktor vann fyrir Víkinga og Jóhann fyrir TG. Fimm – þrjú því lokastaðan Víkingum í vil.

Taflfélag VestmannaeyjaTaflfélag Reykjavíkur

Jafntefli urðu á þremur efstu borðunum þar sem stutt var á milli á elóstigunum. Vestmannaeyingar voru nær því að ná einhverju úr þeim skákum, Hilmir og Helgi fengu ákveðin færi en TR-ingarnir vörðust vel. Á næstu borðum má segja að elóstigin hafi teflt.

Sulypa hafði betra tafl nánast alla skákina gegn Erni Leó en nýjasti FIDE meistari Íslendinga er hinsvegar mikill baráttuhundur.

Í tímahraki fann Örn 37…Bxf2! en skömmu áður hafði hvítur haft +5 í apparötunum. 38.Kf1 var leikið en þá lék Örn af sér 38…Bb6+? en eftir 38…Hd8 hefðu öll úrslit verið möguleg. Sulypa tók hrókinn 39.Dxg8 og svartur átti ekkert.

Þröstur trikkaði Þorvarð á fimmta borði.

Síðasti leikur Þrastar lúmskur og hann hótar í einhverjar tilfellum að drepa á f5 og eiga svo skák á b2 sem er lúmskt. Þorvarður lék 25.d4?? sem var óþarflega örvæntingarfullt. 25…Bxe5 26.dxe5 og 26…He6! stoppar peðin algjörlega.

Ingvar hafði sigur á Nökkva. Staða svarts hrundi all skyndilega.

26.Bb6 var lúmskur þar sem eftir 26…Hd7 þá er hrókurinn á e8 óvaldaður. 27.He3! nýtir það og nú er f5 leikurinn óverjandi. Eftir 27…Df5 28.g4 Df6 29.f5 gafst svartur upp.

Nokkuð jafnt var á elóstigum á síðustu tveimur borðunum. Á því sjöunda hafði Alexander Oliver sigur fyrir TR í maraþonskák, 97 leikir takk fyrir, eftir mikla og stranga stöðubaráttu.

Ægir náði í eitt höfuðleður fyrir Vestmannaeyinga. Gauti Páll virtist hafa myljandi sókn með hvítu en skákin snerist í 25. leik.

Gauti lék 25.gxf6+? sem endaði í þjáningu skiptamun undir í endatafli eftir 25…Dxf6. Hvítur hefði haldið betra tafli með 25.Bxd4 Rxf4 26.Bc4! Ægir sigldi vinningnum heim í endataflinu.

Íslandsmót skákfélaga heldur áfram á morgun en þá fara allar deildirnar af stað!

Beinar útsendingar verða frá öllum skákum í Kvikudeildinni á lichess með 15 mínútna seinkun.

Tímaritið Skák

Minnt er á að Tímaritið Skák verður hægt að nálgast á skákstað. Hægt verður að borga blaðið með greiðslukorti eða innlögn. Gjafverð á ritinu eða kr. 2.500. Gjöf en ekki gjald fyrir þetta gæðarit sem Gauti Páll á langmestan heiður af sem verður sífellt betra og betra með hverju tölublaði.

Fyrir þá sem ekki komast um helgina má panta blaðið á netinu sem verður sent í pósti eftir helgi. Sjá hér.