Helgi Ólafsson, Ásthildur Sturludóttir og Áskell Örn Kárason skrifa undir samkomlagið. Mynd: Pia Sigurlína Viinikka

Eitt af þeim verkefnum sem Skákfélag Akureyrar ákvað að ráðast í tilefni af 100 afmæli félagsins er að efla skákmennt hjá uppvaxandi kynslóð.  Í ljós kom að verulegur áhugi var fyrir hendi hjá skólum bæjarins að gefa nemendum kost á skákkennslu. Þá kom í ljós við eftirgrennslan að Skákskóli Íslands var búinn til að taka þátt í slíku verkefni, með fjárstuðningi og ráðgjöf, enda er það hlutverk skólans að„annast skákkennslu og hafa á hendi hvers kyns fræðslu sem miðar að því að efla vöxt og viðgang skáklistarinnar á Íslandi. Skal skólinn m.a. halda námskeið úti á landi í samvinnu við skóla og taflfélög.“  Verkefnið fellur því vel að hlutverki Skákskólans. Við skákfélagsmenn fögnum áhuga þessara samstarfsaðila í hinum merku tímamótum félagsins.

Skákkennsla í Brekkuskóla. Mynd: Pia Sigurlína Viinikka

Verkefnið sem nú hefur verið hleypt af stokkunum ber heitið “Skákskóli Norðurlands” þar sem nemendum í fimm skólum á Akureyri, Brekkuskóla, Glerárskóla, Lundarskóla, Naustaskóla og Síðuskóla, fá kennslu í skák skv. stundarskrá nú á haustmisseri. Á þetta við um alla nemendur í 3. og 4. bekk, auk nemenda í 5. bekk þar sem því verður við komið. Er kennslan þegar hafin og er því fyrsti liðurinn í afmælisdagskrá félagsins sem kemst í framkvæmd.  Kennsluna annast Áskell Örn Kárason, alþjóðlegur meistari í skák og FIDE-þjálfari.

Markmiðið verkefnisins er að veita grunnskólanemendum á Akureyri skákkennslu, innsýn inn í skáklistina og grundvallarhæfni á því sviði. Verkefninu er einnig ætlað að byggja undir áframhaldandi skákstarf á Akureyri og þannig hlúa að börnum og ungmennum á Akureyri. Í náinni framtíð verði jafnframt (sbr. nafn verkefnis) hugað að skákkennslu víðar á Norðurlandi. Með þetta markmið í huga muni Skákskóli Íslands styðja við starf Skákfélags Akureyrar á haustönn 2018.

Krakkar tefla í Brekkuskóla. Áskell og Helgi fylgjast með. Mynd: Pia Sigurlína Viinikka

Skákskóli Íslands mun styðja við verkefnið með mánaðarlegum, fjárhagslegum stuðningi. Auk þess veitir Skákskólinn ráðgjöf og leiðbeiningar og útvega kennsluefni eftir því sem þörf krefur.

Fyrirkomulag kennslunnar mun fylgja þessum meginlínum:

  1. Kennt verður á ákveðnum tímum, vikulega skv. stundatöflu.
  2. Allir nemendur 3. og 4. bekkjar fá skákkennslu og nemendur 5. bekkjar þar sem því verður við komið.
  3. Eftir upphafsnámskeið sem varir í 4-6 vikur, verður boðið upp á framhaldsnámskeið fyrir þá nemendur sem þess óska.
  4. Kennd verða undirstöðuatriði manntafls, þ.e. gangur mannanna, einfaldar byrjanir, stöðuuppbygging og algengustu mátstef.
  5. Ofangreindir þættir verða þróaðir frekar með þeim nemendum sem sækja framhaldsnámskeið.

Samningur um þetta fyrirkomulag gildir á haustmisseri  2018. Hinsvegar stefna samningsaðilar að áframhaldandi skákþjálfun nemenda á vormisseri í ljósi þeirrar reynslu sem fæst á gildistíma, þ.e. frá september 2018 til janúar 2019. Aðilar áforma áframhald kennslu á vormisseri 2019, þ.m.t. að haldin verði meistaramót í hverjum skóla og milli skóla á fyrstu tveimur mánuðum nýs árs.

Af heimasíðu SA.