Nýkrýndur Akureyrarmeistari, FM Rúnar Sigurpálsson, bætti enn einni skrautfjöðurinni í hatt sinn með sigri á Hraðskákmóti Akureyrar sem háð var í gær, 14. mars. Hann er því einnig Akureyrarmeistari í hraðskák árið 2021.
Þetta mót hefur oft verið fjölmennara, en var þó óvenjulega vel skipað í ár. Gamlir félagar mættu til leiks eftir nokkurt hlé, auk þess sem sterkasti skákmaður Ólafsfirðinga var meðal þátttakenda. Mátti reyndar giska á að hann gæti unnið mótið, miðað við fyrri afrek. Hér er sumsé átt við þá Ingimar Jónsson, fyrrum landsliðsmann og ólympíufara (af Árskógssandi), Þórleif Karlsson, fyrrum Íslandsmeistara í skólaskák (frá Sauðárkróki), auk Ólafsfirðingsins Jóns Kristins Þorgeirssonar, fyrrum Norðurlandameistara í skólaskák og FIDE-meistara. Sá síðastnefndi tók snemma forystu á mótinu og virtist á góðri leið með að tryggja sér sigurinn þegar kom að afdrifaríkum viðureignum hans við hinn FIDE-meistarann (tefld var tvöföld umferð). Þar mátti hann játa sig sigraðan í báðum skákunum og skaust FM Rúnar þar með hálfum vinningi fram úr félaga sínum. Þetta gerðist í næstsíðustu umferð og náði Jón Kristinn ekki að brúa þetta bil.
Svo því sé enn haldið til haga hversu sterkt þetta mót var, þá geta sex af átta keppendum státað af Akureyrarmeistartitli (sumir mörgum!). Hinir tveir gætu líka átt það eftir. Svo tölum við ekki meira um það.
Úrslit:
- FM Rúnar Sigurpálsson 12,5 (Akureyrarmeistari 1990 og síðar)
- FM Jón Kristinn Þorgeirsson 12 (Akureyrarmeistari 2014 og síðar)
- AM Áskell Örn Kárason 10 (Akureyrarmeistari 1981 og síðar)
- Þórleifur Karlsson 6,5 (Akureyrarmeistari 1995 og 96)
- Ingimar Jónsson 6 (Akureyrarmeistari 1954!!!)
- Smári Ólafsson 5 (Akureyrarmeistari 2011)
- Stefán G. Jónsson 2,5 (verðandi Akureyrarmeistari)
- Karl Egill Steingrímsson 1,5 (verðandi Akureyrarmeistari)
Þetta þykir okkur harla gott.
Öll úrslit og mótstaflan á chess-results.


















