FIDE birti ný at- og hraðskákstig 1. september síðastliðinn.

Helgi Ólafsson og Vignir Vatnar stigahæstir þó Vignir geymi það aðeins að fara yfir 2600 í hraðskák. Theódór Eiríksson og Nirvaan Halldórsson hækka mest og Kristján Örn er lang duglegastur.

Atskák

Stigahæstu skákmenn og skákkonur

Að vanda eru litlar breytingar á topplistanum í atskák. Helgi Ólafsson (2496) er stigahæstur skákmanna og Lenka Ptácníková (2109) er stigahæst skákkvenna.

Ungir og gamlir

Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2287) er stigahæstur ungra skákmanna og Helgi Ólafsson (2496) er stigahæstur á vizkualdrinum.

Hraðskák

Stigahæstu skákmenn og skákkonur

Eftir mikla hækkun mánuðinn á undan hvíldi Vignir Vatnar Stefánsson (2590) sig á hraðskákinni í ágúst. Við þurfum því að bíða aðeins lengur eftir því að hann rjúfi 2600 stiga múrinn. Þrír af fjórum stigahæstu hraðskákmönnum eru óvirkir og því eru 157 stig milli fyrsta og annars sætis.

Olga Prudnykova (2116) er stigahæst skákkvenna.

Ungir og gamlir

Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2259) nær aftur toppsætinu hjá ungum skákmönnum eftir þungan mánuð hjá Ingvari Wu Skarphéðinssyni (2217). Á vizkualdrinum er Hannes Hlífar Stefánsson (2433) stigahæstur.

Breytingar

Theódór Helgi Eiríksson (1917) hækkaði mest í atskák eða um 138 stig. Af stigahærri mönnum má nefna 34 stiga hækkun Magnúsar Pálma Örnólfssonar (2207) og 32 stiga hækkun Arnar Leós Jóhannssonar (2229).

Í hraðskák hækkaði Nirvaan Halldórsson (1638) um 139 stig, 4 stigum meira en Pétur Úlfar Ernisson (1921). Undirritaður (1962) var svo þriðji skákmaðurinn í 100 stiga klúbbnum þennan mánuðinn með 123 stiga hækkun.

Af stigahærri skákmönnum má benda á 46 stiga hækkun Róberts Lagerman (2302) og 44 stiga hækkun Stefáns Bergssonar (2105)

 Fjöldi

Kristján Örn Elíasson var duglegasti skákmaður mánaðarins. Hann tefldi bæði flestar atskákir (ásamt Ólafi Erni Ólafssyni) og flestar hraðskákir. Hann stóð í stað í atskák en hækkaði um heil 93 stig í hraðskák.

Nýir á lista

Sjö koma nýir inn á lista í atskák, stigahæstur þeirra er Ívar Örn Sigurbjörnsson (1820). Einnig koma 7 nýir inn á lista í hraðskák, stigahæstur þar er Hoda Gent (1726).

- Auglýsing -