FIDE birti ný alþjóðleg skákstig 1. október. Sigurvegarar Haustmóts TR að sækja sér miklar hækkanir og Henrik Danielsen með 25 skákir í mánuðinum!
Stigahæstu skákmenn og skákkonur
Vignir Vatnar Stefánsson (2506) er stigahæstur íslenskra skákmanna. Mesta hækkun hjá efstu mönnum var hjá sigurvegara Haustmóts TR, Degi Ragnarssyni (2385) sem hækkaði um 20 stig.
Olga Prudnykova (2271) er stigahæst íslenskra skákkvenna en Lenka Ptácníková (2167) í öðru sæti hækkaði um 13 stig í mánuðinum
Ungir og gamlir
Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2373) er stigahæstur íslenskra ungmenna en hann hækkaði um 11 stig í mánuðinum. Ingvar Wu Skarphéðinsson (2127) hækkaði um 38 stig í mánuðinum og fór úr fimmta sæti upp í þriðja.
Á vizkualdrinum er Héðinn Steingrímsson (2502) stigahæstur. Henrik Danielsen (2467) hækkaði um 2 stig í mánuðinum sem nægði til að fara upp fyrir Jóhann Hjartarson í 2. sætinu.
Breytingar
Sigurvegari í opna flokknum á Haustmótinu Þór Jökull Guðbrandsson (1781) hækkaði mest í mánuðinum, eða um 138 stig. Emilía Embla B. Berglindardóttir (1734) rétt skreið með honum inn í 100 stiga klúbbinn.
Af stigahærri skákmönnum má nefna að Stefán Bergsson (2163) sem sópaði B flokki á Haustmótinu hækkaði um 67 stig og þá má nefna að sigurvegari C flokksins, Kristján Örn Elíasson (1916) hækkaði um 34 stig.
Fjöldi
Henrik Danielsen tefldi næstum því daglega í mánuðinum en í 25 skákum náði hann sér í 22,5 vinninga. Samt hækkaði hann bara um 2 stig. Elo stigakerfið refsar grimmilega fyrir jafntefli gegn stigalægri andstæðingum.
Nýir á lista
Tveir koma nýir inn á lista í mánuðinum. Ívar Örn Sigurbjörnsson með 1526 stig og Vilhelm Thor H Hermansen með 1494 stig.