Öðrum keppnisdegi EM ungmenna í skák, í Budva í Svartfjallalandi, er lokið. Íslensku keppendurnir fengu 7,5 vinning af 15 mögulegum í dag, sem verður að teljast nokkuð gott.
Pétur Úlfar, Nökkvi Már, Birkir, Jósef, og Ingvar Wu unnu allir í dag. Landsliðskonurnar Guðrún Fanney og Iðunn gerðu báðar jafntefli.

Markús Orri Óskarsson, Theódór Helgi og Gunnar Erik gerðu einnig jafntefli en aðrir töpuðu sínum skákum.

Jósef Omarsson lagði hinn georgíska Andria Kviriashvili (2285) að velli, með svörtu mönnunum, í vel útfærðri skák. Upp kom Alapin-afbrigði sikileyjarvarnar og Josef tefldi af öryggi og tók svo yfr skákina, vann skiptamun og sigurinn ótrúlega öruggur!

Hvítur teflir byrjunina kraflaust og Jósef hrifsar til sín frumkvæðið með öflugum leikjum (16. … e5 og 17. … f5). Stóru mistök hvíts koma þegar hann leikur 24. De6?? því eftir 24. … Bf4! tapar hann liði. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Jósef.


Búast má við að Guðrún Fanney og Jósef verði í beinni útsendingu í 3. umferð.
Skák.is flytur ykkur fréttir af gangi mála í næstu umferðum. Sýnt er beint frá efstu borðum allra aldursflokka og hefjast útsendingar alla daga kl. 13:15 að íslenskum tíma, utan síðustu umferðar sem hefst kl. 12:15.






Chess-results
Beinar útsendingar
Heimasíða mótsins
Mótið stendur yfir frá 29. okt til 7. nóv.
Ísland á 15 fulltrúa á mótinu. Þeir eru:
U8 Róbert Heiðar Skúlason
U10 Pétur Úlfar Ernisson
U10 Nökkvi Már Valsson
U12 Haukur Víðis Leósson
U12 Birkir Hallmundarson
U14 Jósef Omarsson
U16 Markús Orri Óskarsson
U16 Markús Orri Jóhannsson
U16 Mikael Bjarki Heiðarsson
U16 Theódór Helgi Eiríksson
U16-stúlknaflokkur Guðrún Fanney Briem
U18 Ingvar Wu Skarphéðinsson
U18 Adam Omarsson
U18 Gunnar Erik Guðmundsson
U18-stúlknaflokkur Iðunn Helgadóttir
Þjálfarar hópsins eru Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson
















