Íslensku keppendurnir fengu sjö vinninga í skákunum fimmtán sem þeir tefldu í 6. umferð Evrópumóts ungmenna í Svartfjallalandi.

Haukur, Birkir, Theódór, Ingvar og Adam unnu sínar skákir. Guðrún Fanney, Pétur Úlfar, Jósef og Gunnar Erik gerðu jafntefli en aðrir töpuðu sínum skákum.

Það vantaði töluvert upp á slagkraftinn í nokkrum skákum íslensku keppendanna í dag.

Úrslit 6. umferðar

Guðrún Fanney Briem hafði svart gegn WFM Ines Bernard (2211), á toppborðunum, og var skákin í beinni útsendingu.

Áhorfendur fylgdust spenntir með skák Guðrúnar Fanneyjar í dag

Eftir miklar sveiflur í byrjuninni náði Guðrún Fanney að yfirspila andstæðing sinn seint í miðtaflinu. Sú franska hélt sér fast og hékk á jafnteflinu.

Möguleikar Guðrúnar Fanneyjar voru líklega bestir í 35. leik þegar hún gat leikið 35. … De3+ 36. Kh2 Rf1+ 37. Kh1 Kd7! og hvítur á orðið erfitt með að finna gagnlega leiki. Framhaldið hefði getað orðið 38. Db1 Rg3+ 39. Kh2 Re2 og svartur vinnur. Ef riddarinn er drepinn á g3 lendir hvítur í leikþröng og í vandræðum með að valda peðið sitt á c3.

Theódór Helgi vann góða skák í dag og fer hér yfir málin með Birni Ívari og öðrum keppendum
Bræðurnir Jósef og Adam kátir fyrir skák dagsins

Í gær, mánudag, var frídagur á mótinu. Dagurinn var vel nýttur og fóru keppendur og fylgdarfólk meðal annars í fótbolta, borðtennis, veiðiferð á bát, göngutúra, verslunarferðir, í fótsnyrtingu og á rakarastofur!
Þjálfarar íslenska hópsins skipulögðu hraðskákkeppni gegn finnsku keppendunum á mótinu sem var mjög skemmtileg viðureign. Það má geta þess að Ísland vann af miklu öryggi, 37-18.
Íslenski hópurinn endaði svo frídaginn á sameiginlegum kvöldverði.

Hraðskákkeppnin gegn Finnlandi var fjörug
Róbert Heiðar veiddi stærsta fiskinn!
Birkir stóð sig best Íslendinganna í hraðskákinni
Flottir íslenskir fulltrúar
Pörun 7. umferðar

Chess-results
Beinar útsendingar
Heimasíða mótsins

Mótið stendur yfir frá 29. okt til 7. nóv.

Ísland á 15 fulltrúa á mótinu. Þeir eru:
U8 Róbert Heiðar Skúlason
U10 Pétur Úlfar Ernisson
U10 Nökkvi Már Valsson
U12 Haukur Víðis Leósson
U12 Birkir Hallmundarson
U14 Jósef Omarsson
U16 Markús Orri Óskarsson
U16 Markús Orri Jóhannsson
U16 Mikael Bjarki Heiðarsson
U16 Theódór Helgi Eiríksson
U16-stúlknaflokkur Guðrún Fanney Briem
U18 Ingvar Wu Skarphéðinsson
U18 Adam Omarsson
U18 Gunnar Erik Guðmundsson
U18-stúlknaflokkur Iðunn Helgadóttir

Þjálfarar hópsins eru Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson

- Auglýsing -