Afmælisdegi Theódórs (15) og Péturs Úlfars (10) fagnað

Lokaumferð Evrópumóts ungmenna í skák lauk í dag í Budva í Svartfjallalandi.

Pétur Úlfar og Adam unnu sínar skákir. Guðrún Fanney, Markús Orri Óskarsson, Markús Orri Jóhannsson, Jósef og Gunnar Erik gerðu öll jafntefli en aðrir töpuðu.

Úrslit 9. umferðar
Pétur Úlfar Ernisson

Pétur Úlfar Ernisson varð 10 ára í dag og fagnaði afmælisdeginum með því að vinna glæsilegan sigur gegn Iaroslav Zolotarev (1604). Upp kemur svokallað Makogonov afbrigði gegn Kóngs-indverskri vörn svarts. Pétur kom með nýjung í 12. leik (12. …a4) og endurbætti þar taflmennsku nokkra sterkra meistara. A-peð svarts átti eftir að nýtast vel síðar í skákinni þegar það opnaði löngu skálínuna fyrir biskupnum á g7. Riddarafórnin 17. …Rfxe4! splundraði stöðu hvíts og Pétur vann með nokkrum hnitmiðuðum leikjum í kjölfarið.

Sigurskák Adams gegn Pavleski (1917) var mjög sveiflukennd. Adam vann lið í miðtaflinu en tapaði því svo til baka. Staðan var sem betur fer það góð að hann endaði í unnu hróksendtafli sem hann kláraði samviskusamlega.

Markús Orri Óskarsson komst mjög nálægt því að vinna Mihic (1864) en andstæðingurinn hékk á jafntefli í hróksendatafli.

Markús Orri Óskarsson tefldi hörkuskák í dag

Gunnar Erik lenti í smá vandræðum eftir byrjunina gegn Kaewpitakkun (2111) en hélt jafntefli af öryggi. Jósef þrálék snemma gegn Ivancic (2217). Guðrún Fanney átti ágæta vinningsmöguleika gegn Giakoustidou (1802) en varð að sætta sig við jafntefli. Markús Orri Jóhannsson fékk fín færi eftir byrjunina gegn Ahmadli (1656) en eftir óhagstæð uppskipti komst hann lítið áfram og jafntefli samið.

Íslenski hópurinn á leið á skákstað
Málin rædd fyrir skák

Theódór Helgi Eiríksson og Pétur Úlfar Ernisson áttu báðir afmæli í dag og var deginum fagnað með afmælisköku. Á kökuna var prentuð lokastaðan í síðustu skák Einvígis aldarinnar.

Í þessari stöðu gafst Spassky upp!
Afmælisbörn dagsins
Íslenski hópurinn fór saman út að borða á lokakvöldinu
Ingvar Þór og Björn Ívar fara yfir skákir dagsins

Jósef Omarsson fékk flesta vinninga Íslendinganna, 5 talsins, og hækkar um +32 stig að móti loknu. Fínt mót hjá Jósef sem var í baráttu við marga af sterkustu mönnum flokksins. Guðrún Fanney Briem og Pétur Ernir Úlfarsson fengu bæði 4,5 vinning. Guðrún var um tíma í toppbaráttunni í sínum flokk en fataðist flugið í seinni hluta mótsins.

Guðrún undirbýr sig fyrir lokaumferðina, Guðrún hefur á þessu móti og á EM landsliða verið til mikillar fyrirmyndar þegar kemur að undirbúningi fyrir skákir.

Mót af þessu tagi skila oft stigatapi hjá íslensku keppendunum enda eru keppendur mótsins allir sterkir og í mikilli framför. Mikilvægt er að horfa ekki of mikið í stigaútreikninga og muna að þátttaka í móti sem þessu, og þéttar æfingar og góður undirbúningur á meðan á því stendur, skilar alltaf miklum lærdómi og framförum.

Fulltrúar Íslands á mótinu voru:

U8 Róbert Heiðar Skúlason
U10 Pétur Úlfar Ernisson
U10 Nökkvi Már Valsson
U12 Haukur Víðis Leósson
U12 Birkir Hallmundarson
U14 Jósef Omarsson
U16 Markús Orri Óskarsson
U16 Markús Orri Jóhannsson
U16 Mikael Bjarki Heiðarsson
U16 Theódór Helgi Eiríksson
U16-stúlknaflokkur Guðrún Fanney Briem
U18 Ingvar Wu Skarphéðinsson
U18 Adam Omarsson
U18 Gunnar Erik Guðmundsson
U18-stúlknaflokkur Iðunn Helgadóttir

Björn Ívar var aðalþjálfari hópsins og yfirdindill hópsins.

Þjálfarar hópsins voru Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson

Chess-results
Beinar útsendingar
Heimasíða mótsins

- Auglýsing -