Lenka Ptacnikova tryggði sér sigur á Opna Íslandsmóti kvenna í lokaumferð mótsins, sem fram fór fyrr í dag. Lenka hafði leitt mótið fram að lokaumferðinni en jafntefli hjá Lenku og sigur hjá Anastasia Nazarova þýddi að Anastasia náði Lenku að vinningum. Þar sem Lenka vann Anastasia fyrr í mótinu endaði Lenka í efsta sætinu.

Lenka hafði hvítt gegn Alena Ayzenberg. Skákin var alltaf í jafnvægi og þrátt fyrir að Alena fórnaði skiptamun undir lokin endaði skákin með sanngjörnu jafntefli.

Iðunn Helgadóttir hafði svart gegn Anastasia Nazarova. Iðunn hafði teflt frábærlega á mótinu og náð góðum sigrum gegn stigahærri andstæðingum. Hún réð þó ekki við Anastasiu í dag sem vann öruggan sigur.

Olga Dolzhikova vann sigur gegn Helja Lehtinen. Olga nýtti reynsluna og gæðin og yfirspilaði þá finnsku stöðulega.
Oksana Kryger hafði sigur á Katrínu Maríu Jónsdóttur. Katrín María tefldi fínar skákir í mótinu þrátt fyrir að hafa ekki náð í úrslit. Mikilvæg reynsla í reynslubankann.
Liss og Guðrún Fanney tefldu mest spennandi skák umferðarinnar. Liss tefldi hvasst eftir byrjunina, fórnaði manni fyrir sóknarfæri, og það leit lengi út fyrir að hún myndi vinna öruggan sigur. Guðrún Fanney barðist hins vegar eins og ljón og snéri skákinni sér í vil. Þegar leit út fyrir að Guðrún Fanney væri að innbyrða sigurinn lék hún slysalega af sér hrók og Liss hafði sigur.
Jóhanna Björg vann Sylvia Johnsen í 12 leikjum. Skákin talar sínu máli!

Keppendur fengu allir skemmtilega hraunmola í verðlaun. Efstu fimm keppendur mótsins fengu vegleg peningaverðlaun og efstu þrír keppendurnir fengu verðlaun frá Chessable.

Mótið fór fram við frábærar aðstæður á Reykjavík Natura, samhliða Heimsmeistaramótinu í Fischer slembiskák. Róbert Lagerman var yfirdómari mótsins og leysti það starf með sinni einstöku fagmennsku. Björn Ívar Karlsson sá um beinar útsendingar.


















