Íslandsmeistarar Víkingaklúbbsins. Mynd: KÖE

Ritstjóri hafði ætlað að sleppa hinni árlegu spá þetta árið en uppgötvaði að það var ekki svo einfalt – því áskoranir bárust í tugatali. OK – smá lygi en töluvert var kallað eftir hinni árlegu spá. Rétt er að taka fram að bak við þessa spá liggja engar djúpar pælingar – heldur er þetta gert fyrst og fremst til gamans. Fyrri hlutinn fer fram í Rimaskóli en sá síðari á Hótel Selfossi í mars 2020.

Keppnin er óvenjuleg að þessu sinni þar sem úrslitin nú ákvarða hvernig verður skipað í deildir keppnistímabilið 2020-21 þegar nýtt fyrirkomulag verður tekið upp. Áður en lengra er haldið er rétt að fara yfir deildaskiptingu

 • Úrvalsdeild: Sex efstu sveitir 1. deildar .
 • 1. deild: Sveitirnar úr 7.-10. sæti í 1. deild og í 1.-4. sæti í 2. deild
 • 2. deild: Sveitirnar úr 5.-8. sæti úr 2. deild og 1.-4. sæti úr 3. deild
 • 3. deild: Sveitirnar úr 5.-11. sæti úr 3. deild og efsta sveitin úr 4. deild
 • 4. deild: Aðrar sveitir

Dagskrá mótsins

 • Fimmtudagurinn 3. október (aðeins fyrsta deild), kl. 19:3ö
 • Föstudagurinn, 4. október, kl. 20:00 (allar deildir)
 • Laugardagurinn, 5. október, kl. 11 og 17 (allar deildir)
 • Sunnudagurinn, 6. október, kl. 11 (allar deildir)

1. deild

Spennupunktarnir verða tveir að þessu sinni. Toppbaráttan og svo keppnin um að vera á topp sex. Ritstjóri spáir Víkingaklúbbnum efsta sæti en nýliðum SSON öðru sæti. Sá spámannslegi gerir ráð fyrir að Huginn taki þriðja sæti og TR, Fjölnir og SA fylgi þeim í úrvalsdeildina nýju. TG gæti blandað sér í þá baráttu.

Spáin:

 1. Víkingaklúbburinn
 2. SSON
 3. Huginn
 4. TR
 5. Fjölnir
 6. SA
 7. TG
 8. Breiðablik, Bolungarvík og Reykjanes
 9. Víkingaklúbburinn-b
 10. TR-b

2. deild

Hér snýst baráttan um að vera í fjórum efsta sætunum en þau gefa keppnisrétt í 1. deildinni (næstefstu deild) að ári. Það hefur ekki farið framhjá ritstjóra að liðsstjórar vita vel hvað er í húfi. Erfitt er að spá í spilin í 2. deild eins og svo oft áður. Iðulega jafnasta deildin. Ritstjóri spáir því að TV, KR, b-sveit Hugins og Hrókar alls fagnaðar verði í fjórum efstu sætunum og tefli í 1. deildinni að ári. Hin fjögur tefli áfram í 2. deild (þá þriðju efstu deild). Það má alls ekki vanmeta Hauka, sem geta verið mjög missterkir á milli umferða, og SA-b sem geta vel krækt sér í sæti í 1. deild.

Spáin

 1. Huginn-b
 2. TV
 3. Hrókar alls fagnaðar
 4. KR
 5. Haukar
 6. SA-b
 7. TG-b
 8. Fjölnir-b

 3. deild

Í 3. deildinni, þar sem 14 lið keppa, eru þrír skurðpunktar. Sveitirnar í 1.-4. sæti fá sæti í hinni nýju 2. deild, sveitirnar í 5-11. sæti tefla áfram í 3. deild en þrjár neðstu sveitirnar falla niður í 4. deild.

Ritstjóri ætlar að láta sér duga að spá í toppbaráttuna. Þar hljóta Skákgengið, Vinaskákfélagið, Taflfélag Akraness, c-sveit Víkinga og TR, öldungalið SA, b-sveit Breiðabliks, Bolungarvíkur og Reykjaness að vera líklegar til árangurs. Mögulega er ritstjóra að yfirsjást eitthvað eins og svo oft áður.

Spá ritstjóra fyrir hin verðmætu fjögur efstu sæti.

 1. Taflfélag Akraness
 2. Víkingaklúbburinn-c
 3. Skákgengið
 4. TR-c

4. deild 

Þar skiptir efsta sætið öllu máli því það sæti gefur keppnisrétt í 3. deild að ári. Um það sæti gætu barist SA-c, SSON-b, Huginn-c, TV-b og sennilega einhverjar sveitir sem ritstjóri fattar ekki!

Ritstjóri spáir að SSON hreppi sætið.

Vísað er á heimasíðu mótsins varðandi allar upplýsignar um mótið.

Gens Una Sumus