Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga fer fram um helgina. Rétt eins og venjulega hefur ritstjórn tekið saman spá um úrslit mótsins. Víkingaklúbbnum er spáð Íslandsmeistaratitlinum. Ritstjórn gengur svo langt að spá sjálfum Íslandsmeisturunum, falli úr úrvalsdeild. Sjáum til – spennandi helgi framundan!
Úrvalsdeild
Séu meðalstig átta efstu manna skoðuð geta fjögur lið unnið keppnina. Víkingaklúbburinn (2426) er hæstur en TR (2417) er skammt undan. Fjölnir (2399) og KR (2378) eru svo lítið lægri á meðalstigum.
Auðvitað segja meðalstigin ekki alla söguna því ekki er víst að allir þeir sem eru skráðir til leiks mæti. Ritstjórn spáir Víkingum sigri en telur TR næstlíklegasta. KR og Fjölnir geta alveg blandað sér í baráttuna um dolluna. Fallbaráttan er að öllum líkindum á milli sjálfra Íslandsmeistarana í TG og svo TV. Ritstjóri spáir TG falli að þessu sinni. Auðvitað gætu Garðbæingar svo komið sterkari til leiks í síðari hlutanum.
- Víkingaklúbburinn
- TR
- KR
- Fjölnir
- TV
- TG
1. deild
Eins og svo oft áður er erfitt að spá í spilin í næstefstu deild. Ritstjórn spáir engu að síður að Breiðablik endurheimti úrvalsdeildarsætið sem þeir misstu í vor. SA er líklegast til að veita þeim keppni. Ritstjórn spáir TR-b bronsinu. Þessi þrjú félög eru áberandi best að mati ritstjórnar.
Enn erfiðara er spá í fallbaráttuna en nánast öll liðin nema þrjú ofangreind gætu fallið. Meðalstig félaganna eru mjög jöfn. Eftir að hafa kastað upp teningi spáir ritstjórn tveimur b-liðum falli.
- Breiðablik
- SA
- TR-b
- Skákgengið
- Breiðablik-b
- Vinaskákfélagið
- TG-b
- Víkingaklúbburinn-b
2. deild
Ritstjórn þykkir b-lið SA og KR líklegustu til afreka ásamt c-liði TR.
Mjög erfitt er að spá í fallið en hin félögin er áþekk að skákstigum nema c-sveit Breiðabliks er áberandi stigalægst. Félagið samanstendur hins vegar af ungum og efnilegum skákmönnum, sem eiga mikið inni, og svo Kristjáni Halldórssyni, og eru alls líklegir að halda sæti sínu.
- SA-b
- KR-b
- TR-c
- Hrókar
- SAUST
- TG-c
- Breiðablik-c
- TR-d
3. deild
Ritstjórn er bjartsýn fyrir hönd SSON sem féll nokkuð óvænt í fyrra. Goðinn gæti komið sterkur til leiks sem og b-sveitir Fjölnis og TV.
Ritstjórn spáir því að b-sveit Fjölnis endurheimti sæti í 2. deild.
- SSON
- Fjölnir-b
- TV-b
- Goðinn
- Sauðárkrókur
- KR-c
- TR-e
- SSON-b
4. deild
Ritstjórn spáir því að Dímon vinni sigur í 4. deildinni. Jafnvel gæti b-sveit sama félags fylgst þeim upp. Um önnur sæti ætlar ritstjórn ekki að spá að sinni.
Tímaritið Skák
Minnt er á að Tímaritið Skák verður hægt að nálgast á skákstað. Hægt verður að borga blaðið með greiðslukorti eða innlögn. Gjafverð á ritinu eða kr. 2.500. Gjöf en ekki gjald fyrir þetta gæðarit sem Gauti Páll á langmestan heiður af sem verður sífellt betra og betra með hverju tölublaði.
Fyrir þá sem ekki komast um helgina má panta blaðið á netinu sem verður sent í pósti eftir helgi. Sjá hér.
Ritstjórinn er tilbúinn til að árita fyrir þá sem vilja. Eldri eintök má einnig fá á afar góðum afslætti og árituð.
Að lokum
Eins og venjuleg vill ritstjórn minna á að þessi spá er fyrst og fremst gerð til gamans og á ekki að taka sem geimvísindi. Ritstjórn hefur nefnilega einstökum sinnum upplifað að lesendur/forráðamenn taflfélaga hafi farið í fýlu sem er algjör óþarfi!
Góða skák-helgi!