Skáksamband Íslands kynnir í samstarfi við Skákskóla Íslands verkefnið Skákframtíðina.

Sjóður tileinkaður minningu Sigtryggs Sigurðssonar, glímukappa, styður afar myndarlega við verkefnið.

Markmiðið er að hlúa að ungu afreksfólki í skák og byggja upp framtíðarlandslið Íslands. Stofnaðir verða tveir úrvalsflokkar, 9-12 ára og 13-16 ára, sem hvor um sig verður skipaður 6-10 þátttakendum. Reglulega verður nýjum áhugasömum þátttakendum boðin þátttaka í Skákframtíðinni.  Styrktarsjóður Sigtryggs Sigurðssonar glímukappa styður afar myndarlega við verkefnið.

Björn Ívar Karlsson verður umsjónarmaður verkefnisins.

Þátttakendur munu njóta sérstakrar handleiðslu af hálfu íslenskra og erlendra þjálfara. Þjálfunin innanlands verður í umsjón Björns Ívars Karlssonar, þjálfara kvennalandsliðsins og FIDE-meistara, og kennara Skákskóla Íslands undir umsjón Helga Ólafssonar, stórmeistara, landsliðsþjálfara og skólastjóra Skákskólans.

Skákskólinn undir styrkri forystu Helga Ólafssonar – stendur að verkefninu ásamt Skáksambandinu.

Úkraínsku stórmeistararnir Oleksandr Sulypa og Adrian Mikhalchishin munu koma til landsins og þjálfa 3-4 sinnum á ári, en báðir eru þrautreyndir þjálfarar. Sá fyrrnefndi er landsliðsþjálfari Úkraínu, eins sterkasta landsliðs heims, og sá síðarnefndi hefur verið yfirþjálfari FIDE um árabil, en auk þess að gegna stöðu landsliðsþjálfara kvennaliðs Tyrklands hefur hann ritað fjölmargar skákbækur.

Sulypa fylgist með liðsmönnum sínum Ivanchuk og Moiseenko

Gerðar vera ríkar kröfur til þeirra sem taka þátt í Skákframtíðinni. Þátttakendur þurfa að skila verkefnum til kennara sem lögð verða fyrir þá með reglulegu millibili og ætlað er að sýna fram á áhuga og ástundun, hvort tveggja með þátttöku í mótum og eins iðjusemi við nám og undirbúning. Hópurinn fer einnig í æfingabúðir, jafnt innanlands sem utan, en þátttakendur þurfa að taka þátt í kostnaði við verkefnið.

Mikhalchishin er einn virtasti skákþjálfari heims og kom meðal annars að þjálfun Karpovs.

Skákframtíðin byggir á svipuðu verkefni frá Póllandi sem Sulypa og Mikhalchishin komu einmitt að. Það skilaði miklum árangri því Pólverjar voru nálægt því að fagna sigri á síðasta Ólympíuskákmóti!

Verkefninu Skákframtíðinni verður formlega hleypt af stokkunum síðustu helgina í febrúar þegar Sulypa mætir til landsins, en þá mun fyrsta námskeiðslota fara fram.

Skáksamband Íslands og Skákskóli Íslands binda miklar vonir við Skákframtíðina sem leið til að efla afreksstarf fyrir íslensk ungmenni, með það að markmiði að Ísland nái að skipa sér aftur í fremstu röð skákþjóða.