Skákskóli Íslands starfar á vegum Skáksambands Íslands og í samvinnu við menntamála­ráðuneytið. Hlutverk skólans er að annast skákkennslu og að efla vöxt og viðgang skáklistarinnar á Íslandi. Helgi Ólafsson stórmeistari er skólastjóri skólans.

Starfsemin fer fram í húsnæði skólans að Faxafeni 12, en gengið er inn að vestanverðu. Skákskólinn heldur einng úti starfsemi í Stúkunni á Kópavogsvelli í samstarfi við Skákdeild Breiðabliks, og jafnframt er mikil áhersla lögð á gott samstarf skólans við taflfélög á landinu öllu. M.a. stendur skólinn fyrir kennslu í Fischer-setri á Selfossi og er bakhjarl kennslu í grunnskólum Akureyrar.

Kennarar skólans hafa með höndum einkatíma og einstök verkefni sem varða þjálfun ungmennalandsliða og keppenda sem taka þátt í alþjóðlegum mótum erlendis. Í sumar stóð Skákskóli Íslands fyrir þjálfun þátttakenda í Evrópumóti ungmenna í Bratislava í Slóvakíu.

Skákskólinn hvetur fyrirliða skáksveita grunnskóla að kynna sér þá þjálfun sem í boði er, en margar af sigursælustu skáksveitum grunnskólanna hafa fengið þjálfun hjá Skákskóla Íslands. Skákskólinn hóf jafnframt samstarf við Menntaskólann í Kópavogi á haustönn 2019 vegna nýstofnaðrar afreksbrautar en skák er meðal þeirra greina sem falla undir þessa starfsemi. Meistari Skákskóla Íslands 2019, Vignir Vatnar Stefánsson er skráður á afreksbraut MK og er brautin nýr og spennandi valkostur fyrir ungt afreksfólk á sviði skákarinnar.

Vignir Vatnar fyrir miðju verðlaunahafa 1600+-flokksins.

Skákskólinn leitar eftir góðu samstarfi við öll taflfélög á landinu, hópa og einstaklinga og hvetur áhugasama til að hafa samband og kynna sér kennsluna og tækifæri til samstarfs.

Kennsla á haustönn 2019

Haustönn Skákskóla Íslands hefst vikuna  2.–8. september. Kennt er í byrjendaflokkum, stúlknaflokkum, framhaldsflokkum og fullorðinsflokkum

Byrjendaflokkar Skákskólans eru ætlaðir fyrir krakka á aldrinum 6 – 10 ára sem kunna mannganginn. Kennsla hefst 7. september og fer fram á laugardögum frá  12:30- 14:30, en hver hópur er klukkutíma í senn. Kristófer  Gautason hefur umsjón með kennslunni ásamt aðstoðarkennurum. Skráningar og fyrispurnir má senda á netföngin kristofer.gautason@rvkskolar.is og Skaksamband@skaksamband.is.  Námskeiðsgjöld fyrir haustönn eru 15.000 kr. og hægt er að nýta frístundakort til greiðslu.

Skákstelpur Karen, Soffía, Anna, Lóa, Elín, Guðrún og Fanndís á æfingu hjá Jóhönnu og Veroniku 28. janúar sl. — Morgunblaðið/Árni Sæberg

Stúlknaflokkar Skákskólans hefjast í Stúkunni á Kópavogsvelli mánudaginn 2. september. Sem fyrr sjá Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir um kennsluna. Skráning er á netfangið stulknaskak@gmail.com.

Í framhaldsdeild er byggt á afreksþjálfun þar sem flokkum er skipt eftir getu og er valið inn í þá á grundvelli inntökuprófa eða ELO stiga. Fullorðinsnámskeið eru sérstaklega auglýst þegar þau eru í boði.

Fyrirspurnum um starfsemina skal beint á netfang skákhreyfingarinnar skaksamband@skaksamband.is eða til skólastjóra Skákskólans á netfangið helol@simnet.is.