Demis Hassabis einn af forkólfum Deep Mind hjá Google, sem hefur slegið í gegn með gervigreindinni Alphazero, hélt í morgun blaðamannafund þar sem niðurstöður nýjasta einvígis við Stockfish voru kynntar. Ljóst er að Alphazero hefur bætt sig gríðarlega og vill Hassabis meina að „taugakerfi“ Alphazero sé í raun búið að leysa skák.

Eftir síðustu tvö einvígi var kallað eftir nýrri skákum og einvígisskilyrðum þar sem notast yrði við nýjustu útgáfu af Stockfish, Stockfish 10. Jafnfram fengu forsvarsmenn Stockfish, Trond & Gokke að ráða ferðinni í stjórn Stockfish í einvíginu. Þrátt fyrir það virðist Alphazero hafa bætt gervigreind sína það mikið að niðurstaðan í einvíginu varð algjört grín fyrir Stockfish sem beið algjört afhroð. Tefldar voru 1000 skákir og varð niðurstaðan sláandi +850 =149 -1 en tapskákin hjá Alphazero var greinilega eitthvað grín hjá gervigreindinni sem virðist hafa húmor og tefldi hið svokallaða „Bongcloud System“ 1.e4 e5 2.Ke2. Meira er hægt að lesa um Bongcloud hér: http://www.chessmastery.com/bongcloud.pdf
Þetta stóra vinningshlutfall er gríðarleg breyting frá fyrri einvígjum og ljóst að gömlu forritin eru nánast að verða úrelt!
Í nýjasta einvíginu var mjög forvitnilegt að sjá hvernig byrjanir dreifðust. Svo virðist sem Alphazero telji drekaafbrigðið best á svart gegn 1.e4 og átti Stockfish sér ekki viðreisnar von í Drekanum. Þetta verða að teljast gleðitíðindi fyrir gamla Drekaskákmenn á borð við Gunnar Björnsson! Gegn 1.d4 beitti Alphazero óspart Búdapestarbragði og enn á ný átti Stockfish engar varnir gegn snörpum árásum Alphazero. Vafalítið gleður þetta einhver hjörtu í Bandaríkjunum, líklegast í og við Boston-borg.
Lítið kom þó á óvart að með hvítu mönnunum er 1.e4 ekki lengur „best by test“ eins og Fischer páfagaukar á borð við Benedikt Jónasson hafa lengi haldið fram. 1.d4 er málið og Alphazero og Kramnik greinilega með allt á hreinu. 1.d4 vinnur og því er ljóst að menn geta farið að troða þessum Fischer-frösum þangað sem sólin ei skín!

Deepmind gáfu í dag út eina af bestu skákunum í einvíginu en fleiri skákir eru væntanlegar á næstu dögum.
Alphazero forritið mun á næstu dögum fara í almenna sölu og mun eintak kostar 199 evrur. Skak.is hefur fengið nokkur kynningareintök og verða 10 heppnir dregnir út sem fá gefins eintök af Alphazero! Þeir sem hafa áhuga þurfa að skrá sig á listann hér
Þangað til njótið snilldarinnar….það eru engu líkarara en Stockfish 10 hafi bugast í einvíginu!
















