ÆSIR – skákklúbbur eldri borgara – lét ekki sitt eftir liggja til að minnast 85 ára afmælis Friðriks Ólafssonar og skákdagsins 26. janúar sem honum er tileinkaður. Yfir 30 aldnir seggir voru mættir til tafls Ásgarði í Stangarhyl, félagsheimili FEB, og keppust við eins og rjúpan við staurinn að reyna að máta hvern annan í sem fæstum leikjum á sem skemstum tima áður en klukkan féll.
Hið vikulega skákmót klúbbsins sl. þriðjudag var að sjálfsögðu helgað þessum tilefnum og hinir öldnu kappar hvattir til að freista þess að telfa í anda meistarans. Oftast hefur þessi viðburður tengst hinu árlega Toyotamóti, sem farið hefur fram á svipuðum tíma, en í ár verður það ekki haldið fyrr en 21. febrúar nk. innan um glæsivagna í höfuðstöðvum þess í Kauptúni, Garðabæ.
Að þessu sinni var það enginn annar en Stefán Þormar Guðmundsson, hinn drjúgi valinnkunni sómamaður, sem beit hvað hvassast frá sér og vann mótið með 8 vinningum af 10 mögulegum. Annar varð hinn harðsnúni Sæbjörn Larsen Guðfinnsson með 7.5v. og jafn honum að vinningum en lægri að mótsstigum Kristinn Bjarnason, sem er þeim mun slyngari sem hann lætur minna yfir sér.
Skákæfingar og væringar Æsis eru alla þriðjudaga í Ásgarði, Stangarhyl kl. 13-16.45. Sérstök kappmót haldin af og til eins og áður segir: Toyota-mótið 21. febrúar; Meistaramót klúbbsins 3. mars; Páskaeggjamót 7. apríl; Minningarmót fallinna félaga 5. maí og skákvetrinum lýkur svo með Eðalmóti Magga Pé þann 26.maí. Stemmt er að því að Íslandsmót öldunga í atskák verði haldið þar þann 17. mars í samstarfi við Skáksambands Íslands og skákklúbba eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu. /ESE












