Miðnættið er tengt alls kyns töfrum og göldrum sem birtast í fjölda frásagna og þar eru ævintýrin á Skákhátíð MótX ekki undan skilin og ekki ósennilegt að þau verði 1001 áður en yfir lýkur. Það er því ekki að ástæðulausu að í bígerð eru sérstakar miðnætursýningar fyrir áhorfendur frá þessari mögnuðu skákveislu í Kópavoginum!
Tilefnið er að margar af athyglisverðustu og mest spennandi sýningum skáklistarinnar á innlendum vettvangi þessa dagana fara fram um miðnæturbil í Stúkunni við Kópavogsvöll. Skemmst er að minnast æsilegs riddaraendatafls hjá Gumma og Degi í annarri umferð.
Í fjórðu umferð hófst miðnætursýningin á baráttu þeirra Ingvars Þórs og Hjörvar Steins. Hjörvar hafði fyrir skákina unnið ellefu skákir í röð á ýmsum mótum og yfirleitt verið mjög sigursæll undanfarið ár. Hann var því talinn mun sigurvænlegri í viðureigninni við Ingvar Þór. Í æsilegu tímahraki þar sem Ingvar, sem var í þessu skákævintýri í hlutverki Öskubusku, lék 35. Heb1 og átti eina sekúndu eftir (35.Hea1 hefði líklega verið of langur leikur!) sótti Hjörvar á kóngsvæng og kóngur Ingvars virtist vera kominn í sjálfheldu milli g1 og f2. Keppendur þráléku síðan í nokkra leiki til að ná tímamörkunum. Eftir að þeim var náð virtist ekkert annað en þráleikur vera í boði fyrir hvorntveggja og fréttaritara mótsins hefur afbragðs heimildir fyrir því að hvítur bjóst við þeim málalokum. En Hjörvar Steinn breytti óvænt út af þráleiknum. Við vitum ekki skýringuna, en stuttu seinna var hann kominn með tapaða stöðu og varð að gefast upp. En ef staðan er skoðuð nánar með aðstoð skákreikna, koma í ljós tvær varnaraðferðir hjá Ingvari sem gera það að verkum að hann nær að valda hinn veika f2-reit, verjast mátsókninni og enda með unna stöðu. Sá Hjörvar kannski þessar leiðir (Hf1 og Db6) og treysti Ingvari til að finna þær ? Sérstaklega þar sem Ingvar skaut inn 41.Dd8+ sem var lykillinn að öðru varnartilbrigðinu. En eins og áður sagði var hvítur ekki á þeim buxunum og hefði feginn tekið jafnteflinu.
Eftir þessi spennuþrungnu lok á efsta borðinu var bara ein skák eftir. Þorvarður Ólafsson hafði tapað manni snemma tafls á móti Akureyringnum knáa, Símoni Þórhallssyni. En eftir langa og hetjulega vörn virtist hann vera að bjarga hálfum punkti en skákin er list leyndra dóma.
Nú lék Símon 76.Kc2 og þá hófst lokasýning kvöldsins. Þorvarður greip tækifærið og lék 76. – Hc3+(!) 77.Hxc3 a2(!!)
Núna tapar 78.Kb2 vegna bxc3+ ! En hvítur átti eina björgunarleið sem meira að segja leiðir til unninnar stöðu. Við eftirlátum lesendum að finna hana !
En þess má geta að svartur heldur jafntefli leiki hann t.d. 76. – Hh3
Guðmundur Kjartansson vann góðan sigur á Vigni Vatnari á öðru borði og Dagur fór létt með Halldór Grétar á því þriðja. Örn Leó og Andri Áss áttu að tefla á fjórða borði, en Örn Leó forfallaðist óvænt rétt fyrir umferðina og urðu keppendur ásáttir um að sættast á skiptan hlut í ótefldri skák þar sem næstu dagar hentuðu ekki til að tefla frestaða skák.Birkir Ísak vann Bárð Örn, Benedikt Jónasson slapp fyrir horn í skák sinni við Pál Andrason og loks endaði æsileg skák Baldurs Kristinssonar og Magnúsar Pálma með jafntefli eftir miklar sviptingar og snjalla leiki hvorstveggja á köflum.
Skákir á fjórum efstu borðum B-flokks voru tefldar á efri hæðinni í fjórðu umferð. Hörður Aron og Pálmi Pétur voru friðsamir og sömdu snemma um jafntefli.
Alexander Mai vann Hrund Hauksdóttur á öðru borði. Á þriðja borði B-flokks vann Gunnar Erik góðan sigur. Þjálfarinn Birkir Karl var mjög ánægður eftir skákina en skákmaðurinn Birkir Karl var svekktur !
Skák Benedikts Briem og Arnars Milutin var æsileg og vel tefld. Á örlagaríku andartaki lék Benedikt ónákvæmt og Arnar gekk á lagið með vel tefldri stórsókn sem endaði honum í hag.
Arnar var nýbúinn að leika 24. – a5. Núna hefði líklega verið vænlegast að reyna að loka drottningarvængnum með 25. Rc5 Bxc5 26. bxc5. En leiðin sem Benedikt velur virðist vera ágæt og það halda skákreiknarnir líka í fyrstu.
25.bxa5 b4! 26.Rxb4 Rc4!
Núna skipta skákreiknarnir um skoðun, svartur er kominn í stórsókn.
27.bxc4 Bxb4 28.Db2 Hxa5 29.c3 Ha4 30.Bd2 Hda8! 31.cxb4 Da6!
Hvítur er manni yfir en sókn svarts eftir a-línunni er einfaldlega óstöðvandi.
32.Bc3 Ha2 33.Db3 dxc4 34.b5!? cxb5 35.Db4 Ha4 36.Db2 b4 37.Bxb4 Hxb4! 38.Hh2 Da1+! og hvítur gafst upp.
Frekari úrslit má sjá hér:
http://chess-results.com/tnr505105.aspx?lan=1&art=2&rd=3
Heiðursskákstjóri umferðarinnar var hinn valinkunni meistari stöðubaráttunnar, Þorsteinn Þorsteinsson. Leysti hann hlutverk þetta af áreynslulausri yfirvegun eins og við var að búast enda maður í dýnamísku jafnvægi umfram aðra menn.
Meðal áhorfenda má nefna Hilmar Viggósson sem var gjaldkeri Skáksambandsins þegar einvígi Fischers og Spasskí fór fram árið 1972. Einnig var hinn geðþekki og norskættaði Jon Olav Fivelstad skákstjóri Skákþings Reykjavíkur mættur til að fylgjast með. Góð umgjörð og skákstjórn mótsins í Faxafeni í ár vakti athygli skákstjóra Skákhátíðar MótX í heimsókn hans í Faxafenið s.l. sunnudag.
Viðvera Jon Olav og ráðleggingar komu sér svo vel þegar 15 mínútna aukatími bættist ekki við klukkuna hjá Baldri og Magnúsi Pálma eftir að tímamörkunum hafði verið náð. Þá leiðréttu skákstjórar mótanna í sameiningu villuna og skákin gat haldið áfram í réttum farvegi. Einstaklega falleg og táknræn stund fyrir samstöðu íslenskra skákmanna þar sem vinarþel á alltaf að vera í öndvegi!
Teflt er á hverjum þriðjudegi fram til 18. febrúar og hefst taflmennska klukkan 19:30. Gestir eru velkomnir, heitt er á könnunni og bruðerí af bestu gerð! Fimmta umferð fer fram þriðjudaginn 4. febrúar.















