Matthías Björgvin og Ingvar Wu eru núverandi Íslandsmeistarar í skólaskák.

Skemmtilegu og æsispennandi Landsmóti í skólaskák lauk í dag í húsnæði Siglingafélagsins Ýmis. Í yngri flokki varði Matthías Björgvin Kjartansson titil sinn eftir harða baráttu og einvígi við Guðrúnu Fanney Briem. Ingvar Wu Skarphéðinsson kláraði eldri flokkinn sem var einnig jafn og spennandi.

Eldri flokkurinn var mjög jafn og fyrri seinni keppnisdag voru fjórir skákmenn efstir og jafnir! Baráttan hélt áfram en þeir Ingvar Wu og Gunnar Erik Guðmundsson héldu áfram að vinna sínar skákir og voru jafnir með 6,5 vinning fyrir lokaumferðina. Hjá Ingvari var það baráttusigur gegn Adam Omarssyni sem skipti mestu máli.

Í lokaumferðinni átti Gunnar Erik erfiðara verkefni fyrir höndum þar sem hann hafði svart á stigahæsta keppandann, Benedikt Briem. Benedikt var þó dottinn úr séns eftir tap í umferðinni á undan en hann reyndist engu að síðu áhrifavaldur og lagði Gunnar Erik að velli. Þetta þýddi að sigur Ingvars í lokaumferðinni, hans sjötta sigurskák í röð tryggði titilinn.

Adam Omarsson endaði í öðru sæti útaf innbyrðis viðureign á Gunnar Erik og má vel við una. Adam nagar sig kannski í handarbökin en hann missti niður vænlegar stöður gegn Benedikt og Ingvari Wu.

Sæþór Ingi Sæmundarson átti gott mót og hlaut landsbyggðarverðlaunin.

Í yngri flokki var æsispennandi barátta á milli Guðrúnar Fanneyjar Briem og Matthíasar Björgvins Kjartanssonar. Guðrún Fanney hafði fullt hús eftir fyrri keppnisdaginn en tapaði fyrstu skákinni í dag þegar Markús Orri Jóhannsson lagði hana að velli. Eftir það unnu þau bæði sínar skákir og mættust svo í lokaumferðinni í úrslitaskák.

Í lokaumferðinni slíðruðu þau hinsvegar sverð og sömdu tiltölulega stutt jafntefli. Bæði tryggðu þau þarmeð annað sætið allavega á mótinu en tap hjá öðru hvoru hefði þýtt að Mikael Bjarki Heiðarsson hefði náð viðkomandi að vinningum en þau hefðu þó bæði haft betur á innbyrðist viðureign og jafnteflið því í raun óþarfi upp á að tryggja sæti.

Engu að síður varð einvígi niðurstaðan. Tefldar voru tvær skákir með 10+5 tímamörkum. Einvígið varð æsispennandi. Guðrún fékk betra tafl þrátt fyrir mistök í byrjuninni í fyrri skákinni en leyfði Matthíasi að loka stöðunni og aftur varð jafntefli niðurstaðan.

Það var svo ekki fyrr en í seinni einvígisskákinni sem sigurskák leit dagsins ljós. Guðrún lagði ekki í að drepa biskup Matthíasar þar sem hún óttaðist um drottninguna sína. Guðrún vann samt peð skömmu síðar en eftir það tefldi Matthías betur, vann peðið til baka og yfirspilaði andstæðing sinn í tímahraki.

Guðrún Fanney má engu að síður vel við una en 2. sætið er besti árangur stelpu á landsmóti frá upphafi, vel gert!

Markús Orri Óskarsson hlaut landsbyggðarverðlaunin

Mótið á Chess-Results: Eldri flokkur | Yngri flokkur

Beinar útsendingar

 

 

- Auglýsing -