Íslensku keppendurnir stóðu sig vel á öðrum keppnisdegi Norðurlandamóts ungmenna, sem fram fer í Svíþjóð 26.-28. ágúst.
Í A-flokki er Vignir Vatnar Stefánsson efstur með fullt hús, 4 vinninga af 4 mögulegum. Vignir hóf daginn á því að leggja sænska FIDE-meistarann Törngren, með svörtu, í vel útfærðri skák. Alexander Oliver tapaði á sama tíma gegn Svíanum Muntanen. Þeir félagarnir mættust svo í síðari skák dagsins, sem Vignir vann eftir talsverðar flækjur.
Vignir hefur, eins og áður sagði, 4 vinninga og Alexander hefur 2 vinninga.

Í B-flokki mættust Benedikt Briem og Aleksandr Domalchuk-Jonasson í morgunumferðinni. Skákin var fremur tíðindalítil og endaði með jafntefli. Í síðari umferðinni hafði Benedikt svart gegn sænska FIDE-meistaranum Falkevall og hélt jafntefli með góðri varnartaflmennsku. Á sama tíma vann Aleksandr Finnann Vainikka, eftir slæman afleik Finnans.
Aleksandr hefur 2,5 vinning og Benedikt 2 vinninga.


Í C-flokki hefur Ingvar Wu Skarphéðinsson 3,5 vinning í 1.-2. sæti. Ingvar byrjaði daginn á jafntefli gegn Norðmanninum Lye, sem deilir efsta sætinu með honum. Í síðari skák dagsins vann Ingvar mikinn baráttusigur gegn Norðmanninum Nielsen-Refs. Gunnar Erik hóf daginn einnig á jafntefli, eftir að hafa varist vel. Gunnar lagði svo Færeyinginn Petersen í síðari skák dagsins, af miklu öryggi.
Ingvar er eins og áður segir efstur með 3,5 vinning og Gunnar Erik hefur 1,5 vinning.

Í D-flokki áttu íslensku fulltrúarnir erfiðan morgun. Mikael Bjarki og Guðrún Fanney töpuðu bæði skákunum sínum, eftir að hafa staðið til vinnings um tíma. Mikael Bjarki vann seinni skákina gegn Færeyingnum Magnusen á meðan Guðrún Fanney gerði jafntefli við Færeyinginn Samuelsen.
Mikael Bjarki hefur 2,5 vinning en Guðrún Fanney 2 vinninga.

Í E-flokki var morgunumferðin einnig erfið fyrir íslensku keppendurna. Jósef tapaði gegn Finnanum Vorobyov. Sigurður Páll tefldi góða skák gegn Norðmanninum Myny en um það leyti sem Sigurður Páll var að innbyrða sigurinn í hróksendatafli, gleymdi hann sér eitt augnablik og féll á tíma. Svekkjandi atvik en Sigurður Páll sýndi mikinn styrk með því að koma til baka af krafti í seinni skák dagsins og vann öruggan sigur. Jósef tapaði síðari skákinni sinni.
Sigurður Páll hefur 2,5 vinning og Jósef 1,5 vinning.


Mótið fer vel fram og það fer ágætlega um keppendur. Beinar útsendingar úr yngstu flokkunum eru þó áfram til vandræða og nýjustu tíðindi eru þau að nú er búið að senda tæknifulltrúa KnightVision heim. Þetta sænska tæknifyrirtæki átti að sjá um beinar útsendingar með myndavélatækni en þær hafa mistekist hrapallega. Í lokaumferðunum á að gera tilraun til þess að senda skákirnar beint með öðrum leiðum.
Hluti hópsins fékk sér góðan göngutúr í kvöld til þess að kynna sér sænska matarmenningu, utan hótelsins. Vakti það mikla lukku meðal liðsmanna enda eru göngutúrar þekktir fyrir að blása skákmönnum byr í brjóst.
Mótinu lýkur á morgun, þegar 5. og 6. umferð fara fram. Hefjast þær kl. 08:00 og 14:00 að íslenskum tíma.
Pörun 5. umferðar:

Mótið á Chess-results
Beinar útsendingar
















