Mikið var um dýrðir og skemmtilegheit á Hotel Natura í dag þegar Heimsmeistaramótið í Fischer-slembiskák hófst. Margir af bestu skákmönnum heims eru mættir til leiks og það vantaði ekki snilldartilþrfin né dramatísku augnablikin!

Keppendum er skipt í tvo riðla, Hjörvar Steinn Grétarsson er í A-riðli ásamt Wesley So, Abdusattorov og Nepomniachtchi á meðan B-riðilinn skipa þeir Magnus Carlsen, Hikaru Nakamura, Vladimir Fedoseev og Matthias Bluebaum. Allir keppa við alla tvöfalda umferð og fóru fyrstu tvö einvígin fram í dag.

Okkar maður, Hjörvar Steinn Grétarsson, fékk ansi erfitt verkefni í fyrstu skákinni þegar hann mætti Wesley So í fyrra einvígi þeirra. Hjörvar fékk strategískt verri stöðu en náði svo að laga hana jafnt og þétt og var kominn með ívið betra ef eitthvað var. Hjörvar sýndi einnig sterkar taugar og góðan útreikning á lykil augnablikum.

27.b3!? var töff leikur sem virðist vera afleikur eftir 27…Re3 með gaffli en 28.He1! hélt málunum í lagi. Ekki má drepa á d5 út af exd5 með skák!

43.g4!? var annar leikur sem þurfti hreðjar til að leika!

Loks sigldi Hjörvar jafnteflinu í hús með því að sjá strax að peðsendataflið væri jafntefli. 98.Dd5+ og málið var afgreitt!

Seinni skákin fór ekki jafn vel. Hjörvar lenti í vandræðum strax í byrjuninni, náði ekki að koma drottningu sinni nægjanlega skilvirkt út og lenti loks í að fallegri fórn sem býður upp á hið sjaldgæfa axlarskúfu-mát. (e. epaulette mate)

Svona hefði skákin endað ef 19…bxa6 og 20.Dc7#

Í hinni viðureigninni kom hinn snaggarlegi Nodirbek Abdusattorov rækilega á óvart og gjörsamlega slátraði Ian Nepomniachtichi. Fyrri skákin var sérstaklega smekkleg. Úzbekinn fórnaði manni til að ráðast að kóngnum sem var fastur á miðborðinu. Nepo réð ekki neitt við neitt.

Í seinni umferð dagsins lagði Nepomniachtchi okkar mann, Hjörvar Stein, að velli með sigri í báðum skákunum. Hjörvar lenti aftur í nokkrum vandræðum í byrjununum og var undir mikilli tímapressu.

Abdusattorov hélt áfram góðu gengi sínu og lagði Wesley So að velli 1,5-0,5.

Í B-riðli eru tveir risar, Magnus Carlsen og Hikaru Nakamura. Þeir unnu báðir í fyrstu umferðinni en það var engan veginn áfallalaust. Í raun var Magnus Carlsen stálheppinn en hann lék skelfilega af sér gegn Fedoseev í seinni skákinni eftir að hafa gjörsamlega straujað hann í fyrri skákinni.

Fyrri skákin var góð:

Magnus fórnaði peðum og var með læti og vann auðveldlega. Í seinni skákinni kom hinsvegar slæmur afleikur sem er ekki algeng sjón hjá besta skákmanni heims.

Eftir 26.g4 sá Carlsen að ekki mátti taka peðið útaf af Re5+ og skiptamunur fellur. Þess í stað lék hann 26…Dg6? sem tapar líka skiptamun eftir 27.Re5+ og hvítur stendur nánast til vinnings.

Carlsen náði með ótrúlegri seiglu að henda nægum moðreyk í Fedoseev og náði einhvern veginn jafntefli.

Nakamura lagði Bluebaum nokkuð auðveldlega og sömu sögu má segja af viðureign Fedoseev gegn Bluebaum í umferðinni á eftir. Allra augu voru á seinni viðureigninni í þessum riðli á milli Carlsen og Nakamura!

Fyrsta skák þeirra varð skemmtileg í FYRSTA LEIK! Efasemdarmenn um skemmtanagildi Fischer-slembiskákar snerust margir hverjir yfir á hinn vagninn eftir þessa skák.

Guðni forseti lék 1.b3 fyrir Nakamura og Carlsen svaraði með 1…g5!? og biskup hans er ofan í á h8!

Þrátt fyrir að slakari skákmenn gætu leikið svona af sér, þá gerði Magnus það ekki.

Ef Hikaru hefði tekið biskupinn 2.Dxh8? hefði hann lent í vandræðum eftir 2…Rf6 3.Dg7 Hg8 4.Dh6 d6!

Stórskemmtileg gildra sem greinilega kom Nakamura í opna skjöldu. Staðan var þó í fínu lagi en Nakamura fékk fljótlega verra. Aftur kom Carlsen með skemmtilegan leik.

8…g3! með hugmyndinni að grafa biskupinn á h1 lifandi. Svartur vill blokkera á g4 og þá er biskupinn algjörlega úr leiknum. Nakamura gaf peðið strax til bara og stóð enn höllum fæti en náði að bjarga jafnteflinu.

Í seinni skákinni var Carlsen búinn að snúa erfiðri byrjun sér í vil þegar hann lék aftur, allt að barnalegum afleik.

31.a6?? leyfði einfaldlega 31…De4+ og Carlsen hefði getað gefið með góðri samvisku! Ótrúlegt að sjá tvo svona slæma afleiki hjá heimsmeistaranum á sama degi! Magnus sagðist hafa víxlað leikjum í samtali við Nakamura eftir skákina. Hann hafði ætlað að leika 31.f3 Rb5 og þá 32.a6.

Mikilvægur sigur hjá Nakamura sem fleytir honum langleiðina í undanúrslitin. Magnus þarf hinsvegar nú að svitna aðeins í seinni part mótsins!

Rannsóknir Nakamura á einvígi þeirra:

Staðan í riðlunum:

Útsending dagsins á RÚV: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/hm-i-fischer-slembiskak/34038/a4jib1

Fjörið heldur áfram á morgun og hefjast fyrstu skákir klukkan 15:00 á Hotel Natura. Áhorfendur velkomnir á keppnisstaða og í skýringarsal þar sem RÚV útsendingin er.

- Auglýsing -