Mánudagskvöldið 24. október fór fram fjölmennt og sterkt skákmót á Barion Mosó.
43 skákmenn mættu til leiks, þar á meðal 6 titilhafar.
Tefldar voru níu umferðir með tímamörkunum 3+2 og gekk mótahald vel fyrir sig undir góðri stjórn Þóris Benediktssonar.
Að loknum níu umferðum voru fjórir efstir og jafnir með 7v af 9 mögulegum.
- Bragi Þorfinnsson
- Arnar Gunnarsson
- Vignir Vatnar Stefánsson
- Örn Leó Jóhannsson
Þá var slegið til úrslitakeppni þar sem tefldar voru Armageddon skákir.
Bragi Þorfinns tefldi gegn Erni Leó og Arnar Gunnars tefldi gegn Vigni Vatnari.
Örn Leó sigraði Braga Þorfinns með svörtu mönnunum og tryggði sér sæti í úrslitum.
Arnar Gunnars var svo með kolunnið tafl gegn Vigni Vatnari en eftir mikinn klukkubarning náði Vignir að halda jafntefli á einhvern ótrúlegan hátt, sem tryggði VVS í úrslitin þar sem svörtum dugði jafntefli.
Í úrslitum mættust því Vignir Vatnar og Örn Leó, þar sem Vignir Vatnar hafði sigurinn.
Arnar Gunnarsson sigraði svo Braga Þorfinnsson í skák upp á þriðja sætið.
Auka verðlaunahafar voru eftirfarandi:
Guðmundur Kristinn Lee U2000 flokkur með 6v.
Halldór Atli Kristjánsson U1600 flokkur með 5v.
Næsta skákmót á vegum Chess After Dark verður vonandi í desember mánuði og verður staðsetning sem og tímasetning þess móts auglýst innan tíðar.
Sérstakar þakkir til Óla Vals eiganda Barion Mosó fyrir að gera þetta mót að veruleika.














