Þriðja umferðin á Skákmót öðlinga (40+) fór fram á kyrrlátu miðvikudagskvöldi í húsakynnum Taflfélagsins í Faxafeni 12. Þorvarður F. Ólafsson og Kristján Örn Elíasson skildu jafnir í toppuppgjöri og þar sem Davíð Kjartansson tók hjásetu eru þeir allir enn efstir með 2,5 vinning að loknum þremur umferðum. Nokkrir þjöppuðu sér nær efstu mönnum með sigri í umferð kvöldsins.

Kristján Örn virðist vera í góðu formi eftir mikla taflmennsku undanfarið og svo virðist sem góðar ráðleggingar pistlahöfunds í þættinum „Við Skákborðið“ hafi hjálpað Kristjáni undanfarið! Kristján gaf ekki á sér höggstað í skákinni gegn Varða og líklegast var jafnteflisboð Varða nokkuð vel tímasett þar sem svartur er kominn með aðeins erfiðari stöðu eftir gerðan leik, 16…Bxe3. Kristján þáði boðið að þessu sinni.

Sigurjón Þór Friðþjófsson og Haraldur Haraldsson fengu fínan séns að ná efstu mönnum, báðir með 1,5 vinning fyrir umferðina og sigurvegari myndi jafna efstu menn. Jafntefli varð niðurstaðan. Sigurjón hafði lengst af betra tafl þar með meira rými og svörtu mennirnir stóðu klunnalega…leiðin var hinsvegar kannski ekki greið í að nýta sér yfirburðina og þráleikur var niðurstaðan rétt fyrri 40. leik en hvítur stóð þá enn betur.

Úrslit kvöldins:

Mikið af sigrum á borðunum strax fyrir neðan. Fjöldi skákmanna er nú hálfum vinningi á eftir efstu mönnum.

Fjórða umferð fer fram næstkomandi miðvikudag.

- Auglýsing -