Þungt hugsi Íslenska sveitin í 2. umferð HM öldungasveita 2024, f.h. Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Jón L. Árnason og Þröstur Þórhallsson. Margeir Pétursson hvíldi í þessari umferð. — Ljósmynd/Heimasíða HM öldunga

Ítalir reyndust íslenska liðiðinu á HM öldungasveita erfiðir í enn eitt skiptið. Ísland varð að sætta sig við tap með minnsta mun 1,5-2,5 og þar með er búið að slökkva á öllum verðlaunavonum liðsins að þessu sinni.

Viðureign dagsins leit svona út:

Þröstur Þórhallsson hvíldi aftur í umferð dagsins en hann hefur glímt við veikindi undanfarna daga en verður vonandi klár í slaginn í lokaumferðinni, þekktur fyrir góðan endasprett!

Jóhann fékk svart gegn David Alberto og lenti í töluverðri lausamöl eins og oft vill verða í modern-byrjuninni. Alberto fékk færi á ótrúlegri leið sem tölvurnar benda á.

13.h6!?! er sérstaklega athyglisverður leikur. 13…Bf8 er svarað með 14.Bc4 d5 og 15.Rc6!! hvítur tekur svo á d5 með peði og leikur d6 og svartur er í köðlunum!

Alberto valdi aðra leið og bauð jafntefli stuttu síðar sem Jóhann þáði.

Margeir fékk upp þrátefli gegn Godena á öðru borði og varð líklegast að taka því annars er hvítur með ívið verra tafl.

Á þriðja borði hafði Helgi Ólafsson svart og þar kom líka upp þrátefli í jafnri stöðu.,

Jón L. Árnason lenti í erfiðri stöðu í miðtaflinu og var u.þ.b. að tapa peði þegar jafnteflin hrönnuðust inn á borðunum fyrir ofan. Jón sat eftir í súpunni og náði ekki að bjarga erfiðri stöðu gegn Carlo D’Amore.

Niðurstaðan tap með minnsta mun…

Úrslitin gera það að verkum að Ísland er dottið í tíunda sætið, enn með 10 stig og engir möguleikar á verðlaunasæti. Toppbaráttan er mögnuð, Kazakar, Bandaríkjamenn og Ítalir hafa allir 13 stig og lokaumferðin verður rosaleg!

Í lokaumferðinni mæta Íslendingar þéttu liði Slóvaka með Ftacnik á efsta borði.

Alls ekki auðveld pörun en strákarnir reyna vafalítið sitt besta til að laga lokastöðuna eins og hægt er.

- Auglýsing -