Boris Spassky, fyrrverandi heimsmeistari í skák og einn af fremstu skákmönnum sögunnar, lést í dag, 88 ára að aldri en Andrey Filatov, forseti rússneska skáksambandsins tilkynnti það í dag og í kjölfarið bárust þær fréttir hratt í gegnum samfélagsmiðla.

Spassky fæddist í Leníngrad, nú Sankti Pétursborg, árið 1937 og sýndi snemma einstaka hæfileika í skák. Hann varð alþjóðlegur meistari aðeins 16 ára gamall og sigraði í heimsmeistaramóti ungmenna árið 1955.

Árið 1969 náði Spassky hápunkti ferils síns þegar hann varð heimsmeistari í skák eftir sigur á Tigran Petrosjan. Þremur árum síðar, 1972, háði hann eitt frægasta einvígi skáksögunnar við bandaríska skákmanninn Bobby Fischer í Laugardalshöllinni, sem hefur verið kallað „einvígi aldarinnar“. Einvígið vakti heimsathygli og var táknrænt fyrir spennuna milli austurs og vesturs á tímum kalda stríðsins. Þrátt fyrir ósigur sýndi Spassky mikla íþróttamennsku og þótti bera af sér mikinn þokka, meðal annars með því að klappa fyrir Fischer eftir tap í sjöttu skák einvígisins.

Eftir einvígið flutti Spassky til Frakklands árið 1976 og varð franskur ríkisborgari tveimur árum síðar. Hann keppti fyrir hönd Frakklands í nokkrum skákmótum og hélt áfram að vera virkur í skákheiminum. Árið 1992 tefldi hann óopinbert einvígi við Fischer í Júgóslavíu, en tapaði því einvígi einnig.

Spassky hafði sérstök tengsl við Ísland vegna einvígisins 1972. Hann heimsótti landið ítrekað og lýsti yfir vilja sínum til að hvíla við hlið Fischers í Laugardælakirkjugarði eftir sinn dag. Þessi ósk endurspeglar djúpa virðingu hans fyrir Fischer og tengsl þeirra sem mótuðust í gegnum skákina.

Þrátt fyrir að hafa verið keppandi á efsta stigi skákarinnar var Spassky þekktur fyrir ljúfmennsku, kímnigáfu og sannan íþróttaanda. Hann var virtur jafnt af keppinautum sem og skákáhugamönnum um allan heim. Andlát hans er mikill missir fyrir skákheiminn, en arfleifð hans mun lifa áfram í gegnum ótal skákir hans og framlag til skáklistar. Anatoly Karpov er nú elsti núlifandi heimsmeistarinn í skák.

- Auglýsing -