Níu íslenskir skákmenn tefldu í dag í Danmörku þar sem fjöldi lokaðra flokka fer fram í Kronborg. Stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson átti fínan dag í GM flokki en alþjóðlegi meistarinn Dagur Ragnarsson tapaði sinni fyrstu skák en hann byrjaði vel í gær.

GM-flokkur

Vignir byrjaði á jafntefli með svörtu gegn þýskum alþjóðlegum meistara Leon Pajeken (2440). Vignir tefldi Philidor-vörn og ætlaði að flækja taflið sem tókst. Vignir fékk ágætis færi en á endanum náði sá þýski að standa af sér spjótin og þráskák niðurstaðan í lokin.

Skák Dags gegn Tor Frederik var sviptingasöm. Dagur fékk í fyrstu ekki nægjanlegar bætur fyrir peð í miðtaflinu en veikingar Norðmannsins á svörtu reitunum gáfu Degi fullt spil. Á endanum hafði Tor betur í endataflinu.

Seinni skák Vignis var alvöru glanspartý þar sem hann lét sænska stórmeistarann Ralf Akeson svo sannarlega finna fyrir því! Vignir fékk tvo „brilliant move“ hjá Chess.com og vann í flottri sóknarskák.

Vignir hafði fórnað h-peðinu en Svíinn þáði ekki peðið. Þess í stað fékk hann 24.Rxh7!! í andlitið og sóknin komin af stað!

Lokahnykkurinn var svo laglegur…

hér kom 46.Hxd5!! og sá sænski lagði niður vopn. Ef 46…exd5 kemur 47.Dc8+ og drottningin á g8 fellur þar sem hvítur á nú peð frá e5 til e6 með skák eftir fórnina.

Seinni skák Dags var baráttuskák sem endaði með jafntefli. Dagur fékk aðeins verra í miðtaflinu en náði að trikka sig í aðeins betra endatafl en jafntefli niðurstaðan að lokum.

Vignir hefur því 2,5 vinning af 4 mögulegum en Dagur hefur 2 vinninga.

Masters 3: (2123-2156)

Adam Omarsson og Lenka Ptacnikova tefla bæði í þessum flokki og áttu eins dag. Þau gerðu jafntefli í fyrri skákinni en töpuðu þeirri seinni.

Masters 4: (2107-2123)

Björn Hólm Birkisson gerði tvo jafntefli í dag og er taplaus.

Masters 7 (2008-2030)

Josef Omarsson vann eina og tapaði einni í dag.

Basic 3 (1796-1819)

Unnar Ingvarsson tekur þátt í Basic 3 flokknum og tapaði einni og vann seinni í dag.

Basic 4 (1750-1796)

Erlingur Jensson vann eina og tapaði annarri í dag.

Basic 5 (1713-1750)

Lárus H. Bjarnason vann báðar skákir sínar í dag og er efstur í flokknum!

Taflmennska í Masters og Basic flokkum heldur áfram á morgun.

- Auglýsing -