Taflfélag Reykjavíkur er enn efst íslensku sveitanna á EM Taflfélaga eftir jafntefli við sterka sveit frá Vilnius í Litháen. Kjarni sveitarinnar hefur löngum teflt með Fjölni á Íslandsmóti Skákfélaga! Fimmta umferðin fór fram í dag á Ródos á Grikklandi og voru TR-ingar í beinni útsendingu ásamt kvennasveit Íslands.
Taflfélag Reykjavíkur
TR mætti sveit frá Litháen með kunnuglega stórmeistara á efstu borðum! Litháarnir voru stigahærri á nánast öllum borðum en á endanum máttu þeir þakka fyrir jafntefli í viðureigninni!

Gauti var fyrstur að missa niður punkt, byrjunin misheppnaðist eins og hann fór yfir á spjallgrúppunni „Íslenskir Skákmenn“ á Fésbókinni. Svona hlutir gerast annað slagið, er eins og er. Adam var traustur á fimmta borði og skák hans var aldrei að lenda í öðru en skiptum hlut!
Hér tók formaðurinn sig til og jafnaði leika. Frumleikinn var mögulega aðeins of mikill í byrjun og hvítur hefði getað refsað ef hann hefði verið tölva. Eftir að báðir hrókuðu á sitt hvorum vængnum hafði ritstjórnin trú á spilinu á drottningarvæng og að hvíti kóngurinn væri veikari. Má segja að það mat hafi verið rétt og á endanum var það hvíti kóngurinn sem lenti í basli. Þriðji sigur Ingvars í röð eftir „dísel-byrjun“!
Hér var staðan orðin 1,5-1,5 og það leit út fyrir að TR væri ekki í taphættu á neinum borðum og væru að tefla til vinnings á öllum þremur efstu borðunum!
Gummi var aldrei í taphættu á efsta borði, tefli öruggt og reyndi að pressa. Laurusas varðist vel á hækjunum sínum (mætti hingað í gifsi!) og komst í burtu í hjólastól! Gummi fékk rjómariddara gegn hræðilegum biskup en gegnumbrotið var ekki til staðar og riddarinn gat ekki unnið tempó gegn biskupnum, jafntefli niðurstaðan.
Nú voru eftir tvær æsispennandi og rafmagnaðar viðureignir. Í raun svo rafmagnaðar að á hápunkti viðureignarinnar fór rafmagnið af í salnum og upp kom kolniðamyrkur. Keppendur sem höfðu sjón eða getu til þess stoppuðu klukkur en aðrir þurftu aðstoð. Rafmagnið kom aftur á en einhver læti komu í kjölfarið frá öðrum borðum og svo fór rafmagnið aftur, þó bara í 5-10 sekúndur í seinna skiptið. Ósagt skal látið hvort þetta hafi haft áhrif, líklegast var Þröstur með unnið tafl þegar þetta gerðist og Aleksandr búinn að missa sína stöðu niður.
Tap Sasha var grátlegt. Hann tefli frábæra skák með svörtu gegn einum sterkasta skákmanni Litháa. Paulius virtist í vanda en fann mótspil með f5 stungunni og það tók að saxast á tímann hjá Sasha. Á ögurstundu og í tímahraki missti Sasha tökin og Paulius náði í heilan vinning í skák þar sem hann virtist vera að berjast fyrir jafntefli í besta falli.
Sem betur fer var Þröstur með fulla stjórn á sinni skák á þessum tímapunkti og endaði viðureignin 3-3 en Litháarnir sluppu svo sannarlega með skrekkinn!
Athyglisvert að keppendur í þessari skák höfðu NÁKVÆMLEGA sömu skákstig!
TR mætir sveit frá Slóvakíu í sjöttu umferð, sömu sveit og Fjölnismenn mættu fyrr á mótinu.
Skákdeild Breiðabliks

Blikar höfðu sigur í erfiðri viðureign við skákklúbb Davit Jojua frá Georgíu. Vignir kominn í einhvern jafnteflisgír en Hilmir virðist hafa fundið sjálfan sig sem er mikið gleðiefni.
Hetjan var svo Arnar Milutin sem tryggði sigurinn í viðureigninni með stórkostlegu jafntefli gegn 1700-stiga efnilegum Rússa sem sótti hart að honum í endataflinu.
Blikar mæta Sharks 4NCL frá Englandi í næstu umferð.
Fjölnir

Fjölnismenn náðu sérí nokkuð þægilegan sigur. Jón Trausti tapaði sinni skák eftir að hafa ruglast á leikjaröð í byrjun, við mikla skemmtun áhorfenda sem fjölmenntu að borði hans. Það hjálpaði Dönunum lítið þó Skytte-fjölskyldan hafi náð punkti þarna, hinn eldheiti Björn Þorfinnsson refsaði fjölskylduföðurnum, Rasmusi, eins og hann hafði dreymt um að gera í áraraðir. 4-2 sigur hjá Fjölni.
Fjölnismenn mæta heimamönnum í Ippotis Rhodes í næstu umferð.
Sf. Akureyrar

Akureyringar hvíldu Jóhann gegn Simoni og félögum í Íslandsvinasveit Cheddleton. Jóhann tók reyndar þátt í útsendingu ECU en það var aðeins Áskell sem náði í punkt fyrir Norðanmenn.
Akureyringar fá Georgíumennina í Davit Jojua’s ChessClub sem Breiðablik rétt mörðu í umferð dagsins.
Dímon

Dímon voru seinheppnir gegn írskri sveit í dag, lokatölur 1,5-4,5 gáfu ekki rétt mynd af gangi mála, bæði Magnús Pálmi og Ólafur stóðu líklega til vinnings en þetta var ekki dagur Dímon-manna.
Dímon fá spænska sveit, Diagonal Alcorcon á morgun.
Ísland í kvennaflokki

Stelpurnar mættu sterkri franskri sveit og niðurstaðan 0-4 tap. Hallgerður hvíldi en Tinna átti líklega bestu möguleikana gegn margreyndi franskri landsliðskonu, Daulyet-Cornette. Sú franska fórnaði skiptamun sem var líklegast óþarfi og hvíta staðan í kjölfarið yfirleitt betri en vantaði þolinmæi á ögurstundu, 47.Hxc4?? algjör óþarfi mótspilið var til staðar eftir 47.Hc3 og hrókurinn fær peð á kóngsvæng!
Á morgun mætir kvennaliðið Ippotes Rhodes heimakonur.
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results (opinn flokkur)
- Chess-Results (kvennaflokkur)
- Beinar útsendingar (opinn flokkur)
- Beinar útsendingar (kvennaflokkur)
- ECU-TV (beinar útsendingar)
Mótið fer fram í opnum flokki (102 sveitir) og kvennaflokki (20 sveitir) og stendur yfir í sjö umferðir frá 19. til 25. október.
Alls eru sex íslensk lið skráð til leiks af 122. Í opnum flokknum eru það:
- Taflfélag Reykjavíkur (nr. 38)
- Skákdeild Breiðabliks (nr. 43)
- Skákdeild Fjölnis (nr. 46)
- Skákfélag Akureyrar (nr. 58)
- Dímon (nr. 99)
Í kvennaflokki er kvennalið sem teflir undir nafni Íslands
- Ísland (15)
Alls tefla 38 skákmenn fyrir Íslands hönd á Ródos og flestir sterkustu skákmenn þjóðarinnar. Aðeins fjórar þjóðir eru fjölmennari en Ísland sem er magnað en það eru: England, Þýskaland, Holland og Grikkland.















