Þriðja keppnisdegi á EM ungmenna í skák, í Budva í Svartfjallalandi, lauk nú í dag.  Íslensku keppendurnir fengu 5 vinninga af 15 mögulegum í dag, minna en í gær en andstæðingarnir heilt yfir mun sterkari.

Pétur Úlfar, Róbert og Mikael unnu allir í dag. Jafntefli gerðu þau Iðunn, Markús Orri Óskars, Ingvar Wu og Haukur gerðu öll jafntefli í sínum skákum.

Róbert Heiðar vann sína fyrstu skák á erlendum vettvangi í dag – Mynd: mótshaldarar
Úrslit 3. umferðar

Sigur Péturs var ansi naskur. Pétur tefldi gegn lokaðri sikileyjarvörn og sýndi góða þolinmæði og hélt spennunni lengi í stöðunni þar til taktískar aðgerðir fóru að flæða. 37…Be4! stjörnuleikurinn að þessu sinni!

Pétur ánægður með 37…Be4!

Heilladísirnar voru ekki alveg á okkar bandi í umferð dagsins. Guðrún fékk upp sinn undirbúning en ruglaðist á línum í miðtaflinu og fékk verra tafl í stað þess að pína sinn andstæðing. Iðunn hefði átt að vinna sína skák og Birkir var lengst af með fína stöðu en fór kannski ekki nógu vel með tímann hjá sér. Haukur missti af vænlegri leið í sinni skák og Josef var langt kominn með að bjarga sinni skák eftir erfiða fæðingu.

Fleira mætti týna til en Mikael Bjarki náði þó skemmtilegan vinning í lengstu skák umferðarinnar, 119 leikir og andstæðingurinn var einum leik frá því að geta krafist jafntefli út frá 50 leikja reglunni þegar hann leikur af sér, 50. leikurinn í raun mát. Alvöru seigla þarna!

Pörun 4. umferðar

Enginn íslenskur keppandi verður í beinni útsendingu á morgun en á móti má gera kröfu um að hópurinn landi fleiri vinningum en í dag! Iðunn og Ingvar Wu fá grjótharða andstæðinga á morgun!

Skák.is flytur ykkur fréttir af gangi mála í næstu umferðum. Sýnt er beint frá efstu borðum allra aldursflokka og hefjast útsendingar alla daga kl. 13:15 að íslenskum tíma, utan síðustu umferðar sem hefst kl. 12:15.

Hópurinn á leið á skákstað í umferð dagsins, sólin skein skírt og mikill hiti var í skáksalnum í dag!
Gamli maðurinn og hafið. Þessi hefur setið að veiðum alla daga og mætt vel klyfjaður af nesti fyrir veiðar dagsins. Orðið á götunni segir að hann hafi mælt með mannsfórn á e4 gegn Prins-varíantinum sem gekk að mörgu leiti upp en skilaði þó ekki vinning í hús að þessu sinni.
Stúderingar að loknum skákum, skylda hér!

Chess-results
Beinar útsendingar
Heimasíða mótsins

Mótið stendur yfir frá 29. okt til 7. nóv.

Ísland á 15 fulltrúa á mótinu. Þeir eru:
U8 Róbert Heiðar Skúlason
U10 Pétur Úlfar Ernisson
U10 Nökkvi Már Valsson
U12 Haukur Víðis Leósson
U12 Birkir Hallmundarson
U14 Jósef Omarsson
U16 Markús Orri Óskarsson
U16 Markús Orri Jóhannsson
U16 Mikael Bjarki Heiðarsson
U16 Theódór Helgi Eiríksson
U16-stúlknaflokkur Guðrún Fanney Briem
U18 Ingvar Wu Skarphéðinsson
U18 Adam Omarsson
U18 Gunnar Erik Guðmundsson
U18-stúlknaflokkur Iðunn Helgadóttir

Þjálfarar hópsins eru Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson

- Auglýsing -