Áttundu og næstsíðustu umferð Evrópumóts ungmenna í skák í Budva í Svartfjallalandi lauk í dag.
Jósef, Iðunn, Theódór og Ingvar Wu unnu sínar skákir. Adam gerði jafntefli en aðrir töpuðu.

Skák Iðunnar gegn WFM Reka Kovacs (2100) var ákaflega vel heppnuð. Fyrir skákina var leitað í vopnabúr Jóns Viktors Gunnarssonar sem hefur búið til ákaflega vönduð myndbönd um byrjanir. Góður undirbúningur hitti í mark og sú ungverska varð að leggja niður vopn eftir einungis 20 leiki.
Kovacs teflir byrjunina ónákvæmt og er komin með verra tafl eftir 6-7 leiki. Hún kórónar svo mistökin með 15. … Kf7?? og tapar miklu liði. Þægilegur sigur hjá Iðunni og Jón Viktor fékk góðar kveðjur að skák lokinni.
Áhugasamir ættu að skoða myndbönd Jóns Viktors hér en þau eru aðgengileg öllum að kostnaðarlausu. Einnig er ástæða til þess að benda á vandaðar byrjanabækur Jóns Viktors.

Ingvar Wu fékk líka upp undirbúning sinn gegn Norðmanninum Peder Marcus Aamodt (2219). Norðmaðurinn þurfti að eyða talsverðum tíma í byrjunina og Ingvar fékk gott tímaforskot. Ingvar vann peð og hélt því fram í endataflið. Upp kom staða þar sem báðir höfðu drottningar en umframpeð Ingvars taldi og ekki síst gott tímaforskot. Norðmanninum varð á í messunni undir tímapressu og Ingvar sigldi sigrinum heim.

Jósef yfirspilaði andstæðing sinn, Yavryan (1941), frá Armeníu. Sá armenski tefldi Benkö-bragð og Jósef þáði peðið með þökkum. Smátt og smátt fjaraði mótspil þess armenska út og með mikilli þolinmæði bætti Jósef stöðu sína jafnt og þétt. Þegar umframpeð Jósefs var við það að hækka í tign og verða að nýrri drottningu gafst sá armenski upp.

Sigurskák Theódórs Helga gegn heimamanninum Relja Petric (1542) var mjög sannfærandi. Petric lék nokkrum ónákvæmum leikjum í byrjuninni sem Theódór nýtti sér skemmtilega.
Hér lék Theódór 12. Bh4 og svartur gætti ekki að sér og lék 12. …Be7 og tapaði liði eftir 10.Bxf6 Bxf6? 11.Rxd5! Theódór vann auðveldlega í framhaldinu.



Íslenski hópurinn lauk deginum með hinni klassísku Botvinnik-göngu þar sem rölt var um strandlengju Budva. Þar voru málin rædd fyrir lokaumferðina sem fram fer á morgun.

Lokaumferð mótsins hefst klukkustund fyrr en venjulega, eða kl. 12:00 að íslenskum tíma á morgun, föstudag.

Chess-results
Beinar útsendingar
Heimasíða mótsins
Mótið stendur yfir frá 29. okt til 7. nóv.
Ísland á 15 fulltrúa á mótinu. Þeir eru:
U8 Róbert Heiðar Skúlason
U10 Pétur Úlfar Ernisson
U10 Nökkvi Már Valsson
U12 Haukur Víðis Leósson
U12 Birkir Hallmundarson
U14 Jósef Omarsson
U16 Markús Orri Óskarsson
U16 Markús Orri Jóhannsson
U16 Mikael Bjarki Heiðarsson
U16 Theódór Helgi Eiríksson
U16-stúlknaflokkur Guðrún Fanney Briem
U18 Ingvar Wu Skarphéðinsson
U18 Adam Omarsson
U18 Gunnar Erik Guðmundsson
U18-stúlknaflokkur Iðunn Helgadóttir
Þjálfarar hópsins eru Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson


















