Nokkuð var um óvænt úrslit í bráðabönum 2. umferðar sem lauk í dag á Heimsbikarmótinu í Goa. Í kappskákhlutanum í gær þurftu þeir Wesley So og Ian Nepomniachtchi að taka pokann sinn og í dag bættust nokkrir sterkir skákmenn í hópinn.
Hans Niemann var einn af sterkustu skákmönnunum sem féllu út í dag. Niemann tapaði gegn Ítalanum Lodici og mun vafalítið naga handarbökin yfir endataflsmistökunum sem hann gerði í fyrri atskákinni (15+10 tímamörk)
Niemann lék 72…Hg1?? sem er tapleikur 73.f6 Hf1 74.Be3 valdar g1-reitinn og svörtum vantar skákir á g-línunni og hvítur vann skömmu síðar. 72…Hg2 og 72…Hg3 hefðu dugað til að halda jöfnu.

Rameshababu Praggnanandhaa var mjög hætt komin í einvígi sínu við Ástralann Kuybokarov. Ástralinn vann fyrri 10+5 atskákina í stöðunni 2-2 og Pragg varð að vinna með svörtu til að jafna metin sem honum tókst og vann svo 5+3 hraðskákir 2-0 og einvígið 5-3 og komst áfram.
Hinn reyndi Yu Yangyi komst áfram gegn YouTube-aranum Felix Blohberger í spennandi einvígi. Blohberger hefur lýst öllum sínum skákum hingað til en ekki er enn komið vídeó frá viðureign dagsins en kemur væntanlega snemma á morgun!
Vidit hafði hinn unga Faustino Oro undir 2.5-1.5 og væntanlega frelsinu feginn að losna við tap gegn þessu 12 ára undrabarni!
Grikkinn Kourkoulos-Arditis hafði óvænt sigur á Nihal Sarin 2.5-1.5 í bráðabönunum.
Lengsta einvígið var einvígi Rasmus Svane og Rauf Mamedov en þeir tefldu alla leið, 2 kappskákir (í gær), 15+10 atskák, 10+10 atskák, 5+3 hraðskák, 3+2 hraðskák og svo „sudden death“. Svane hafði betur í lokaskákinni.
Annað langt einvígi var hjá reynsluboltunum Michael Adams og Ivan Cheparinov þar sem Adams hafði betur 6-4 að lokum.
Fjörið heldur áfram á morgun þegar kappskákin hefst í 3. umferð. Margar athyglisverðar viðureignir, meðal þeirra sem mætast eru t.d. Íslandsvinurinn Nils Grandelius sem fær Azerann brosmilda Shakhriyar Mamedyarov og eins má benda á Tyrkjann unga Erdogmus sem mætir Richard Rapport
Útsending dagsins:


















