Þeir félagar Benedikt Briem og stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson voru vafalítið svekktir eftir 8. umferð á Lagos Open í Portúgal. Hvorugur þeirra vann sína skák en báðir stóðu þeir mjög vel og hefðu hæglega báðir getað náð sér í sigur. Vignir þarf hagstæð úrslit í lokaumferðinni til að vinna mótið en Indverjinn Harikrishnan er líklegastur eftir úrslit dagsins.
Vignir hafði hvítt gegn Harikrishnana, tveir stigahæstu menn mótsins og voru þeir jafnir að vinningum fyrir lokaumferðina. Sigur hjá öðrum hvorum hefði þýtt sigur á mótinu nokkuð pottþétt. Vignir hafið betra lengst af með hvítu og reyndi að pressa eins og hann gat. Í lokin gat Vignir náð upp rosalegri klemmu á svart:
Hvíta staðan er augljóslega betri og tölvuforritin spýta út plús á hvítt á milli 2 og 3. Svörtu mennirnir eru nánast patt, svartur getur eiginlega bara hreyft annan hrókinn, hinir eru bundir niður. Hinsvegar virðist ekki hlaupið að því að bæta hvítu stöðuna en mögulega myndu dýpri rannsóknir finna vinningsleið á hvítt.
Vörnin var auðveldari eins og skákin tefldist og Vignir komst ekki í gegn og jafntefli niðurstaðan.
Benedikt hafði svart gegn Manuel Bosboom sem tefldi ekki alveg jafn villt og í gær! Benedikt var klár í uppstillingu Hollendingsins og fékk aðeins betra tafl og betri tíma. Í miðtaflinu vantaði að sýna aðeins meiri þolinmæði með svörtu og ekki þvinga hlutina. Benedikt fór í aðgerðir og allt í einu fóru tilgerðarlegir leikir eins og Db1 hjá hvítum að virka í stöðunni þar sem drottningarvængurinn hafði opnast of mikið.
Tap sem fer í reynslubankann hjá Benedikt sem getur að mörgu leyti verið ánægður með sitt mót, bullandi sénsar á að gera allskonar og í einhverjum sviðsmyndum var Benedikt hreinlega að fara að vinna þetta mót!
Eins og staðan er núna er Vignir efstur ásamt tveimur öðrum. Vignir mætir Pólverjanum Tomaszewski í lokaumferðinni og hefur svart. Vignir þarf að treysta á Þjóðverjann Nils Decker að halda með hvítu gegn Harirkrisnan því oddastig Vignis verða væntanlega ekki nægjanlega góð verði þeir jafnir. Benedikt fær andstæðing undir 2000 elóstigum og fínt færi á að klára mótið vel.
Vert er að minna á skráningu á mót þeirra félaga á Le Kock sem fram fer í næstu viku hvar Simon Williams mætir til leiks!
Lagos Open er 9 umferða mót með einum tvöföldum degi en að öðru leiti er ein skák á dag. Vignir er næststigahæstur á mótinu á eftir indverskum alþjóðlegum meistara og Benedikt er sjöundi í stigaröðinni. Alls eru 74 keppendur á mótinu.
















