Stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson endaði í 2. sæti á alþjóðlega Lagos Open mótinu í Portúgal. Vignir vann í lokaumferðinni en Indverjinn Harikrishnan náði líka að vinna sína skák og hafði betur á oddastigum og var það stórt strik í reikninginn í þeim útreikningum að Vignir fékk 0 vinninga fyrir yfirsetu í 3. umferð vegna Íslandsmótsins í Netskák. Benedikt Briem vann líka í lokaumferðinni og getur vel við unað í 5. sæti og átti gott mót.

Vignir leyfði aðeins eitt jafntefli allt mótið, gegn Harikrishnan og steig Vignir ekkert af bensíngjöfinni í lokaumferðinni. Vignir fékk erfiðari pörun á pappír og fékk svart gegn FIDE-meistara frá Póllandi en lagði hann að velli í fínni skák. Vignir náði fljótt undirtökum með svörtu og vann svo peð en þurfti töluvert af tækni í drottningarendataflitil að klára dæmið.

Benedikt gjörsamlega slátraði sínum andstæðingi algjört „domination“ og fékk Benedikt nánast jafngóða stöðu og hægt er að fá snemma í drottningarlausu miðtafli án þess að vera liði yfir.

Lokastaðan:

Svekkjandi lokaniðurstaða, Vignir tapar á stigum. Benedikt endaði í 5. sæti á oddastigum og má vel við una. Báðir græddu þeir stig á mótinu, Vignir 9 og Benedikt 27 stig.

Vert er að minna á skráningu á mót þeirra félaga á Le Kock sem fram fer næstkomandi miðvikudag hvar Simon Williams mætir til leiks!

Lagos Open var 9 umferða mót þar sem Vignir var næststigahæstur á mótinu á eftir indverskum alþjóðlegum meistara og Benedikt var sjöundi í stigaröðinni. Alls voru 74 keppendur á mótinu.

- Auglýsing -