Öðrum keppnisdegi af þremur á Heimsmeistaramótinu í atskák lauk í dag í Doha í Katar. Vignir Vatnar Stefánsson (2463) var í eldlínunni á erfiðum degi en hann tefldi nánast við Kazaka í hverri einustu skák og reyndust þeir honum erfiðir. Magnus Carlsen missti aðeins flugið og forystuna þegar hann tapaði gegn Artemiev. Rússinn er efstur ásamt Hans Niemann en Carlsen er í seilingarfjarlægð, hálfum vinningi á eftir þeim.
Við minnum á skemmtilegt efni Vignis Vatnars á Instagram síðu hans, hér má t.d. sjá hvað beið hans eftir 8 tíma af taflmennsku í gær!
View this post on Instagram
Rennum yfir gang mála á öðrum keppnisdegi!
6. umferð

Vignir mætti 12 ára andstæðingi frá Sýrlandi í 6. umferðinni. Hersveitin af efnilegum börnum er ekkert að stoppa og skáklandslagið er orðið nokkuð breytt í heiminum í dag. Vignir ætlaði greinilega að tefla upp á tvö úrslit með hvítu og tefldi uppskiptaafbrigðið í slavneskri vörn. Vignir fékk lítið og átti erfitt með að komast áleiðis gegn góðri taflmennsku Sýrlendingsins unga.
Skákin varð löng og ströng og Vignir reyndi allt hvað hann gat í endataflinu. Vignir náði að vinna skiptamun en sterkir riddarar svarts voru stórhættulegir og Vignir komst ekki í gegn. Jafntefli niðurstaðan.
Efstur fyrir umferðina var Magnus Carlsen ásamt Erigaisi, MVL og Artemiev. Magnus gerði jafntefli við MVL þar sem hann slapp með skrekkinn, Fransmaðurinn pressaði mestalla skákina.
Carslen fékk fyndið þrípeð tímabundið á d-línunni en hér lék hann eiginlega fráleitum leik fyrir hans getustig, 22…a5? og MVL svaraði 23.Bxa5 og vandræði Carlsen hófust.
MVL missti af stórkostlegri vinningsleið í eftirfarandi stöðu:
Hér lék Frakkinn 29.Hxe7 sem hélt betra tafli en peð yfir í hróksendatafli dugði ekki gegn Carlsen. Í stöðunni lá hinn skemmtilegi taktíski leikur 29.Rh5!! ef tekið þá er svarta staðan töpuð eftir 29…gxh5 30.Hxe7 Bxe7 og 31.Dxh5 þar sem berskjaldaður kóngur svarts á engar varnir þar sem menn svarts standa einstaklega illa á drottningarvængnum.
Leiki svartur 29…Bh4 er vinningsleiðin glæsileg, 30.Hxe7 Bxe7 31.Bg5!! Bxg5 32.Dg4!
Veikt borð kostar svartan lið í stöðunni. Þetta minnti mig á fræga skák Adams gegn Torre, eitt frægasta „backrank-kombó“ skáksögunnar!
18.Dg4!!
Þannig að já, það má segja að Magnus hafi sloppið með skrekkinn í þessari skák!
Artemiev vann sína skák og tók hálfs vinnings forskot.
7. umferð

Vignir mætti Kazaka, ekki fyrsta Kazaka mótsins og ekki síðasta Kazaka dagsins! Þessi var FIDE meistari og annað 12 ára barn….já já bara gaman að þessu!
Vignir hefur haldið tryggð við frönsku vörnina á mótinu og hélt því áfram hér. Vignir beitti 3…h6, nýmóðins leikur en með svipaðar hugmyndir og aðrir biðleikir svarts í stöðunni. Nýlegt Chessable námskeið sem tekur þessa línu fyrir sem Vignir var búinn að undirbúa fyrir mótið.
Vignir yfirspilaði andstæðing sinn á drottningarvæng og var kominn hálfa leið í höfn þegar hann hleypti andstæðingi sínum aftur inn í skákina.
Hér hefði 36…dxc4! gefið svörtum yfirburðatafl, eða öllu heldur haldið yfirburðatafli. 36…Hxc4? gaf hvítum leiðinlegt taktískt færi sem krakkinn missti ekki af 37.Bxa7! og hvítur er „back in the game“! Drottningarskákin á a5 gerir það að verkum að ekki má taka biskupinn. Þessi skák hefði ekki verið möguleg eftir 36…dxc4!
Okkar maður var þó ekki lengi að snúa taflinu sér í vil og taktíska skotið í lokin gott eins og Vignir fer yfir í myndbandi á Instagram sem er hægt að sjá fyrir neðan skákina.
Góður sigur og smá skriður kominn, 3,5 vinningur eftir 7 umferðir.
Vignir eftir umferðina:
View this post on Instagram
Vendingar urðu á toppnum, Artemiev lagði Carlsen að velli og náði þarmeð 1,5 vinnings forskoti á Carlsen! Aftur gerði Carlsen sig sekan um afleik sem sæmir ekki hans getustigi, allt annar Carlsen að mæta til leiks á öðrum keppnisdegi en á þeim fyrsta þar sem hann steig vart feilspor.
15…Dc7?? er skelfilegur leikur og eftir 16.exf7+ Hxf7 17.Bd5 er hvítur að vinna lið.
Artemiev var með einhvern flottræfilshátt í úrvinnslunni. Lék nettum leik svosem 26.Hdd8!? og skilur drottninguna eftir oní (26…Hxg6? 27.Hxf8+ og mát á h8)).
Artemiev átti auðveldari leiðir fyrr í skákinni og hér er 26…Bc6 bara orðið flókið tafl og vinningurinn alls ekkert öruggur. Hér sýndi Carlsen í þriðja skiptið í dag að hausinn var bara ekki rétt skrúfaður á hann. Maðurinn lék 26…Bxg2+?? og virðist hafa gleymt að menn mega bakka og 27.Dxg2 er búið spil.
Magnus var ekki sáttur eftir umferðina og lét myndatökumann finna fyrir því
Magnus Carlsen lost & pushed the Camera!
– Controversy is never leaving World No.1 👀 pic.twitter.com/Xzw8yNU1qs
— The Khel India (@TheKhelIndia) December 27, 2025
8. umferð
Andstæðingur Vignis í umferðinni einn sterkasti stórmeistari …þú áttir kollgátuna….Kazakhstan til margra ára, Rinat Jumabayev. Vignir hafði hvítt en lenti snemma miðtafls í ansi erfiðri vörn. Vignir barðist og barðist og náði að halda sínum hlut og virtist vera að ná að landa jafnteflinu en í stöðunni leyndist ógeðslegur „svíðingur“ eins og langir endataflssigrar eru stundum kallaðir.
75…Rg4! lá í stöðunni og er það lykilleikur í að brjótast í gegn. Fari kóngurinn kemst svarti kóngurinn inn og ef tekið er á g4 fær svartur unnið peðsendatafl. Svekkjandi tap þar sem löng barátta í vörninni hefði eiginlega átt jafnteflið skilið!
Magnús náði að leggja Sargsyan að velli, ekki sannfærandi var búinn að missa niður vænlegt tafl þegar Armeninn smellti í eina Magnúsar-molnun og færði Norðmanninum vinninginn á silfurfati.
Artemiev og MVL skildu jafnir og Niemann minnti á sig með góðum sigri á Le Quang Liem.
9. umferð
Vignir mættir 17 ára IM frá Kazakhstan og hafði svart. Kazakinn sýndi tækni á fullu pari við stórmeistarastyrkleika og juðaðist á stöku peði Vignis í endataflinu. Vignir náði ekki að stilla peðunum nægjanlega vel upp á svörtum reitum eins og Capablanca gerði forðum gegn Flohr í klassískri skák. Einhversstaðar hlýtur svartur að þurfa að leika …a5 sjálfur en hvítur náði að „pinna niður“ svörtu peðin á hvítum reitum á drottningarvæng og í lokin var það í raun náðarhöggið þegar hvítreitabiskup hvíts ræðst á þessi peð.
Erfiður dagur að baki og Vignir með 3,5 vinning eftir þessar 9 skákir. Nú er bara að njóta á lokadeginum og koma sterkur inn í hraðskákina en Skak.is hefur mikla trú á Vigni þar enda skartar hann 2600 hraðskákstigum og er grjótharður á klukkunni.
Toppbaráttan jafnaðist töluvert, Artemiev gerði aftur jafntefli, nú við „fyrrum“ samlanda sinn Sarana. Þetta nýtti Niemann sér og jafnaði Artemiev á toppnum, þeir hafa 7,5 vinning af 9 mögulegum. Fjórir koma svo með 7 vinninga, þar á meðal Magnus Carlsen auk Sarana, Tyrkjans unga Erdogmus og Abdusattorov sem er búinn að jafna sig á erfiðri byrjun á mótinu.
Zhu Jiner hefur 6,5 vinning af 8 ássamt Koneru Humpy og svo er þéttur pakki með 6 vinninga í kvennaflokki en tefldar eru 11 umferðir í kvennaflokki.
Fléttað á öðrum keppnisdegi
Bandaríski stórmeistarinn Andrew Hong vill væntanlega gleyma 20.a3?? sem allra fyrst!
Abdusattorov svaraði 20…c4! þar sem 21.Dxb4 Ba5 skilur drottninguna eftir án reita.
Atskákin klárast á morgun þegar fjórar umferðir verða tefldar í opna flokknum og þrjá í kvennaflokki. Vignir kemur sér vonandi í góðan gír fyrir hraðskákina sem hefst svo á mánudaginn.
- Instagram Vignis | Mikið af behind the scenes vídeóum og efni! Vinsamlegast kasta á LIKE og FOLLOW á Vigni á Instagram!!
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results | kvennaflokkur
- Beinar lýsingar
- Beinar útsendingar | kvennaflokkur















