Heimsmeistaramótinu í atskák lauk í dag í Doha í Katar. Vignir Vatnar Stefánsson (2463) átti erfitt uppdráttar í atskákinni og náði sér engan veginn á strik, hann bíður vafalítið spenntur eftir hraðskákinni sem hefst á morgun. Magnus Carlsen sýndi enn einu sinni að hann er líklegast besti skákmaður allra tíma en hann náði sér í sinn sjötta heimsmeistaratitil í atskák, magnað afrek í ljósi þess hversu mjótt er á mununum í þessum mótum.
Við minnum á skemmtilegt efni Vignis Vatnars á Instagram síðu hans sem fyrr. En rennum yfir gengið á þessum síðasta keppnidegi.
10. umferð

Vignir mætti víetnömskum Japana í umferðinni og hafði hvítt. Taflið úr byrjuninni var fínt en í miðtaflinu missti Vignir aðeins þráðinn og svartur fékk betra. Greinilegt var að Vignir var ekki alveg með sjálfum sér því hann missir tvisvar af tækifæri á að taka á g6 með biskup, í 26. leik og aftur í 29. leik. Þar skildi líklegast á milli jafnteflis og taps.
Greinilegt var strax í þessari umferð að allt annar Magnus Carlsen mætti til leiks á síðasta keppnisdegi en í gær. Kannski þurfti Mangi að skipta á of mörgum bleyjum en eitthvað var að angra hann, skrýtnir afleikir og hrindingar á myndatökumenn.
Í fyrstu skák dagsins var ljóst að MC var mættur og hann gjörsamlega straujaði Alexey Sarana og steig engin feilspor!
Artemiev og Niemann skildu jafnir og þessir þrír því efstir eftir tíu umferðir.
11. umferð

Hausinn var greinilega ekki rétt skrúfaður á okkar manni, þrjár tapskákir í röð komnar og svo fjórða kom í þessari umferð. Vignir gerði sig sekan um nokkuð þekkt mistök í byrjuninni og lenti bara á valtara. Tap í 20 leikjum gegn armenskum stórmeistara.
Vignir því enn með 3,5 vinning eftir 11 umferðir.
Á toppnum var komið að því, Luke Skywalker gegn Svarthöfða…menn velja svo í lið eftir því með hverjum þeir halda! Magnus Carlsen hafði hvítt gegn Hans Niemann. Það þarf ekki að fjölyrða um hvað hefur rígur er á milli þessara skákmanna.
Magnus Carlsen setti í gírinn aftur og hafði hvítt og fór af öryggi úr miðtafli í hróksendatafl peði yfir og við vitum að hann er „bestur í spilinu“ í endataflinu og gerði engin mistök þar.
Magnus orðinn einn efstur þar sem Artemiev gerði jafntefli. Það hefur oft loðað við Artemiev að komast í þessa toppbaráttu snemma og svo nánast „pulsa sig út“ bara gera hvert jafnteflið á fætur öðru. Það fyndna er að hann vann eiginlega Carlsen við það að reyna að þvinga jafntefli með hvítu…nema Carlsen hafnaði því með afleik sem tapaði skákinni.
12. umferð

Vignir rétti aðeins úr kútnum og forðaðist að missa allt sjálfstraut með því að ná sér í sigur í 12. umferð. Andstæðingurinn var CM frá Thailandi og bauð hann Vigni upp á létt „puzzle rush“
17.Dxh7! er kannski ekkert úr efstu hillu en samt smekkleg taktík.
Magnús náði að styrkja stöðu sína á toppnum. Hann mætti Tyrkjanum bráðefnilega, Erdogmus. Sá hefur slegið met yfir stigahæsta, 12 ára, 13 ára og 14 ára skákmann sögunnar og er líklegur á efstu stig skákarinnar á næstu árum. Í dag var skrefið og stórt, en það styttist!
Magnus kominn með vinningsforskot á mótinu eftir að hafa unnið fyrstu þrjár skákir dagsins.
13. umferð
Vignir var greinilega kominn með hugann við hraðskákina og vildi bara klára, gerði sig aftur sekan um kjánaleg mistök í byrjuninni með 11…0-0? og taflið erfitt eftir 12.Rg6! Vignir náði ekki að vinna sig inn í skákina og tap niðurstaðan, þriðja tapið í dag.
Erfið frumraun í atskákinni, 4,5 vinningur af 13 og um 40 atskákstig verða eftir í hitanum í Katar. Vignir er vafalítið feginn að vera búinn að klára þetta og nú er það bara hraðskákin, þar er okkar maður sterkur!
Magnus þurfti nú aðeins jafntefli með hvítu og skemmst frá því að segja að hann náði því nokkuð auðveldlega gegn Giri. 10,5 vinningur góð niðurstaða hjá Carlsen, hann var framúrskarandi á fyrsta og þriðja keppnisdegi en eitthvað hikst kom hjá honum í gær en það kom ekki að sök.
Artemiev, Erigaisi, Niemann og Dominguez komu næstir með 9,5 vinning, í þessari röð út frá oddastigum. Niemann rétti missti því af að deila pallinum með besta vini sínum!
Zhu Jiner fékk 8,5 vinning af 11 ásamt Koneru Humpy og Goryachkinu í kvennaflokki. Eftir aukakepni var það Goryachkina sem stóð uppi sem sigurvegari.
Á morgun hefst Heimsmeistaramótið í hraðskák og stendur yfir í tvo daga. Vignir er spenntur að hefja leik þar og Skak.is getur lofað betri árangri þar, verður gaman að fylgjast með!
- Instagram Vignis | Mikið af behind the scenes vídeóum og efni! Vinsamlegast kasta á LIKE og FOLLOW á Vigni á Instagram!!
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results | kvennaflokkur
- Beinar lýsingar
- Beinar útsendingar | kvennaflokkur

















