Fimm skákmenn eru nú efstir og jafnir á spennandi Skákþingi Reykjavíkur en fjórða umferð fór fram í gær, sunnudag. Ljóst er að hart verðu barist og margir um hituna!
Á efsta borði var Jóhann Ingvason með fullt hús og mætti Hrafni Loftssyni. Skákin virtist stefna í jafntefli þegar skiptist upp á liði og kannski báðir sáttir við það á endanum. Vandinn fyrir Hrafn var að lokaleikur Jóhanns, 29.Ke3-d3?? var tapleikur!
Hrafn tók jafnteflisboðinu en 29…Kb5 er unnið á svart. Hvítur hefði þurft að leika 29.a3 eða 29.b3 til að setja upp peðavegg og valda fjórðu reitaröðina. Svarti kóngurinn kemst nú á a4 eða b4, svo ýtir hann peðunum fram og að auki á svartur inni leikinn …h5 sem tryggir mögulegan tempóvinning með peðum á kóngsvæng ef þurfa þykir.
Svekkjandi eftir á fyrir svartan en kannski sanngjörn úrslit eins og skákin þróaðist.
Fjölmargir skákmenn nýttu sér færið til að jafna Jóhann á toppnum. Stigahæsti maður mótsins, Dagur Ragnarsson, varð einn þeirra. Hann náði að nýta sér reynsluna til að leggja Ingvar Wu að velli en í raun var engin innistæða fyrir sigrinum…skákin í algjöru jafnvægi og Ingvar hefði átt að halda skiptum hlut.

Jóhann Ragnarsson blandaði sér óvænt í baráttuna með seiglusigri gegn Bárði. Bárður getur hinsvegar nagað sig í handarbökin, stjórnaði eigin örlögum algjörlega.
Hér hefði gott taktískt auga séð 32.f5! hugmyndin er línurof og línuopnun. Dc4+ er lykilleikur og auk þess maður ofan í á g3, hvítur hreinlega vinnur.
38.g4?? er svo tapleikur í stöðu sem er í dýnamísku jafnvægi.
Halldór Grétar slóst í hópinn með sigri gegn Kristjáni Erni í skák þar sem báðir höfðu pottþétt gaman af þessu!
Arnar Milutin Heiðarsson náði einnig toppmönnum en hafði heppnina með sér í lokin gegn Hauki. Arnar hafði verið að pressa betri stöðu en gerði sig sekan um hálfgerð Fischer-mistök þegar hann lék hér….
42…Bg1?? og Haukur hefði getað lokað biskupinn inni með 43.f4 en missti af þeim sénsi, tvisvar og því fór sem fór.

Birkir tefldi aggressíft gegn Magnúsi Pálma og fórnaði fyrir sókn. Sóknin hefði ekki átt að gang upp en Magnús Pálmi lék sig í tap með 18…Bf7??
Birkir var vakandi og fann 19.Bc4!! og hvítur braust í gegn og restin af skákinni góð!
Skákþingið heldur áfram á miðvikudaginn þegar fimmta umferð verður tefld. Arnar hefur hvítt gegn Degi, Jóhann H. og Jóhann Ingvason mætast og Sigurður Páll hefur hvítt gegn Halldóri Grétari.
Teflt er á sunnudögum klukkan 13:00 og miðvikudögum klukkan 18:30.
Dagskrá:
- umferð miðvikudag 7. jan 18:30
- umferð sunnudag 11. jan 13:00
- umferð miðvikudag 14. jan 18:30
- umferð sunnudag 18. jan 13:00
- umferð miðvikudag 21. jan kl. 18:30
- umferð sunnudag 25. jan 13:00
- umferð miðvikudag 28. jan 18:30
- umferð sunnudag 1. feb 13:00
- umferð miðvikudag 4. feb 18:30
Sjálfkrafa tap dæmist á keppanda sem mætir á skákstað meira en 30 mínútum eftir upphaf umferðar.
Tímamörk:
90 mín á 40 leiki, síðan 15 mín, auk 30 sek eftir hvern leik alla skákina.
Skákstjórn:
Daði Ómarsson og Jon Olav Fivelstad
Aðalverðlaun
- 1. sæti kr. 110.000
- 2. sæti kr. 55.000
- 3. sæti kr. 35.000
Aukaverðlaun
Aukaverðlaun eru þannig að frá og með 11. skákmanni miðað við upphafsröð í mótinu (strarting rank) verður skákmönnum, þaðan og niður, skipt í fjórar jafnstórar stigagrúbbur. Sem dæmi: Taki 50 manns þátt í mótinu þá væri þetta svona:
Efstu 10 keppa ekki um aukaverðlan, heldur aðalverðlaun.
Keppendur númer 11.-20. í upphafsröð keppa um aukaverðlaun A.
Keppendur númer 21.-30. í upphafsröð keppa um aukaverðlaun B.
Keppendur númer 31.-40. í upphafsröð keppa um aukaverðlaun C.
Keppendur númer 41.-50. í upphafsröð keppa um aukaverðlaun D.
Sá sem endar mótið efstur í A grúbbu vinnur því aukaverðlaun A, og svo framvegis.
Aukverðlaun í öllum flokkunum fjórum eru 12.500 krónur.
Oddastig (tiebreaks):
1. Fleiri tefldar skákir 2. Buchholz (-1) 3. Buchholz 4. Innbyrðis úrslit 5. Sonneborn-Berger
Þátttökugjöld:
kr. 8.000 fyrir 18 ára og eldri.
kr. 4.000 fyrir 17 ára og yngri.
Frítt fyrir Stórmeistara
Keppt er um titilinn Skákmeistari Reykjavíkur 2026 og hlýtur sá keppandi sem verður efstur þeirra sem eiga lögheimili í Reykjavík, eða eru félagsmenn í reykvísku skákfélagi, titilinn og farandbikar til varðveislu í eitt ár. Núverandi Skákmeistari Reykjavíkur er Oliver Aron Jóhannesson.
Verði keppendur jafnir að vinningum í þremur efstu sætunum, verður verðlaunum skipt (Hort-kerfi), en oddastig (tiebreaks) látin skera úr um lokaröð. Aukaverðlaun ganga óskipt til þess sem hefur flest oddastig.
Skákþing Reykjavíkur er reiknað til alþjóðlegra skákstiga.
















