Norðurlandamóti ungmenna lauk í Helsingborg í Svíþjóð í dag.
Í A-flokki var aldrei spurning um sigurvegarann. Vignir Vatnar Stefánsson sýndi fádæma yfirburði og vann flokkinn með fullu húsi, 6 vinninga af 6 mögulegum. Alexander Oliver Mai tefldi mjög vel í dag – vann í morgunumferðinni og var svo grátlega nálægt því að leggja hinn sterka FM Törngren í lokaumferðinni en varð að sætta sig við jafntefli. Sigur hefði þýtt að Alexander hefði náð verðlaunasæti. Alexander Oliver Mai endaði með 3,5 vinning.

1. Vignir Vatnar Stefánsson 6 v.
2. Gustav Torngren Svíþjóð 4,5 v.
3. Daniel Petersen Danmörku 4 v.
Í B-flokki var jöfn og hörð keppni. Aleksandr Domalchuk-Jonasson átti mjög góðan dag og lagði FM Östlund í morgunumferðinni, með svörtu. Í lokaumferðinni mætti hann FM Liu og hefði þurft að vinna til þess að eiga möguleika á sigri í flokknum. Á endanum sættust keppendur á jafntefli og Aleksandr tók silfrið – sem var mjög góður árangur. Benedikt Briem var ekki eins farsæll í dag og eftir slæma tapskák í morgun sættist hann á frekar stutt jafntefli í síðari skák dagsins. Aleksandr endaði með 4 vinninga og Benedikt með 2,5.
1. Elmi Saad Abobaker Noregi 4,5 v.
2. Aleksandr Domalchuk-Jonasson 4 v.
3. Joar Östlund Svíþjóð 3,5 v.
Í C-flokki var Ingvar Wu Skarphéðinsson í toppbaráttunni fyrir lokadaginn. Hann fékk erfiða pörun í morgunumferð dagsins, svart gegn hinum efnilega sænska FM Trost. Ingvar sýndi úr hverju hann er gerður og tefldi hörkuskák sem lyktaði með jafntefli. Ef eitthvað er þá mátti sá sænski þakka fyrir þau úrslit. Í lokaumferðinni tapaði Ingvar en það kom ekki að sök því hann endaði í 2. sæti sem er mjög góður árangur. Gunnar Erik hóf daginn á jafntefli og tapaði í lokaumferðinni, eftir sveiflukennda skák. Ingvar Wu endaði með 4 vinninga og Gunnar Erik með 2.
1. Sverre Lye Noregi 5,5 v.
2. Ingvar Wu Skarphéðinsson 4 v.
3. Edvin Trost Svíþjóð 4 v.
Í D-flokki töpuðu íslensku fulltrúarnir, Guðrún Fanney Briem og Mikael Bjarki Heiðarsson bæði í morgunumferðinni. Þau mættust síðan í lokaumferðinni og hafði Guðrún Fanney sigur eftir mikla baráttu. Guðrún Fanney endaði með 2,5 vinning og Mikael Bjarki með 2 vinninga.
1. Nicolai Maxime Ostenstad Noregi 4,5 v.
2. Emil Zander Danmörku 4 v.
3. Niklas Jaakkola Finnlandi 4 v.
Í E-flokki varð Sigurður Páll að sætta sig við tap í morgunumferðinni, eftir ónákvæmni í fínni stöðu. Á sama tíma náði Jósef ekki að gera sér mat úr vænlegri stöðu sinni og varð að sætta sig við jafntefli. Svekkjandi úrslit en strákarnir komu sterkir til baka og unnu báðir örugga sigra í lokaumferðinni. Sigurður Páll endaði með 3,5 vinning og Jósef með 3 vinninga.
1. Radmir Vorobyov Finnlandi 5 v.
2. Sigur H. Myny Noregi 4,5 v.
3. Victor Lillehöök Svíþjóð 4,5 v.
Íslenski hópurinn stóð sig með mikilli prýði á mótinu bæði í framkomu og vinnubrögðum. Liðsmenn vöktu athygli fyrir samstöðu og kæðiburð – en allir íslensku keppendurnir tefldu í merktum landsliðstreyjum frá Henson.
Þjálfarar og fararstjórar íslenska hópsins voru Helgi Ólafsson og Björn Ívar Karlsson.

Mótið á Chess-results
Beinar útsendingar















