Ótrúlegar senur áttu sér stað á öðrum keppnisdegi Heimsmeistaramótsins í Fischer-slembiskák sem haldið er í tilefni af 50 ára afmælis einvígis aldarinnar. Heimsmeistarinn í slembiskák, Wesley So, gerðist sekur um hreint ótrúleg mistök þegar hann hugðist svara skák Ian Nepomniachtchi með því að bera fyrir með því að hrókfæra!
Staðan í upphafi dags var svona:
Abdusattorov var kominn í góða stöðu í A riðli á meðan að Nakamura komst í oddastöðu í B-riðli. Á öðrum keppnisdegi tefldu keppendur tvö einvígi við sama keppandann. Það kom í hlut Hjörvars að tefla tvsivar við Nodirbek Abdusattorov, heitasta mann mótsins, alls 4 skákir.
Nodirbek undirbýr sig fyrir skák gegn Hjörvari
Hjörvar tefldi mun betur á öðrum keppnisdegi og er greinilega kominn með betri tilfinningu fyrir byrjunarstigi slembiskákarinnar. Hjörvar lenti lítið í vandræðum í byrjunum í dag og átti í fullu tré við Nodirbek. Í fyrstu skákinni í báðum einvígjum fékk Hjörvar mjög góðar stöður, missti af sleggju í einni skákinni og var líklegast peði yfir fyrir nánast ekki neitt í hinni.
Nodirbek er hinsvegar bæði algjört skrímsli í útreikningum og ótrúlega úrræðagóður ef hann lendir í verri stöðum. Kristallast það kannski best á snjöllum leik hans í fyrstu skákinni.
29…Rd5!! magnaður leikur sem gerir svörtu stöðuna unna. Hvítur getur ekki drepið á e6 vegna …Rxe3! og mátið á d1 er ansi leiðinlegt að eiga við.
Heilt yfir var Nodirbek betri en 4-0 voru ekki sanngjörn úrslit.
Uppgjör þeirra Wesley So og Ian Nepomniachtchi var alltaf að fara að verða mikilvægt. Abdusattorov lagði þá báða að velli á fyrsta keppnisdegi og því nánast ljóst að sá sem myndi hafa betur í dag væri kominn í kjörstöðu. Óhætt er að segja að einvígi þeirra hafi ráðist á ótrúlegan hátt.
Fyrra einvígið fór 1-1 þar sem báðir unnu með hvítu mönnunum með mikilli seiglu, sérstaklega Wesley sem tefldi 100 leikja skák í annað skiptið á mótinu.
Seinna einvígið var því orðið gríðarlega mikilvægt en þar gerðust ótrúlegir hlutir!
Wesley leyfði skák á 8. reitaröð, 18.Da8+ og hafði í hyggju að svara því með því að hrókera, þar sem hrókurinn myndi þá blokka skákina

Eins og í venjulegri skák þá er einfaldlega ólöglegt að hróka þegar kóngurinn er í skák! Wesley So tapaði því fyrstu skákinni í seinna einvíginu af því að hann hafði ekki hrókunarregluna nægjanlega á hreinu! Gjörsamlega ótrúlegt!
Wesley So says Magnus also thought it was possible to block a check by castling if it didn't mean moving your king. "I just never really bothered to read Fischer Random rules in the past – I just played by feeling!" https://t.co/ZjXO2w5TYk #FischerRandom #c24live pic.twitter.com/ct4NHRTeGS
— chess24.com (@chess24com) October 26, 2022
Wesley náði ekki að hefna í seinni skákinni og Nepomniachtchi því kominn í ákjósanlega stöðu að fylgja Abdusattorov eftir í undanúrslitin.
Í b-riðlinum átti Magnus Carlsen nokkuð náðugan dag en hikstaði þó örlítið gegn Matthias Bluebaum.
Carlsen vann fyrra einvígið nokkuð auðveldlega en í fyrstu skákinni í seinna einvíginu lenti hann í vandræðum eftir 10.h4?
Flestir hefðu treyst heimsmeistaranum og fundið einhverskonar vörn. Bluebaum hinsvegar tefldi skákina og sá að Carlsen hafði yfirsést 10…Rxh4 11.Hxh4 b5! og hvítur vinnur ekki lið heldur tapar peði. Carlsen náði að redda sér í jafntefli og harkaði svo sigur í seinni skákinni í seinna einvíginu.

Vladimir Fedoseev opnaði B-riðilinn upp á gátt með því að gera tvö jafntefli í einvígjunum við Nakamura. Ótrúlegt en satt enduðu allar skákirnar með jafntefli, flestar þó eftir þvílíkar sviptingar.
Skák númer tvö í fyrra einvíginu var flippsturluð. Í miklum flækjum léku þeir besta leiknum þrisvar í röð, þar á meðal 21…Rxd2! sem er með flippaðri leikjum sem sést hafa á mótinu!
Samantekt Hikaru á þessu skemmtilega einvígi
Nokkuð ljóst að háspenna er framundan á morgun. Abdusattorov stendur vel en aðrir gætu allir misst af sæti í undanúrslitum!

Samantekt á RÚV: HM í Fischer-slembiskák: Samantekt – Þáttur 2 af 5 | RÚV Sjónvarp (ruv.is)















