Undanúrslitin á Heimsmeistaramótinu í Fischer-slembiskák hafa vafalítið komið mörgum á óvart. Flestir áttu von á Magnus Carlsen í úrslitum og Nodirbek Abdusattorov hefur verið stjarna mótsins hingað til en báðir máttu þeir þola tap í undanúrslitunum.

Magnus Carlsen hafði kannski ekki verið alveg í sínu besta formi en Nepominiachtchi aftur á móti ekki heldur þannig að flestir áttu von á Norðmanninum áfram. Carlsen byrjaði vel og veitti Nepo hálfgert rothögg í fyrstu skákinni.

14…Hxf4! var skemmtilegur leikur. Kæfingarmát og mát á fyrstu reitarröð blasa við ef hvítur tekur hrókinn. Einhvern veginn náði Nepo samt að berjast og Carlsen varð eiginlega að vinna skákina aftur áður en hann knésetti Nepo.

Magnus virtist svo algjörlega klár í bátana í skák númer tvö en þá var eins og einvígið hefði algjörlega snúist við. Góð kóngssókn Carlsen rann í sandinn og í stöðu í jafnvægi missir hann af 31…Bxe5 leik Nepo og er lentur í skítastöðu. Nepo lét tækifærið ekki renna sér úr greipum og refsaði heimsmeistaranum fyrir mistökin.

Þriðja skákin var frábær af hálfu Nepo. Hann fórnaði peði fyrir góð færi og Carlsen reiknaði ekki nógu vel þegar hann lék. 20.Rxc6?

Nepo svaraði að bragði með 20…Re2+ sem vinnur. Carlsen hefur líklega haldið að svartur ætti bara þráskák en svo var ekki. Carlsen hefur verið langt frá sínu besta á þessu móti, hvað svo sem veldur!

Carlsen var nú kominn með bakið upp við vegg. Hann þurfti að vinna með svörtu en þrátt fyrir að fá ágætis stöðu náði hann aldrei að búa til neitt af viti og endaði meira að segja á að tapa skákinni.

Nepo reyndist einfaldlega betri en Carlsen í dag og spurning hvort að moðreykur svindlmála og málaferla hafi einfaldlega legið og þungt á Carlsen. Hann var allavega langt frá sínu besta og lék óvenjulega oft af sér og það þegar stöðurnar voru komnar í miðtafl/endtafl en ekki í óræðum slembiskákar byrjunarstöðum.

Einvígi þeirra Nakamura og Abdusattorov náði ekki að uppfylla væntingar skákáhugamanna. Abdusattorov hafði einfaldlega farið með himinskautum framan af móti en hann hrapaði harkalega á jörðina í dag gegn Hikaru. Nakamura virtist einhvern veginn alltaf hafa réttu svörin á reiðum höndum og var mjög slakur og rólegur í öllu sínu fasi eins og hann hefði allt á hreinu, sem hann og virtist gera!

Nakamura fangaði drottningu Úzbekans í fyrstu skákinni en Úzbekinn fékk þó tvo hróka fyrir. Hinsvegar náði sá bandaríski að véla einum manni með í kjölfarið og vörnin varð of erfið þegar leið á.

Önnur skákin varð pósaþjappa af bestu gerð hjá Nakamura. Abdusattorov varð strandaður með lélegan riddara úti á jaðri borðsins og Nakamura nýtti sér það til hins ýtrasta.

Abdusattorov beið nú erfitt verkefni, að vinna tvisvar í röð gegn Nakamura sem er taplaus á mótinu hingað til. Nodirbek fékk líklegast sinn besta séns í þessu einvígi þrátt fyrir að hafa líklegast tapað skiptamun í byrjuninni frekar en að fórna honum. Bæturnar urðu hinsvegar mjög góðar en Nakamura var vandanum vaxinn og tefldi vel gegn biskup hvíts sem var innilokaður.

Þar með er ljós að Nakamura teflir í úrslitum, og mætir þar Ian Nepomniachtchi

Úrslitin hefjast klukkan 15:00 á morgun en jafnframt er teflt um sæti.

Úrslit: Hikaru Nakamura – Ian Nemponiachtchi

3. sæti: Magnus Carlsen – Nodirbek Abdusattorov

Carlsen og Abdusattorov mætast í keppni um 3. sætið á morgun

5. sæti: Wesley So – Vladimir Fedoseev

7. sæti: Hjörvar Steinn Grétarsson – Matthias Bluebaum.

Góð stemmning er á Hotel Natura

Ballið hefst klukkan 15:00 og áhorfendur eru velkomnir og aðgangur ókeypis!

- Auglýsing -