Á glæsilegri uppskeruhátíð Umf. Fjölnis í Keiluhöllinni voru þau Sóley Kría Helgadóttir og Theodór Helgi Eiríksson útnefnd skákkona og skákmaður ársins.

Sóley Kría er nemandi í 10. bekk. Hún hefur teflt með skáksveitum Rimaskóla og skákdeild Fjölnis allt frá fyrstu grunnskólaárum. Í dag er hún einn af þjálfurum skákdeildarinnar á hinum fjölmennu skákæfingum alla fimmtudaga. Sóley Kría vann áskorendaflokk Íslandsmóts kvenna fyrr í haust með fullu húsi og ávann sér sæti á Íslandsmóti kvenna árið 2024.

Sóley Kría var ein fjögurra kvenna frá Skákdeild Fjölnis sem tók þátt í fyrsta Stockholm Ladies skákmótinu í byrjun september og auk þess hefur hún tekið þátt í skólaheimsóknum nemenda Rimaskóla til Færeyja og Grænlands.

Theodór er nemandi í 8. bekk Foldaskóla. Hann hefur tekið þátt í skákæfingum Fjölnis í nokkur ár með stöðugum framförum. Fyrir ári síðan ákvað Theodór að taka skákíþróttina fastari tökum með því að stúdera skákir, sækja öll námskeið Skákskóla Íslands og taka þátt í nánast öllum mótum sem í boði hafa verið. Árangurinn athyglisverður og er drengurinn einn af þeim sem hækkar mest á skákstigum á milli mánaða.

Í vor tók Theodór þátt í Deltalift Open Grand Prix helgarskákmótinu í Svíþjóð og þar komu berlega í ljós þær framfarir sem veturinn á undan höfðu fært honum. Theodór var valinn afreksmaður vetrarins í lok skákæfinga 2022 -2023. Hann hefur í haust unnið Bikarsyrpumót TR og leiddi A sveit Fjölnis á Íslandsmóti Barna-og unglingasveita í nóvember.

- Auglýsing -