Vignir Vatnar Stefánsson heldur áfram sínu góða gengi á SixDays Budapest May mótinu en tvær umferðir fóru fram í dag, sú sjöunda og áttunda. Alls kom 1,5 vinningur í hús þar og Vignir leiðir mótið með 6,5 úr skákunum 8 fyrir lokaumferðina.
Í fyrri umferðinni hafði Vignir hvítt gegn IM Guillaume Lamard (2500). Vignir lenti undir töluverðri pressu úr byrjuninni en Frakkinn fann ekki leið til að nýta sér frumkvæðið og þrálék, Vignir þá peði yfir en svartur enn með hættulega pressu.
Í seinni skákinni hafi Vignir svart gegn FM Akshay Borgaonkar (2372). Vignir tefldi sikileyjarvörn, kalashnikov-afbrigðið og fórnaði peði fyrir frumkvæði sem virtist vera rétta leiðin. Vignir vann svo peðið til baka og hafði enn gott frumkvæði. Vignir hélt kraftataflmennskunni áfram og sigldi vinningnum heim.

Í lokaumferðinni á morgun hefur Vignir hvítt á ungverska stórmeistarann Adam Horvarth (2447).
- Mótið á chess-results
















