Skákmótunum í Upplands Väsby lauk í dag með síðustu umferðum í GM- og IM-flokki Hotel Stockholm North Young Talents mótaraðarinnar. Íslensku keppendurnir Vignir Vatnar Stefánsson og Aleksandr Domalchuk-Jónasson luku þar keppni eftir tæplega viku af baráttu við skákborðið gegn sterkum evrópskum andstæðingum.
♟️ Vignir – sigur gegn Willow og 2. sæti
Vignir Vatnar mætti Jonah Willow (2471) í níundu umferð og náði þar að hefna ófaranna fyrir einu tapskák sína á mótinu. Í þetta sinn snerist taflið við, Vignir náði að pína andstæðing sinn peði yfir. Undirbúningur Willow virtist góður og hann jafnaði taflið í tölvunum. 20. leikur hans var hinsvegar slakur en alls ekki auðvelt að sjá það eftir 20…Hab8?
Vignir var vandanum vaxinn og fann 21.Hb4! og ótrúlegt en satt er svartur í miklum vandræðum og tapar peði. Biskupinn á c6 svörtum til mikils vansa. Skákin tefldist 21…Hbd8 22.Hxd8 Hxd8 23.Hc4 og hrókurinn kemst inn á sjöundu og a7-peðið fellur. Sem dæmi um vandræði svarts, leikur eins og 21…g6 til að lofta út væri svarað með 22.Hd6 og vandræði biskupsins eru aftur of mikil, hann á í raun enga góða reiti.
Í lokaumferðinni (10. umferð) tefldi Vignir síðan við Vitaly Sivuk (2505) sem hafði forystu í mótinu – skákin endaði með jafntefli þar sem Vignir fór í semi-Tarraschinn með svörtu og báðir virtust sáttir við skiptan hlut.
Vignir lauk því mótinu með 5,5 vinning af 10 og hafnaði í öðru sæti á eftir Sivuk með 6 vinninga. Þrátt fyrir 2,2 elóstiga lækkun tefldi Vignir stöðugt og sótti jafnt og þétt í sig veðrið gegn sterkri samkeppni. Aðeins eitt tap leit dagsins ljós hjá Vigni og stöðugleikinn því nokkuð góður. Vonandi góður grunnur fyrir mót sumarsins þar sem Vignir ætlar sér mikinn.
🔁 Aleksandr – slapp með skrekkinn og endaði í fjórða sæti
Aleksandr Domalchuk-Jónasson tefldi aðeins eina skák í dag, gegn FM Vitus Bondo Medhus (2329) frá Danmörku í lokaumferðinni. Þar slapp hann með jafntefli eftir að hafa verið undir töluverðu álagi í miðtafli, en tókst að halda jafnvægi og ná í hálfan vinning…þar munaði mest um mistlita biskupa sem hafa oft komið Sasha til bjargar í erfiðum stöðum!
Aleksandr endaði með 5,5 vinninga af 9 og hafnaði í fjórða sæti í sínum IM-flokki. Hann tapaði 2,5 elóstigum á mótinu. Örlítið vantaði upp á stríðsgæfuna góðu á köflum og ljóst að Aleksandr á mikið inni.
Við óskum íslensku víkingunum áframhaldandi hins besta í framtíðar baráttu við borðið en nú er leik lokið á þessu móti í Svíþjóð! 🇮🇸♟️


















